22.05.1957
Efri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

146. mál, heilsuvernd í skólum

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Tilgangurinn með frv. til laga um heilsugæzlu í skólum er, eins og segir í grg., að lögfesta meginatriði starfsemi, sem þegar er til. Heilbrigðiseftirlit hefur verið rækt í öllum skólum landsins nú um margra ára skeið, þótt misjafnlega hafi það verið af hendi leyst, enda aðstæður ekki alls staðar jafngóðar.

Í lögum nr. 34 1946, um fræðslu barna, er kafli um heilbrigðiseftirlit. Eru þar ákvæði um lækniseftirlit með heilsufari skólabarna og kennara og hollustuháttum skólanna, um skipun skólayfirlæknis, er hafi umsjón með heilsuvernd í skólum, og loks heimild til að fela heilsuverndarstöðvum skólaeftirlit. Í l. nr. 58 1946, um menntaskóla, segir svo í 20. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirstjórn skólanna skipar í samráði við skólayfirlækni og skólastjóra skólalækna til 5 ára í senn og ákveður þeim þóknun fyrir starfann. Skólalæknar skulu hafa eftirlit með heilbrigði nemenda og hollustuháttum í skólunum.“

Í l. nr. 48 1946, um gagnfræðanám, er ekki að finna nein bein ákvæði um heilsuvernd í skólum gagnfræðastigsins. Er mér nær að halda, að þar sé um hreina vangá að ræða. Lögin gera sýnilega ráð fyrir skólalæknisstarfi, því að í 15. gr. er svo fyrir mælt, að undanþegnir frá því að stunda lögboðið nám skuli m.a. vera þeir unglingar, sem að dómi skólalæknis og skólastjóra geta ekki haft not venjulegrar skólagöngu vegna líkamlegra eða andlegra annmarka. Loks er í heilsuverndarlögum 1955 gert ráð fyrir heilsuvernd barna og unglinga á skólaaldri sem sérstakri heilsuverndargrein.

Þrátt fyrir nefnd ákvæði í lögum og þrátt fyrir framkvæmd þeirra laga hefur nokkuð skort á um heilsuvernd í skólum. Vissulega er hún viða vel rækt, og alls staðar mun henni eitthvað sinni. En það, sem einkum hefur háð þessari þjónustu almennt, er, að heildarsamræmingu hennar hefur vantað. Skólaeftirlitið hefur ekki verið fært í fastmótað kerfi, sem nái til allra skóla landsins, og um enga sameiginlega yfirumsjón með þessu starfi hefur heldur verið að ræða til þessa. Úr þeim ágöllum er lagafrv. því, sem hér liggur fyrir, ætlað að bæta, og er það bæði brýnt verkefni og mikilsvert.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur haft þetta frv. til athugunar í alllangan tíma. Sendi hún það strax nokkrum sérfróðum aðilum til umsagnar, en svör frá þeim hafa borizt mjög dræmt. Verður að lita á það sem vott þess, að þessir aðilar, sem eru úr hópi skólalækna og annarra heilsufræðinga, hafi ekki haft mikið við frv. að athuga, enda hefur formaður n. fengið það staðfest munnlega bjá nokkrum þeirra.

Um ágreining innan n. hefur ekki verið að ræða, og mælir hún einróma með, að frv. verði samþ. með fáeinum minni háttar breytingum, er ekki raska meginatriðum þess að neinu leyti. Eru þær brtt. ásamt nál. prentaðar á þskj. 586, og skal nú gerð grein fyrir þeim.

Nefndin leggur til, að orðið heilsuvernd verði notað í stað heilsugæzlu alls staðar, þar sem síðarnefnda orðið kemur fyrir í frv. Orðið heilsugæzla er vafalaust þarna komið af vangá, enda er það í ósamræmi við ríkjandi málvenju. Í ritinu Almannatryggingar á Íslandi, sem félmrn. gaf út 1945 og samið var af þeim Jóni Blöndal og Jóhanni Sæmundssyni, er komizt þannig að orði í tillögukaflanum um heilsugæzlu, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir íslenzkir ríkisborgarar, búsettir hér á landi, skulu eiga rétt á fjárhagsaðstoð við heilsugæzlu samkvæmt því, er hér fer á eftir, og í samræmi við önnur ákvæði þessara laga. Heilsugæzla merkir í þessu sambandi bæði heilsuvernd og sjúkrahjálp.“

Síðar í sama riti segir svo:

„Orðið heilsugæzla er látið tákna tvennt: a) heilsuvernd, b) lækning sjúkra.“

Hér leitast höfundar við að festa ákveðna merkingu við heilsugæzluheitið og gefa því víðtækari merkingu en orðið heilsuvernd hefur. Heilsuvernd og sjúkrahjálp eru tveir meginþættir í allri heilbrigðisþjónustu, sem nefnd er heilsugæzla. Löggjafinn hefur síðar notað þessa sömu skilgreiningu orðanna, Í l. nr. 50 1946 segir svo orðrétt: „Heilsugæzla merkir í 1. þessum bæði heilsuvernd og sjúkrahjálp.“ Sama aðgreining er viðhöfð í l. nr. 38 1953, þar sem ráðh. er heimilað að skipa sérstakan heilsugæzlustjóra, sem hafa skal með höndum forstöðu allra læknamálefna Tryggingastofnunar ríkisins, bæði heilsuverndarmála og sjúkrahjálparmála. Þannig er þegar fram komin hefð í þessu efni. Heilsugæzla er annað hugtak og viðtækara en heilsuvernd, og er illt að fara nú að rugla þeim saman. Starf skólayfirlæknis og allra skólalækna er heilsuvernd, en ekki lækning sjúkra, og því ekki heilsugæzlan öll. Þetta liggur í hlutarins eðli, því að starfið er fólgið í eftirliti með heilsufari og hollustuháttum. Í grg. frv. segir líka réttilega, að sjúka nemendur sendir skólalæknir til heimilislæknis. Þar er einnig bent á, að sjúkir skólanemendur skuli ekki aðeins faldir forsjá heimilislæknis, heldur einnig, ef svo ber undir, sendir til sérfræðinga eða sérstakra stofnana til þess að njóta þar þess þáttar heilsugæzlunnar, sem nefnist sjúkrahjálp. Það breytir vitanlega engu í þessu efni, þótt svo hagi til í strjálbýli, að sami læknirinn sé allt í senn skólalæknir, heimilislæknir og sérfræðingur. Starf hans sem skólalæknis er eftir sem áður heilsuvernd. Það breytir heldur engu, þótt skilin á milli heilsuverndar og sjúkrahjálpar séu ekki ævinlega glögg og báðir þessir þættir heilsugæzlunnar grípi nokkuð hvor inn í annan. Þar fyrir er aðgreining á hugtökum og festing orða við þau jafnhentug og mikilsverð. Í heilsuverndarlögum nr. 44 1955 kemur fram ótvíræð staðfesting á, að skólalækniseftirlitið er heilsuvernd, en ekki heilsugæzlan öll. Í 2. gr. þessara l. eru taldar upp helztu heilsuverndargreinar, og er þar í þriðja sæti skólaeftirlit, heilsuvernd barna og unglinga á skólaaldri. Hér ber því allt að sama brunni, orðið heilsugæzla er í frv. notað um annað hugtak en venja er til. Það, sem átt er við í frv., er táknað með heitinn heilsuvernd, og er því rétt að setja það orð inn í frv. alls staðar, þar sem heitið heilsugæzla kemur fyrir. Verði það ekki gert, rekst hvað á annars horn í lögum, sem fjalla um náskyld efni og nú hafa verið nefnd.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að heilsuvernd skuli rækt í öllum skólum samkvæmt reglum, er menntmrh. setur með ráði heilbrigðisstjórnar. Eins og í grg. frv. segir, er nauðsynlegt, að samvinna sé á milli heilbrigðisstjórnar og fræðslumálastjórnar um heilsuvernd í skólum. Hitt getur orkað tvímælis, hvor stjórnin eigi að setja starfseminni reglur, og er það einnig viðurkennt í grg. Í frv. hefur orðið ofan á, að menntmrh. setji reglurnar með ráði heilbrigðisstjórnar. Þetta ákvæði hafa nokkrir aðilar talið óeðlilegt og stungið upp á, að heilsuvernd í skólum skuli rækt samkvæmt reglum, er heilbrmrh. setur í samráði við fræðslumálastjóra. Á sömu sveif hallaðist heilbr.- og félmn., og fjallar 1. brtt. hennar um það atriði. En síðdegis í dag bárust mér tilmæli frá einum hv. alþm. um, að n. tæki aftur þessa till. nú við þessa umr., og ef hv. samnefndarmenn mínir mótmæla því ekki, þá geri ég þau tilmæli hér með að ósk nefndarinnar.

Þá leggur n. til, að gerð verði smávægileg breyting á 3. gr., þess efnis, að skólayfirlæknir skuli auk yfirumsjónar með heilsuvernd í skólum hafa á hendi stjórn þess heilbrigðisstarfsliðs, sem annast hana, að því starfsliði undanskildu, er vinnur á vegum heilsuverndarstöðva.

Með þessu er leitazt við að afmarka sem ljósast verksvið heilsuverndarstöðva annars vegar og skólayfirlæknis hins vegar, þannig að ekki komi til árekstra.

Skv. brtt. fá heilsuverndarstöðvar eftir sem áður að ráða starfslið sitt og stjórna því, en skólayfirlæknir hefur umsjón með, að heilsuverndarstöðvar annist skólaeftirlitið í samræmi við reglugerð og lög.

Síðasta till. n. felur í sér orðalagsbreytingu eingöngu, og er óþarft að fjölyrða um hana. Þess er vert að geta sérstaklega, að þetta frv. til laga um heilsuvernd er víðtækara að efni til en heiti þess segir til um. Það ræðir ekki aðeins um heilsuvernd skólanemenda, heldur einnig um heilsuvernd íþróttamanna. Samkvæmt því skal skólayfirlæknir hafa eftirlit með íþróttastarfsemi í landinu og heilsufari íþróttamanna.

Ég tel þetta ákvæði mjög þarft og tímabært. Íþróttir, eins og þær eiga að iðkast, eru heilsusamlegar, en oft eru þær iðkaðar þannig, að þær eru heilsunni gagnslausar eða verra en það. Margir ungir menn hafa bilazt á heilsu vegna íþróttaiðkana, og heilsan hefur bílað af því, að kapp var mikið, en forsjá engin. Blindrar tiltrúar á ágæti íþrótta hefur gætt um of hingað til og skaðað málstað þeirra. Skynsamleg þjálfun íþróttamanna hefur verið sorglega vanrækt, en þeim mun meiri áherzla lögð á að glæða metnað þeirra og ofurkapp, heilsu þeirra til tjóns. Það er því vel farið, að lagaákvæði verður nú selt um eftirlit með íþróttastarfsemi og það eftirlit falið lækni, sem hefur sérstaklega kynnt sér þá grein heilsuverndar. Er þess að vænta, að hann fái notið sín sem bezt í þessu starfi, svo að íþróttir geti orðið það, sem þær eiga að vera: nefnilega aflgjafi aukinnar heilbrigði.

Frv. fylgir löng grg., sem hefur að geyma ýmsan fróðleik og nokkrar tímabærar ábendingar. Hefði ég gjarnan viljað fara orðum um fáein atriði grg., en sleppi því nú. E.t.v. gefst betri tími til þess við 3. umr. málsins.