18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

177. mál, Landsbanki Íslands

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í framhaldi af orðaskiptum mínum og hæstv. forsrh. Hann vitnaði í þau ummæli mín, að ég hefði haldið því fram, að eðlilegt væri, að ríkisstj. ákvarðaði stefnuna í peningamálum, en á stjórnendur bankanna bæri að líta sem embættismenn, sem falið væri það hlutverk að framfylgja þessari stefnu. Þessi ummæli mín voru rétt hermd af hæstv. forsrh., og ég get gjarnan endurtekið þau á ný. Að vísu, eins og ég nefndi í minni fyrri ræðu, hefur það verið umdeilt, hvert sjálfstæði stjórnir bankanna ættu að hafa gagnvart ríkisvaldinu, og ýmis rök má færa fyrir því, að æskilegt gæti verið út frá ýmsum sjónarmiðum, að bankastjórnirnar hefðu tiltölulega mikið sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu. Ég býst við skv. þeim upplýsingum, sem hv. 1. þm. Reykv. gaf í sinni ræðu, svo fróður sem hann er um stjórnmálasögu síðustu ára, að einmitt rökin fyrir þessu sjónarmiði megi finna í Alþingistíðindum frá því 1928 og þeim hafi þá verið haldið fram af þm. Framsfl. og Alþfl., en það er einmitt núverandi skipan þessara mála, sem þá var tekin upp að þeirra tilhlutan og fyrir þeirra forgöngu. En mín skoðun er sú, að eðlilegt sé, að það sé ríkisstj., sem marki stefnuna í peningamálum.

Hitt vakti aftur furðu mína, þegar hæstv. forsrh. dró af þessu þá ályktun, að úr því að þetta væri svona, þá væri eðlilegt, að ný ríkisstj., sem kæmi til valda, segði sem svo um bankastjórana og þá, sem málefnum bankanna stjórna: Ég treysti ykkur ekki til þess að framfylgja þeirri stefnu, sem við höfum markað, og þess vegna verðum við að skipta um menn. — Ég álít, að ef þessi sjónarmið ættu að verða ríkjandi, þá mundi það skapa ófyrirsjáanlegar hættur í okkar þjóðfélagslífi. Alveg á sama hátt gæti þá t.d. sá menntmrh., sem við völd væri hverju sinni, sagt sem svo, ef hann hygðist að koma á fót nýskipan skólamála: Ég get ekki treyst þeim skólastjórum, sem nú eru skipaðir í þessi embætti, að framfylgja þeirri stefnu, sem ég hef markað, og verð því að endurskipa í þessar stöður með mönnum, sem ég ber traust til, — eða ef dómsmrh., sem við völd væri, hygðist koma á nýskipan dómsmála og segði sem svo: Þessari nýju skipan get ég ekki treyst þeim mönnum, sem nú fara með dómarastörf, að framfylgja, og verður því að skipta um. — Nú veit ég, að það er ekki skoðun hæstv. forsrh., að slíkan hugsunarhátt eigi að færa yfir á þessi svið, en ég tel engu síður nauðsynlegt, að þeir, sem bankamálunum stjórna og fara með framkvæmd þeirra, njóti ekki minna öryggis en aðrir opinberir starfsmenn.

Það hefur mikið verið talað um hina svokölluðu yfirstjórn og hin svokölluðu yfirráð sjálfstæðismanna í peningastofnunum. Við það hef ég litlu að bæta. Það mun að vísu rétt, sem hér hefur komið fram, að tveir af núverandi bankastjórum Landsbanka Íslands munu að vísu fylgja Sjálfstfl. að málum, þótt ekki sé mér kunnugt um, að þessir menn, hvorugur þeirra, hafi tekið neinn opinberan þátt í fokkspólitískum áróðri, og hvað sem því liður, þá er hér um valinkunna embættismenn að ræða, sem á löngum embættisferli hafa ábyggilega sýnt það, að þeim er treystandi til þess að framkvæma þau fyrirmæli, sem sú ríkisstj., sem við völd situr, setur þeim, svo að í þessu verður ekki séð mikil hætta. En það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er, að fsp. sem borin var hér fram af hv. 5. þm. Reykv., þar sem hann skoraði á hæstv. forsrh. að benda á það, í hverju þessi misbeiting valds sjálfstæðismanna væri fólgin, hefur enn þá ekki verið svarað nema með vífilengjum einum, sem varla er hægt að telja svar.

Aðalatriðið í þessu sambandi er það, að hvort sem tilgangurinn er nú sá að beita þeim heimildum, sem þessi lög í sjálfu sér veita, til þess að ofsækja þá menn, sem þessar stöður skipa, sem ég býst ekki við og mun ekki að óreyndu trúa að sé tilgangurinn, þá er að mínu áliti gefið hér mjög hættulegt fordæmi, sem orðið gæti til þess að skapa þann ófrið um peningastofnanir landsins, sem orðið gæti til þess að valda enn þá meiri upplausn í efnahagslífinu á næstu árum heldur en er enn.

Það virðist vera algerlega óeðlilegt, sérstaklega í þessum málum, að öryggi þeirra, sem með framkvæmd þeirra fara, sé svipað eins og kannske væri eðlilegt að því er snerti menn, sem skipaðir væru í jeppaúthlutunarnefnd eða eitthvað þess háttar. Þar er það kannske eðlilegt, að slíkir menn komi og fari með þeim ráðherra, sem með völdin fer hverju sinni. En að taka slíkt fyrirkomulag upp í peningamálunum, er mjög óeðlilegt og mun hvergi þekkjast. Annað mál er það, að vel getur svo farið, að þeir menn, sem koma inn í þessar stöður, reynist þannig, að hér verði ekki um svo mikla breytingu að ræða frá því, sem áður var, þannig að sama sagan endurtaki sig í þessum efnum eins og að því er snerti hæstarétt í kringum 1930, þegar framsóknarmenn lögðu mikla áherzlu á að koma þaðan burt þeim mönnum, sem þeir töldu sér andstæða, og skipa aðra nýja í staðinn, þannig að þessir nýju menn, sem skipaðir voru, eins og hv. 1. þm. Reykv. benti á, reyndust þannig, að hæstiréttur beið ekki af þessu neinn álitshnekki. Það má vel vera og væri óskandi, að hvað sem samþykkt þessara frv. líður, verði reyndin einnig sú í peningamálunum, en það verður þá öðrum að þakka en þeim, sem staðið hafa fyrir þessari lagasetningu.