18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

177. mál, Landsbanki Íslands

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hefði að vísu talið æskilegt, að hæstv. forsrh. hefði svarað þeirri fsp., sem hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) bar fram til hans, áður en ég tók til máls, vegna þess að það hefði væntanlega varpað enn þá skýrara ljósi yfir þetta mál heldur en er. En látum það vera. Ég er engu að síður reiðubúinn nú þegar til þess að tala um málið nokkur orð.

Það er ekki í fyrsta skipti nú, sem Framsfl. að afloknum kosningum og valdatöku breytir lögunum um Landsbankann. Það var einnig gert, eftir að Framsfl. fékk völd 1927 með atbeina Alþfl. Þá var eitt þeirra fyrsta verk á þinginu 1928 að breyta löggjöf um Landsbankann, sem sett hafði verið árið áður, eða 1927, og það er eftirtektarvert mjög, að atriðið, sem þá var breytt, er, að fellt var úr lögum svo hljóðandi ákvæði 34. gr. l. frá 1927:

„Formann bankaráðsins skipar ríkisstj. til þriggja ára í senn svo og varaformann. Hina fjóra bankaráðsmennina kýs sameinað Alþingi hlutbundnum kosningum til fjögurra ára í senn svo og fjóra varamenn til jafnlangs tíma. 2 bankaráðsmenn og 2 varamenn ganga úr annað hvort ár, og ræður hlutkesti, hvorir tveir bankaráðsmenn og varamenn ganga úr í fyrsta skipti.“

Þegar flokkurinn kom til valda 1928, þá var sem sagt ótækt að láta sameinað Alþingi kjósa fjóra bankaráðsmenn, heldur varð að setja upp heilmikið bákn, bankanefndina svokallaða, til þess að áhrif Alþingis yrðu ekki jafnrík á skipun bankaráðsins og störf bankans og ráðgert hafði verið með lögunum 1927. Allir vissu raunar, að þó að þetta væri fært fram sem ástæða og mjög væri um það talað á þeim árum, að ótækt væri, að Alþingi og ríkisstj. hefðu mjög mikil og bein áhrif á bankann, heldur yrði að safna í kringum hann áhrifamannahóp, sem héldi honum utan við daglegar deilur, að það, sem í raun og veru var að gerast, var þetta, að Framsfl. og Alþfl. vildu ekki una því að hafa ekki sjálfir meiri hluta í bankaráðinu og sérstaklega bankaráðsformanninn, og þess vegna var þetta viðamikla fyrirkomulag um stóra bankanefnd tekið upp og látið svo sem það væri fáheyrð óhæfa, að Alþ. hefði slík bein áhrif á stjórn bankans að kjósa bankaráðið.

Nú er þessu alveg snúið við, nú má ekki lengur hafa bankanefndina, þetta skilgetna afkvæmi Framsfl. og Alþfl. frá 1928, nú á sáluhjálparatriðið að vera hitt, að sameinað Alþingi kjósi fjóra menn í bankaráðið, að vísu með hlutfallskosningum, alla í einu.

Enn er tilgangurinn sá hinn sami og 1928, að á bak við sakleysislegt orðalag er verið að fela þá staðreynd, að skapa þarf auða stóla, að ætla þarf skjólstæðingum og gæðingum þessara flokka fjölda embætta og auka þeirra yfirráð og völd í þjóðfélaginu. Það má að vísu virða hæstv. forsrh. það til lofs, að hann endaði ræðu sína með því að lýsa því berum orðum yfir, að þessi væri tilgangurinn að ná þarna pólitískum tökum, þó að allar röksemdir skorti fyrir því, hvaða ágreiningur hefur orðið milli núverandi forráðamanna bankanna og ríkisstj. eða stjórnarflokkanna, sem réttlæti, að til slíkra ráða sé gripið.

Það er óhjákvæmilegt, að hæstv. ríkisstj. verði krafin sagna um það, hvaða ágreiningur hefur ríkt innan Landsbankans milli bankastjóranna þar, milli bankastjóranna og bankaráðsins, á milli bankaráðsins innbyrðis og á milli bankans í heild og ríkisstj., í hverju hefur þessi ágreiningur komið fram, sem réttlæti jafnróttækar breytingar og hér eru ráðgerðar.

Í því nægja ekki almenn ummæli þess efnis, að sjálfstæðismenn hafi yfirráð yfir bönkunum. Í hverju hefur það komið fram, að þessum svokölluðu yfirráðum sjálfstæðismanna hafi nú eða undanfarið verið beitt flokknum eða flokksstefnunni einhliða til framdráttar? Á hvern veg hafa aðrir landsmenn orðið þar að sitja við skarðan hlut? Og hvenær hafa þeir framsóknarmenn, sem gegnt hafa bankastjórastöðum í báðum þessum bönkum ásamt Alþýðuflokksmönnum, gert fyrirvara, áskilnað, athugasemdir við gerðir bankastjórnarinnar og talið, að þar væri hallað réttu máli einhverjum einum flokki til framdráttar? Ef slíkt lægi fyrir, þá væri hægt að segja, að efnislegar ástæður væru fyrir hendi. En því fer svo fjarri, að um þetta séu nefnd dæmi, að í því eina tilfelli, þar sem mér er kunnugt, frá því að núverandi hæstv. ríkisstj. kom til valda, að segja megi, að til nokkurs ágreinings hafi komið milli eins ráðh. og bankanna, þá játaði ríkisstj. eftir á og þessi hæstv. ráðh., að hann hefði haft rangt mál að flytja, en það var þegar hæstv. félmrh. fór þess á leit, að bankarnir allir í heild lánuðu fé í húsnæðisframkvæmdir.

Það er einnig vitað, að það voru ekki sjálfstæðismennirnir einir, sem stóðu að þeirri synjun, sem þá var veitt á málaleitan ríkisstj. eða ráðh., heldur er það fullkunnugt, að þeir voru ekki siður hvetjandi þeirrar afstöðu, sem bankarnir tóku, Vilhjálmur Þór, Valtýr Blöndal og Hilmar Stefánsson, heldur en aðrir bankastjórar. Engan þessara manna, hvorki framsóknarmennina né sjálfstæðismennina, skorti viljann til þess að leysa úr þeirri mjög aðkallandi þörf, sem fyrir hendi var, heldur var það, sem skorti, fjármagnið, og þess vegna gerðu bankastjórarnir ekkert annað en að benda á þá staðreynd, sem augljós var, að eins og til háttaði og með minnkandi sparifjármagn í landinu gátu bankarnir ekki leyst þessa raun, svo mjög sem þeir hefðu viljað.

Ríkisstj. sjálf féllst og á þessa skoðun bankastjóranna, þegar hún skömmu síðar lagði fram sitt húsnæðismálafrumvarp, og lögskyldaði þá bankana alls ekki til framlaga, heldur fór allt aðrar leiðir, leiðir, sem deila má um, hversu haldgóðar séu og raunhæfar, en a.m.k. þar sem tilraun var til gerð að leysa málið eftir allt öðrum veg en þeim, sem í upphafi hafði verið ætlað, að fá bankana til að leggja eina fram féð.

Þannig hefur ríkisstj. í því eina tilfelli, sem kunnugt er, að til nokkurs skoðanamunar hafi um sinn komið á milli hennar og núverandi bankastjóra, allra í heild, játað eftir á, að hún hefði haft rangt fyrir sér, en bankarnir rétt. Þetta er óhjákvæmilegt að bent sé á. Um annan ágreining er ekki kunnugt, og ég vil beina því til hæstv. ríkisstj., að hún upplýsi, í hverjum öðrum tilfellum ágreiningur hefur komið fram, og ég vil vænta þess, að ef slík gögn verða ekki lögð fram á Alþingi nú í dag eða við 1. umr. málsins, þá gangi þingnefnd rösklega í það verk, sú sem málið fær til meðferðar, að kynna sér starfsemi og starfshætti bankanna, í hvaða tilfellum ágreiningur hefur orðið, í hvaða tilfellum flokkslegu valdi hefur verið beitt, annaðhvort af sjálfstæðismönnum í þeim bönkum, sem hér er um að ræða, eða í Búnaðarbankanum af Hilmari Stefánssyni, Hermanni Jónassyni og öðrum þeim, sem þar hafa völdin. Þetta er atriði, sem nauðsynlegt er að rannsaka og liggi fyrir, áður en Alþingi tekur efnislega afstöðu til málsins, ef hér er um efnisleg rök að ræða. Ef ekki, er eingöngu um hitt að tala að taka á til sín, að hrifsa á til sín með valdi yfirráð yfir þessum fjármálastofnunum.

Það er óumdeilt, að núverandi hæstv. ríkisstj. hefur meiri hl. á Alþ., hún getur knúið þessa löggjöf fram. Það er vafalaust búið að semja um hana í einstökum atriðum. Við vitum, að þeir 220 dagar, sem við erum búnir að vera við þetta þinghald, hafa að verulegu leyti farið í innbyrðis togstreitu milli þessara háu herra um það, í hvern stólinn hver um sig ætlaði sér að ná, hverja vegtyllu hver ætti að fá og jafnvel um það, hver ætti að undirskrifa skipunarbréfið til hvers og eins, vegna þess að sumir eru svo fínir, að þeir verða að hafa fínna skipunarbréf en allir aðrir í landinu. Í þetta hefur starfstíma, — ja, það er ekki hægt að kalla það starfstíma, — en í þetta hefur tíma Alþingis verið varið. Staðreyndin er sú, að sér grefur gröf, þótt grafi, og Framsfl. var með bankalöggjöfinni 1928 að hrifsa til sín völd, vegna þess að hann vildi ekki una þeirri lögskipan, sem fest hafði verið árinu áður. Síðan hafa þessi lög, sem þá áttu að tryggja völd Frams.- og Alþfl. um alla framtíð, verið óbreytt. Það er eftir þeirri löggjöf, sem þessir menn sjálfir settu til þess að tryggja sín óbifanlegu og óhagganlegu völd, sem farið hefur verið, og það er hún, sem leiðir til þess óviðunandi ástands, sem hæstv. forsrh. var hér að tala um áðan, þess óviðunandi ástands, að Framsfl. hefur enn ekki þau völd, sem hann vill heimta sér í þjóðfélaginu, og að Hermanni Jónassyni, hæstv. forsrh., hefur þrátt fyrir gagnstæðar fullyrðingar Tímans um, að slíkt mundi aldrei verða gert, enn ekki tekizt að efna loforðin við bandamenn sína, kommúnistana, um að tryggja þeim varanlegar stöður í helztu áhrifastofnunum þjóðfélagsins. Það eru þær efndir, sem nú er verið að ganga eftir, og það er auðvitað ósköp eðlilegt, að kommúnistarnir, sem hafa orðið að kingja öllu, sem þeir hafa orðið að kingja í vetur, og þola þá raun að styðja stjórnina til þeirra verka, sem þeir hafa gert, — það er ósköp eðlilegt, að þeir vilji eitthvað fá fyrir sinn snúð. Það er ósköp eðlilegt, að hæstv. forseti segi: Ja, ef ég á að styðja hér í landi, ef ég á að styðja hæstv. utanrrh. til þess að fara suður í Bonn og tala um það, að Ísland verði að verja, ef ég á að standa undir slíku, þá verð ég að fá eitthvað fyrir snúð minn, og það er nú ekki minna hægt að ætla mér en fá einn stól í Landsbankanum. — Með þessu er ég sízt að segja, að hæstv. forseti deildarinnar muni verða lakari maður í Landsbankanum heldur en aðrir legátar, sem Framsfl. mundi senda þangað.

Ég vil sem sagt láta það uppi, þó að þessi löggjöf lýsi því, að Framsfl. getur ekki einu sinni unað þeim leikreglum, sem hann sjálfur hefur sett, ef hann verður þar undir í bili að eigin dómi. Það er það, sem lýsir sér í þessari löggjöf, að Framsfl. setur leikreglurnar, og ef þannig stendur á skamma hríð, að hann telur þær sér ekki hagstæðar, þá breytir hann sjálfur leikreglunum til að bolast til valda. Þetta er þeirra aðferð nú, þetta var þeirra aðferð 1928, þetta var sú aðferð, sem hæstv. forsrh. leyfði sér að hafa, þegar hann var nýorðinn forsrh. 1934, þegar hann með einu pennastriki setti frá tvo af æruverðugustu og beztu lögfræðingum íslenzku þjóðarinnar, hæstaréttardómarana Eggert Briem og Pál Einarsson, til þess að geta sjálfur skipað meiri hluta hæstaréttar. Og það er sama aðferðin, sem Alþfl. gerði sig sekan um í dómsmálastjórnartíð hans, 1946, þegar dómsmrh. Alþfl., maður, sem ég persónulega hélt mjög upp á, Finnur Jónsson, og hef ekki nema allt gott um að segja, beitti sinni dómsmálastjórn til þess að fá færi á því að skipa meiri hluta hæstaréttar enn á ný og hafði aðferðina til þess, sem var gott, að fjölga í hæstarétti, — það var nauðsynlegt og mál, sem ég hafði beitt mér fyrir ásamt öðrum mönnum, — en það var ekki látið þar við sitja að bæta tveimur mönnum við, nei, meiri hlutann varð að fá þessum flokkum hagstæðan, að því er þeir töldu, og þess vegna varð þá að setja frá fremsta lögfræðing Íslands frá landnámstíð, Einar Arnórsson. Þá mátti ekki una því, að þessi heiðursmaður yrði 70 ára, heldur varð að setja hann í fullu fjöri, 65 ára, á full laun, starfslausan af hálfu ríkisins, til þess að einn ráðh. gæti gert slíka byltingu sem það er að skipa í einu meiri hl. æðstu dómsstofnunar þjóðarinnar. En það verður að játast, að þeir menn, sem voru skipaðir í þessi störf, reyndust í raun og veru meiri þeim, sem skipuðu þá. Þeir hafa engir látið nota sig til neinnar flokksáníðslu eða hlutdrægni. Þeir hafa allir reynzt góðir og gegnir menn í sínu starfi, þeir hæstaréttardómarar, sem hæstv. forsrh. skipaði og Finnur heitinn Jónsson skipaði á sínum tíma, þannig að sú umbylting, sú breyting á störfum hæstaréttar, sem var talað um og ráðgerð, áður en þessar byltingar urðu, varð nákvæmlega engin, það var fullkomið samhengi í störfum hæstaréttar eftir sem áður, vegna þess að mennirnir léðu sig ekki til þess að verða verkfæri í höndum pólitísks ofstækismanns eða valdabröltara eins og hæstv. forsrh.

Alveg eins fór það, að Framsfl. ætlaði að ná yfirráðum yfir Landsbankanum 1928 með þeirri breytingu, sem gerð var. Þá var settur frá Sigurður Briem, mikill hæfileika- og heiðursmaður, hagfræðingur. Hann var settur frá sem formaður bankaráðsins og í hans stað valinn Jón Árnason, sem var síðan formaður bankaráðsins langan tíma. Ég er Jóni Árnasyni ekki sammála um alla hluti og tel, að hans áhrif hafi um sumt ekki að öllu leyti verið til heilla. En við vitum það öll, sem hér erum inni, að þó að Framsfl. efldi hann mjög til áhrifa, þá lét hann aldrei nota sig sem neitt verkfæri fyrir pólitískan flokk í bankanum, heldur smáfjarlægðist hann sína gömlu vini með þeim hætti, að þegar þeir þurftu að fá hann til þess að tala um fjármálaástandið í vetur í sinn flokksfélagi, — hann mun nú ekki hafa lýst því fagurlega, — þá var hann orðinn svo ókunnugur í þeim hóp og því liði, sem þar var saman safnað, að það þurfti að halda sérstaka ræðu til þess að kynna hann fyrir söfnuðinum, þennan gamla forustumann flokksins. Eins er það með þessa sjálfstæðismenn, sem hafa valizt, — og óumdeilanlega eru tveir af bankastjórum Landsbankans sjálfstæðismenn nú og tveir af bankastjórum Útvegsbankans sjálfstæðismenn, eins og Vilhjálmur Þór er óumdeilanlegur framsóknarmaður og Valtýr Blöndal er óumdeilanlegur framsóknarmaður, — að allir þessir menn, þegar þeir eru komnir til sinna starfa, reyna án tillits til þess, hvern þeir kjósa við kjörborðið og hvaða meiri hluti skipaði þá, að leysa sín störf eftir beztu vitund og sannfæringu, og þess vegna einmitt er það, að þessi ágreiningur, sem er verið að tala um að hafi verið innan bankans og sé á milli bankanna og ríkisvaldsins, er ekki til. Það er ekki af neinni tilviljun, að hæstv. forsrh. segir: Ja, það er augljóst, að þetta er óþolandi. — Það er augljóst, ég vil ekki una leikreglunum, — hann gat alveg eins sagt það, sá góði mann. En efniságreiningurinn er ekki fyrir hendi. Það er þess vegna, sem hæstv. forsrh. rakti það ekki áðan, og það er þess vegna, sem hann skaut sér undan að svara fyrirspurn hv. 5. þm. Reykv., sem hann bar fram og átti að vera ósköp einfalt að svara, og ég segi það alveg eins og er, að ég tek þetta mál frekar sem dæmi um — ef svo má segja — labbakútshátt Framsfl. og þessa gamalþekktu aðferð að vilja ekki una leikreglunum, sem þeir hafa sjálfir sett, ef þeir fá ekki allt það fram, sem þeir vilja, í vegtyllum og finum stólum. Ég tek frv. meira sem dæmi um það heldur en ég búist við því, að þessir menn, sem þarna eiga að koma, muni hafa einhver ógnarleg áhrif í fjármálalífi þjóðarinnar. Ég tek alveg undir það, sem 1. þm. Rang. sagði hér áðan: Þessir menn, sem þarna koma, skapa ekki neitt nýtt fjármagn. - Það eina, sem ég vildi vara við, væri að passa, að Einar Olgeirsson kæmist ekki að seðlapressunni, en þar fyrir utan held ég, að fjármagnsmyndunin hjá þeim verði ósköp lítil, og ég vil ekki væna neinn af þessum mönnum, sem ég hef heyrt nefnt að eigi að fara í þessar stöður, um hlutdrægni eða það, að þeir muni skapa neitt það ósamkomulag innan bankastjórnarinnar, sem muni marka nokkur tímamót í sögu fjármálalífs eða þróunar þjóðlífs á Íslandi. Þessi nýju l. — það má titla þau þannig — munu standa sem óbrotgjarn minnisvarði um hlutdrægni Framsfl., um viðleitni hans til þess að ná í sem flest bein og bitlinga sér til handa, eins og við höfum þekkt frá gamalli tíð að er þeirra mesta áhugamál, því að sannast sagt hefur fátt lýst betur vanþekkingu ritstjóra Tímans á eðli sinna eigin flokksmanna heldur en þegar hann var um daginn að tala um, að það yrði hafður auður sendiherrastóll úti í Kaupmannahöfn. Það stóð heldur ekki á því, að hæstv. forsrh. hringdi strax út til Hafnar og segði: Nei, það hefur okkur aldrei komið til hugar. — Það sannaðist þar eins og alltaf sannast, að það má enginn stóll vera auður, það má enginn möguleiki vera til þess að hrifsa til sín bita eða bein, svo að þessir gírugu krákar séu ekki þar komnir til þess að reyna að krækja sér í þá. Það er sem minnisvarði um þetta eðli Framsfl., sem þessi löggjöf mun standa, og svo það, að hann þarf að borga sitt aðgöngugjald að þessum stól með því að skaffa Einari Olgeirssyni stól niðri í Landsbanka.