18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

177. mál, Landsbanki Íslands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég geri nú ráð fyrir því, að engum hv. þm. komi það á ávart, að þessi bankafrv. eru lögð hér fyrir Alþingi, því að þau hafa verið boðuð lengi, og við höfum getað búizt við því, að þeirra fæðing hefði ekki verið eins örðug og raun hefur orðið á, því að þetta þing er nú búið að standa nokkuð á áttunda mánuð, þegar þessi afkvæmi hæstv. ríkisstj. loksins sjást hér í sölum Alþingis.

Það eru nú ekki nema fáar vikur, þangað til 30 ár eru liðin frá því, að fyrsta stjórn Framsfl. tók við völdum í okkar landi, sumarið 1927. En eitt af fyrstu verkum þeirrar ríkisstj., sem var einlit Framsóknarstjórn, var að setja ný lög um Landsbanka Íslands. Og þau lög, sem eru frá því í apríl 1928, höfðu í sér margvísleg nýmæli, en eitt aðalnýmæli þeirra laga var ákvæðin um bankanefnd, 15 manna nefnd, sem í skyldi kosið með löngu millibili, og þeirri nefnd falið m.a. það verkefni að kjósa bankaráð. Það þótti mörgum dálítið undarlegt, þegar þessi skipan komst á, en það var fyrir henni mælt af hálfu ríkisstjórnarinnar og þess meiri hl., sem þá stjórnaði landinu, að þessi bankanefnd ætti að vera öryggisventill til að koma í veg fyrir það, að það yrðu of miklar og örar breytingar á starfsemi bankans, og væri til þess gerð að skapa frið um þessa stofnun. Þetta fyrirkomulag hefur gilt síðan og hefur haft það í för með sér, að það hafa verið nokkuð seintækar breytingar, ef svo mætti segja, á stjórn bankans, en um leið öryggi fyrir því, að það væri ekki farið að hlaupa eftir pólitískum kröfum einstakra flokka eða manna að því er snertir stjórn þessarar merkustu peningastofnunar okkar lands.

Nú hefur ekki verið dregin á það nein dul í blöðum, á fundum eða annars staðar, hver væri tilgangurinn með þeirri breytingu, sem nú er hér fyrirhuguð á lögum um Landsbanka Íslands. Tilgangurinn væri sá að koma í veg fyrir, að það ástand héldi áfram, sem nú væri, og Sjálfstfl. einn réði þessari peningastofnun. Þetta slúður, þessi blekking er það, sem ég stend upp til að mótmæla við 1. umr. þessa máls, af því að ég hef það mikla þekkingu á starfsemi Landsbanka Íslands, að ég veit, að þetta tal um það, að Sjálfstfl. einn ráði starfsemi þessarar stofnunar, er út í bláinn. Það hefur verið reynt að nota það sem blekkingaáróður úti á meðal þjóðarinnar, og það meira að segja gengur svo langt, að nú við 1. umr. þessa máls leyfir hæstv. forsrh. sér, um leið og hann leggur þetta frv. fyrir, að bera þetta á borð fyrir þingheim.

Ég er nú búinn að vera í bankaráði Landsbankans í þrjú ár. Ég hef verið þar með sömu mönnunum fjórum allan þann tíma. F.h. Framsfl. hafa starfað í bankaráði tveir menn, í fyrsta lagi Vilhjálmur Þór, þáverandi forstjóri Sambands íslenzkra samvinnufélaga, en þegar hann varð bankastjóri Landsbankans, tók við Steingrímur Steinþórsson, fyrrverandi forsrh. F.h. Alþfl. hefur í bankaráðinu verið starfandi Baldvin Jónsson lögfræðingur. Nú á þessu tímabili hafa verið þrír sjálfstæðismenn, það er satt, en ég hef ekki orðið þess var á neinum þeim fundi, sem bankaráðið hefur haldið á þessu tímabili, að það væri nokkur ágreiningur um þau mál, sem þar hafa verið fram borin, og bankaráðið hefur fylgt dyggilega þeirri skyldu, sem er fyrirskipuð í bankalögunum, að skipta sér ekkert af daglegri starfsemi eða lánveitingum bankans, nema það séu einhver heildaratriði, stórar ábyrgðir eða annað slíkt, sem um hefur verið að ræða.

Það er þess vegna fullkomin ástæða til að mótmæla því, að það séu alveg áhrifalausir menn, sem hafa verið fulltrúar Framsfl. og Alþfl. í bankaráðinu, ekki einasta á þessu tímabili, heldur og fram að þessum tíma.

Varðandi framkvæmdastjórn bankans er sama að segja. Það má hver maður trúa því, sem vill, en þeir, sem þekkja til, trúa því ekki, á meðan þar voru þrír bankastjórar, Jón Maríasson, Jón Árnason og Gunnar Viðar, að tveir þessara bankastjóra, sjálfstæðismennirnir, hafi ráðið öllu, en Jón Árnason hafi þar engu ráðið. Það má líka hver sem vill bera það á borð fyrir almenning eða þingheim hér, að í núverandi bankastjórn, þar sem eru tveir sjálfstæðismenn og einn framsóknarmaður, sá sem ég nefndi áðan, Vilhjálmur Þór, ráði sjálfstæðismennirnir öllu, en Vilhjálmur Þór engu. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það sé rétt, sem bankastjórarnir hver á fætur öðrum hafa sagt mér, að það séu ekki afgreidd þar nein lán, sem verulegu máli skipti, nema allir bankastjórarnir séu sammála.

Þetta vil ég taka fram vegna þess, að það er augljóst og yfirlýst, að aðaltilgangurinn og í rauninni eini tilgangurinn með þessu frv. um breytingu á Landsbankanum sé að skipta um menn og koma í veg fyrir það, að Sjálfstfl. einn geti haldið áfram að ráða þessari stofnun.

Nú er það sýnt á þessu frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 553, að það, sem er aðalatriðið í því frv., er að fjölga starfsmönnum við Landsbankann, skipta honum í tvennt, búa til tvær stjórnir og fjölga starfsmönnunum um 5. Hitt aðalatriðið er það að sparka núverandi bankaráði til þess að geta komið því til leiðar að setja nýja menn sem framkvæmdastjóra við viðskiptadeild bankans.

Þetta hefur það í för með sér í fyrsta lagi, að það eykur kostnaðinn við stjórn stofnunarinnar um nokkur hundruð þúsund, svo að ekki sé meira sagt. Og eins og ástandið er nú í okkar peningamálum, þá er áreiðanlegt, að það er óþarfakostnaður, sem hér er verið að stofna til, algerlega óþarfur kostnaður. Enda þótt það hafi verið um það ágreiningur oft og deilur, hvort það væri ekki rétt fyrirkomulag að hafa sérstakan seðlabanka, þá er það út af fyrir sig, eins og nú standa sakir og jafnillt ástand og er orðið fyrir atbeina stjórnar og þings í okkar fjármálum, sannarlega óþarfi að stofna til þess stórkostlega aukna kostnaðar, sem með þessu frv. er stofnað til.

Hins vegar er það augljóst, að aðaltilgangurinn er að losna við menn, sem núverandi ríkisstj. og stjórnarflokkum þykir þörf á að losna við, og fá aðra í þeirra stöður, ekki til þess að koma í veg fyrir hlutdrægni, því að það er misskilningur, að hún hafi verið í starfsemi þessarar stofnunar, heldur að ætla mætti til þess að stofna til hlutdrægni. Maður a.m.k. hefur ástæðu til að gruna, að sá sé tilgangurinn. Og ég held, að þó að maður sleppi því, þá verði afleiðingin af þessum frv., sem hér liggja fyrir, sú á komandi tímum, sem ég held að sé ekki heppilegt ástand, að hvenær sem verður skipt um ríkisstj. í þessu landi, þá verði breytt um forustu í bönkum landsins. Þeir verða þar með gerðir að eins konar pólitísku bitbeini í stað þess að hafa um það fullan frið, eins og hefur verið á undanförnum árum undir því skipulagi, sem á stjórn Landsbankans hefur verið.

Þess vegna vil ég nú þegar láta það í ljós, að ég get með engu móti fallizt á að fylgja þessu frv. og tel, að það stefni alveg í óheillavænlega átt. Það er byggt á fölskum forsendum og stefnir í þá átt, sem leiða mundi til ófarnaðar fyrir peningastarfsemina í landinu á komandi árum, því að enginn þarf að ætla það, þó að þessi ríkisstj., sem við höfum nú, sé voldug og þykist ætla að starfa lengi, að þá verður hún þó ekki marga tugi ára starfandi, og hvenær sem önnur kemur, þá mundi verða breytt því skipulagi, sem á þennan hátt er til stofnað.