02.04.1957
Efri deild: 81. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

146. mál, heilsuvernd í skólum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um heilsugæzlu í skólum á sér þann aðdraganda, að í lögum um fræðslu barna frá 1946 er svo kveðið á, að ráðinn skuli sérfróður læknir, skólayfirlæknir landsins, er skipuleggi og hafi yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti svo og íþróttastarfsemi. Í sömu lögum segir enn fremur:

„Lækniseftirliti með heilbrigði skólabarna og kennara og hollustuháttum skólanna skal haga eftir reglum, er heilbrigðismálastjórn setur í samráði við fræðslumálastjórn.“

Á þessum lagafyrirmælum mun hafa verið byggt, þegar ákveðið var af fyrrverandi ríkisstj. að stofna til embættis skólayfirlæknis. Var eini læknirinn í kennarastétt, Benedikt Tómasson skólastjóri Flensborgarskólans í Hafnarfirði, fenginn til að taka að sér embættið og fara þegar til útlanda til þess að kynna sér framkvæmd heilsugæzlu í skólum, bæði í Bretlandi og á Norðurlöndum. Ég hygg, að það verði varla um það deilt, að mjög fær maður hefur verið valinn í embætti skólayfirlæknis landsins. Benedikt Tómasson kom heim úr þessari för á liðnu sumri og hóf þá þegar starf sitt í þjónustu heilsugæzlunnar í skólum landins.

Með því að hér er hafið mjög þýðingarmikið og fjölþætt starf, en engin lagafyrirmæli til um framkvæmd þess, þótti einsætt að móta það þegar í upphafi með lagasetningu og gera auk þess ráð fyrir nánari ákvæðum um einstök framkvæmdaratriði heilsugæzlustarfsins í skólunum með setningu reglugerðar. Af þessum sökum er þetta frv. fram borið. Höfundar þess eru landlæknir og skólayfirlæknir. Mjög ýtarleg grg., sem Benedikt Tómasson hefur samið, fylgir frv., og tel ég hana þess verða, að hv. alþm. gæfu sér tóm til að lesa hana.

Það skal tekið fram til þess að fyrirbyggja misskilning, að með þessu frv. eru engar beinar nýjar kvaðir lagðar á ríki og sveitarfélög, því að það verður eftir sem áður á valdi þessara aðila að ákveða hverju sinni fjárframlög til heilsugæzlustarfsins, og undir því er mjög mikið komið, hversu viðfeðmt það getur orðið. Aðaltilgangur frv. er því einkum sá að lögfesta meginatriði starfsemi, sem farið hefur fram, en þó jafnframt — og á það legg ég áherzlu — að veita heimild til samræmdari og virkari þjónustu og hagkvæmari notkunar bæði á fé og starfskröftum.

Það er vissulega rétt, sem segir í grg., að heilbrigðiseftirlit í skólunum hefur vaxið upp skipulagslítið. Það má heita, að það hafi víðast hvar aðeins verið fólgið í læknisskoðun nemenda í byrjun skólaárs, en skv. ráðuneytisbréfi til fræðslumálastjóra haustið 1916 var í fyrsta sinn lagt fyrir héraðslækna að líta eftir því, að húsakynni skólanna séu ekki heilsuspillandi, að kennarar séu ekki með smitandi sjúkdóma og að börn og unglingar, sem reynist vera með smitandi sjúkdóma, séu ekki tekin í skóla. Þetta hefur verið grundvöllur heilsugæzlustarfsins í skólum fram að þessu, með litlum viðaukum, en engri lagasetningu.

Við skólaskoðun hefur berklaskoðunin verið aðalatriðið, og óneitanlega er hún þýðingarmikil, en samt hvergi nærri einhlít. Víðast hvar hefur lítið verið gert að skoðun lokinni til þess að bæta úr þeim heilsufarságöllum, sem skoðanirnar hafa leitt í ljós. Heyrnarsljóa barnið hefur aðeins verið skráð á skýrslur. Það sjóndapra eða nærsýna sömuleiðis. En engin aðstoð hefur verið veitt, nema hvað einstaka kennarar eða skólastjórar kunna að hafa haft framtak um það, eftir því sem unnt reyndist. Framkvæmdin hefur þannig verið í molum, en óþarflega miklum tíma hins vegar varið í síendurteknar rannsóknir á heilbrigðu nemendunum. Þetta þyrfti auðvitað að lagast. Eftirlit með heilsufari hinna heilsutæpu og óhraustu barna og unglinga þarf að vera virkt, og aðstoð verður að fylgja í framkvæmd.

Unglingaskólar hafa mikils til orðið út undan um framkvæmd þessa vísis að heilsugæzlu, sem ástunduð hefur verið fram til þessa. En einmitt þar, í unglingaskólunum, er fullkomin heilsugæzla e.t.v. hvað nauðsynlegust. Þar dveljast nemendur á hinu viðkvæma kynþroskaskeiði, sem er byltingarkenndasta tímabil bæði líkamlegs og andlegs þroska.

Þessu frv. er ætlað að tryggja heilsugæzlu í öllum íslenzkum skólum nema í háskólanum. Sú undantekning er þó vissulega ekki gerð sökum þess, að þar sé heilsugæzlustarfs ekki þörf, heldur er minnzt þeirrar sérstöðu háskólans, að við hann starfar læknadeild, sem á fyllilega að geta annazt heilsugæzlu stúdentanna, og þykir því óþarft, að höfð séu afskipti af þeim málum af öðrum aðilum.

Í hverju á nú heilsugæzla skólanna að vera fólgin? Skólayfirlæknir lýsir því svo: Heilsugæzlustarf skála þarf einkum að vera fólgið í eftirfarandi: 1) Eftirliti með berklaveiki og öðrum smitandi sjúkdómum. Það er það, sem hefur raunar verið framkvæmt. 2) Almennri skólaskoðun. 3) Eftirliti með gæzlunemendum, þ.e.a.s. hinum heilsutæpu eða sem eitthvað er áfátt heilsufarslega, og tæknilegri hjálp þeim til handa. 4) Eftirliti með námskröfum skólanna. 5) Eftirliti með íþróttakennslu. 6) Eftirliti með teikningum af nýjum skólahúsum og breytingum á skólahúsnæði. 7) Eftirliti með skólahúsgögnum, hreinlæti og aðbúnaði í skólum og á heimill. 8) Eftirliti með klæðnaði og líkamshirðingu. 9) Tannvernd. 10) Fræðslu um hollustuhætti.

Hér vil ég leyfa mér að staldra aðeins við eitt þessara atriða, sem nú voru talin upp, nefnilega námskröfur skólanna til nemendanna. Um það atriði eru merkilegar og athyglisverðar upplýsingar í ritgerð skólayfirlæknisins, þeirri sem prentuð er hér með frv. Þar segir hann m.a. svo:

„Nauðsynlegt er, að læknar hafi meira eftirlit en verið hefur með námskröfum skóla og heildarvinnutíma nemenda. Með því að leikni og kunnátta í námsgreinum er að kalla eini mælanlegi árangur skólavistar, hart er að skólum gengið í því efni, bæði af aðstandendum og öðrum, og sá skóli mest metinn, sem fastast gengur eftir, er varla að undra, þótt það sitji í fyrirrúmi að koma sem mestum fróðleik í nemendur, en út undan verði aðrir þættir í hlutverki skóla, sem ekki er þó minna um vert. Ekki munu hafa verið gerðar nema lauslegar athuganir á vinnutíma nemenda í skólum hérlendis, enda er ekki auðvelt að koma við hlutlægri rannsókn. Er ef til vill óvarlegt að nefna tölur að svo lítt rannsökuðu máli, en ólíklegt verður að telja, að börn í efstu bekkjum barnaskóla í kaupstöðum komist af með öllu skemmri vinnutíma en átta klukkustundir á dag, ef gera á námsefninu góð skil, þó að kröfur um heimavinnu séu að vísu mjög komnar undir einstökum kennurum, einkum þar sem um bekkjarkennslu er að ræða. Í grein, sem Jóhannes Björnsson dr. med., skólalæknir, hefur ritað, er talið líklegt, að 12–13 ára börn í barnaskólum Reykjavíkur þurfi að vinna um 60 stundir á viku, en siðan sú ritgerð var samin, hefur vikustundum verið fækkað í skólunum. Í bóklegum framhaldsskólum, þar sem fagkennarar einir kenna og námsefnið er að kalla fastskorðað, er miklu auðveldara að fara nærri um daglegan vinnutíma. Leikur ekki vafi á, að enginn, nema e.t.v. örfáir afburða námsmenn, kemst þar af með minna en I0 stunda vinnu á dag til þess að ná viðunandi tökum á námsefninu, og eru til um þetta nægir vitnisburðir foreldra og kennara. Ekki verður þó gerð nein tilraun til að gizka á, hve mikill hundraðshluti nemenda vinnur raunverulega svo lengi, en hann er sennilega stærri en margan grunar, sem lítt hefur kynnt sér þessi mál. En það skiptir ekki heldur meginmáli, með því að skyldunámsskólum er vitaskuld óheimílt að gera til nemenda sinna kröfur, sem fyrir fram er vitað um að miður gefnir nemendur ráða alls ekki við og hinir betur gefnu ekki án þess að vinna úr hófi fram. Víst er, að vinnuharka í skólum hefur aukizt stórum á undanförnum árum og að aldrei hafa verið gerðar slíkar kröfur til nemenda almennt og jafnungra sem nú. Að þessu hefur margt stuðlað, en líklega ekki sízt samræming sú og kvörðun (standarðisering), sem á komst með nýju skólalöggjöfinni, þó að ekki hafi hún gefið beint tilefni til þess. En óþarft er að rekja orsakir nánara hér. Aðalatriðið er, að þjóðfélagið krefst nú tvímælalaust lengri vinnudags af börnum og unglingum en af fulltíða fólki, sem vinnur sambærileg störf, og þau eru stimpluð ónytjungar, ef ekki er orðið við kröfunum. Vinnutími þeirra manna hérlendra, sem stunda andlega vinnu og hafa reglulegan vinnutíma, mun yfirleitt vera frá kl. 9 að morgni til kl. 5 síðdegis, þ.e. ekki yfir 7 stundir. Mundi þykja linlega að staðið, ef nemandi, sem kominn á að vera í skóla kl. 8 að morgni, liti ekki í bók eftir kl. 4 síðdegis. En vaninn virðist hafa gert menn sljóa fyrir þessu, svo að nemandi er talinn vanrækja nám sitt, ef hann vinnur ekki mestan hluta dagsins og helzt einnig á kvöldin. Er þetta viðhorf líklega arfleifð, bæði hér og erlendis, frá þeim tíma, er menntaskólar og háskólar voru að kalla einu skólar þjóðfélagsins, en kröfur slíkra skóla hafa ætið verið miðaðar við úrval.

Ekki er þó lengd vinnutímans ein saman mælisnúra á hættuna, heldur kemur hér einnig og ekki siður til greina eðli verksins. Börn og unglingar eru hvort sem er að eins konar iðju, meðan þau eru á fótum, og sumir eru svo gerðir, að þeir njóta þess að sökkva sér sem fastast í nám. Hættan er fólgin í því, hversu einhæf skólavinna er, í löngum kyrrsetum, innivist og andlegu álagi, sem getur orðið mjög mikið, einkum í prófum. Þó að erfitt sé að færa óyggjandi rök fyrir því, hver hætta stafar af námskröfum þeim, sem nú eru gerðar, má eigi að siður færa fyrir því miklar líkur. Nemendur, sem ráða ekki við nám sökum gáfnatregðu, skorts á líkamlegu þreki eða andlegra og líkamlegra kvilla eða ágalla, gefast fyrr eða síðar upp og neyta allra bragða til að víkja sér undan námi. Veitir skólinn óbeint slíkum nemendum uppeldi í að bregðast skyldum sínum og vinnur því gersamlega andstætt tilgangi sínum. Margir þessara nemenda eru í eðli sinn samvizkusamir og berjast af furðulegri þrautseigju. Mætti hver líta í eigin barm og gera sér grein fyrir því, hvílík þjáning það hlýtur að vera að fást árum saman við verkefni, sem menn ná aldrei neinum tökum á. Slíkum nemendum er búin siðferðileg hætta, auk annars. Nemendur, sem eru heilsuhraustir og gæddir nægum hæfileikum, gera yfirleitt það, sem skólinn krefst af þeim. Að sumu leyti getur námið orðið þeim stæling, en eigi að síður er heilsu þeirra stefnt í hættu með þeim kröfum, sem nú eru gerðar. Hljóta glöggir kennarar að hafa veitt því athygli, hversu guggnir og aðþrengdir margir nemendur eru orðnir, þegar dregur að vori. En auk þess, sem nú hefur verið drepið á, má ekki gleyma þeirri mannúðarskyldu, að börn og unglingar fái að njóta bernsku sinnar og æsku eftir áskapaðri þörf sinni og eigi afgangs nokkra orku til að sinna hugðarefnum sínum, sem skólar fá ekki ætíð svalað með þeim fábreyttu verkefnum, sem þar er völ á, ekki sízt í framhaldsskólum.“

Þetta tel ég að mörgu leyti vera þarfa hugvekju til skólamanna og annarra.

Nú munu flestir vera orðnir þeirrar skoðunar, að leggja beri höfuðáherzlu á að koma í veg fyrir sjúkdóma; hitt, að lækna sjúkdóma, sé miklu fremur nauðvörn, sem ekki eigi lengur að skipa fyrirrúmið í heilbrigðismálaaðgerðum þjóðarinnar. Höfuðáherzluna eigi sem sé að leggja á að uppræta orsakir sjúkdóma, að gera menn ónæma fyrir smitsjúkdómum og leita byrjandi sjúkdóma með hvers konar rannsóknaraðferðum og rannsóknartækjum. Reynslan hefur einmitt sýnt, að mjög margir sjúkdámar, sem í ljós koma á fullorðinsárunum, eiga rót sína að rekja til veilna frá vaxtarárunum. Þangað ber því að beina vísindalegri athygli í öllu heilsuverndarstarfi. Og nú vill svo til, að auðvelt er að ná til allra einstaklinga á tilteknu aldursskeiði í skólum landsins. Það er því sjálfsagt að ástunda vel skipulagða heilsuverndarstarfsemi, og er það margra skoðun, að almenn heilsuvernd sé nálega óframkvæmanleg og óhugsandi, svo að í nokkru lagi sé, án rækilegs heilbrigðiseftirlits í skólum. Þess vegna er það skoðun mín, að þetta frv. megi teljast til stórmála, og vænti ég mikils af framkvæmd þess í höndum þess ágætismanns, sem valizt hefur í embætti skólayfirlæknis.

Ef til vill er rétt að rifja upp fyrir hv. þingmönnum, hvað Benedikt Tómasson skólayfirlæknir telur í stuttu máli vera hlutverk skólayfirlæknis landsins, en um það segir hann svo:

„Hlutverk skólayfirlæknis er í meginatriðum það að vera sérfræðilegur ráðunautur fræðslumálastjórnar, heilbrigðisstjórnar og einstakra skóla við að skipuleggja heilsugæzlukerfi skólanna í heild og stjórna starfi heilbrigðisstarfsfólks þeirra, að fylgjast með andlegum og líkamlegum þroska, heilsufari, skólavinnu og aðbúð þeirrar kynslóðar, sem á skólabekk situr hverju sinni, hafa forgöngu um almennar ráðstafanir henni til heilsuverndar og beita sér fyrir því, að leitað sé tiltækilegrar lækningar eða annars konar hjálpar þeim, sem á þurfa að halda, og loks að stuðla að auknum skilningi almennt á mikilvægi hófsamlegra lifnaðarhátta og sköpunar á hollum lífsvenjum. Af einstökum atriðum má nefna að vera ráðunautur um vikulegan hámarksvinnustundafjölda hvers aldursflokks nemenda, um val og iðkun skólaíþrótta, um mataræði í heimavistarskólum, um fræðslu í heilsufræði og slysahjálp, um gerð skólahúsa og skólahúsgagna, að skipuleggja námskeið í skólaheilsufræði fyrir skólalækna, skólahjúkrunarkonur og kennara, að heimta inn skýrslur um skólaheilsugæzluna og vinna úr þeim og fleira. Eftirlit með íþróttastarfsemi er einkum fólgið í því að skipuleggja læknisskoðun á íþróttamönnum og leita úrræða til að draga úr ofþreytu og slysahættu.“

Þetta voru ummæli skólayfirlæknis um, hvaða hlutverk þessum embættismanni ríkisins sé einkum ætlað.

Ég vil vona, að Alþ. hraði afgreiðslu þessa máls, því að ég tel, eins og ég áðan sagði, að málið sé mjög mikilsvert heilbrigðismál, sem okkur beri að kosta kapps um að verði rætt af alúð sem allra fyrst, af fyllstu þekkingu þess ágæta sérfræðings, sem valinn hefur verið til að gegna því, og að þetta mál verði sett í fremstu röð þeirra mörgu mála, sem okkur ber skylda til að leysa af myndarskap og á allan veg á menningarlegan hátt.

Ég legg til, að málinu verði, þegar þessari umr. lýkur, vísað til heilbr.- og félmn. og 2. umr.