18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

177. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Út af þessu seinasta, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um Jóhann Hafstein, vil ég segja það, að ef við ættum að fara að ræða það mál, þá þyrfti hann að segja, hverjir voru hinir, sem völ var á. (Gripið fram í.) Ég segi ekkert um það, en meirihlutavaldið hafði Sjálfstfl. og vissi um, að yrði ekki komizt hjá því, að það yrði þá einhver hinna. Svona eru nú yfirleitt rökin, og ég legg mig ekki inn á það að telja upp þessa menn og fara að ræða um persónur.

Í raun og veru er það komið fram í þessum umr., að sjálfstæðisþingmenn, sem hafa talað, eru sammála um þá skipulagsbreytingu, sem hér á að gera. Hv. 5. þm. Reykv. lýsti því yfir hvað eftir annað, að hann teldi alveg eðlilegt að gera þessa skipulagsbreytingu á Útvegsbankanum og í raun og veru sjálfsagða. Og þetta er sá hv. þm., sem er bankastjóri í þessum banka og má þess vegna m.a. af þeirri ástæðu hafa bezta aðstöðu til að dæma, enda er það rétt, sem kom hér fram hjá hv. 9. landsk., að einkabankar eru ekki til á Íslandi af þeirri ástæðu, að einkafjármagn er ekki til. Annars væru þeir sjálfsagt til. Og að búa til slíka skopmynd af einkabanka til frambúðar og undarlegt, hve lengi það hefur staðið, að hafa 4% af hlutafénu eign einstaklinga, það er eiginlega furðulegt, hvað sú löggjöf hefur verið látin standa lengi, einkanlega með tilliti til þess, að það hefur verið fullkomið handahóf, hvernig þessum banka hefur verið stjórnað, eftir því, hver hefur verið bankamálaráðh. á hverjum tíma, því að hann hefur getað ráðið algerlega meiri hlutanum í gegnum kosningu og á aðalfundum, hverjir voru í meiri hl. í bankaráði og hverjir voru bankastjórar, og það hefur verið gert. Það hefur meira að segja gengið svo langt, að fyrir mér hefur það verið upplýst af þeim, sem þarna hafa mætt, að þeir minnist þess ekki, að á seinasta fundi hafi einn einasti fulltrúi mætt fyrir einkafjármagnið; hafi ekki einu sinni mætt á aðalfundi. Mig furðar þess vegna ekkert á því, að hv. stjórnarandstæðingar séu sammála um það, eins og þeir hafa lýst yfir, að þessi skipulagsbreyting sé eðlileg. Þeir segjast eiga eftir að rannsaka löggjöfina, sem hér er fyrirhugað að setja. Ég vænti þess, að þeir hafi ekki mikið við hana að athuga, vegna þess að hún er í höfuðatriðum, eins og ég sagði, sniðin eftir þeim lögum, sem gilda um Landsbankann sem viðskiptabanka.

Þá kemur að hinu atriðinu viðkomandi því að skilja seðlabankann frá viðskiptabankanum. Liggur fyrir sams konar yfirlýsing, að það sé í raun og veru eðlilegt að skilja seðlabankann frá viðskiptabankanum. Það kann að vera þá einhver ágreiningur um það, hvort skrefið sé stigið nægilega fullt. Annar er ágreiningurinn ekki um þessar skipulagsbreytingar. Það liggur raunverulega yfirlýsing um það, að þeir eru sammála. Um hvað eru þeir þá alltaf að tala? Hvers vegna þá þessi andstaða gegn frv., þar sem menn eru í höfuðatriðum um annað sammála og um hitt sammála um það, að það gangi í rétta átt? Hvers vegna er þetta tal? Ég kem e.t.v. nánar að því.

Ég ætla þá að rekja í höfuðatriðum þær athugasemdir, sem hafa komið fram, og í þeirri röð, sem þær hafa komið fram.

Hér endurtók hv. 9. landsk., að ríkisstj. ætti auðvitað að marka fjármálastefnuna í höfuðatriðum og bankastjórar ættu að framkvæma stefnuna raunverulega í hennar umboði. Og hann sagði í fyrri ræðu sinni, að það væri ekkert eðlilegra en það, að bankastjórar væru látnir fara, ef þeir ekki framkvæmdu þá stefnu, sem ríkisstj. markar, enda er það nú þannig í þessum lögum, sem nú gilda, að bæði bankaráð og ríkisstj. getur sagt bankastjóra upp með 6 mánaða fyrirvara. En það, sem ágreiningurinn er um, er þá orðið þetta og þetta eitt. Þeir segja: Það er engin ástæða til fyrir ríkisstj. annað en að treysta þeim meiri hluta, sem nú er í bankaráði þessara tveggja aðalviðskiptabanka og þeim meiri hluta, sem ræður í framkvæmdastjórninni, sem er stjórnarandstaðan. — Ég ætla, áður en ég kryf þetta til mergjar nánar, að spyrja að því, og ég get þá lýst þar yfir vanþekkingu minni, að ég veit satt að segja ekki til þess, — ég veit, að þessi regla er rétt, og ég er samþykkur henni, sem hv. 9. landsk. heldur fram, — en ætli það sé nú víða í ríkisbönkum, að það sé látið við það sitja, að stjórnarandstaðan ein ráði bönkunum? Ætli það sé þannig? Mér er að vísu kunnugt, að það er rétt og í samræmi við þá reglu, sem hér hefur verið sett fram af hv. 9. landsk., að ríkisstj. eigi að marka stefnuna og bankastjórunum eigi að vera skylt að framkvæma hana. Ég veit, að það er í samræmi við það, að í nálægum löndum hafa bankastjórar sagt af sér, þegar þeir hafa komizt í ósamræmi eða verið ósammála um höfuðstefnu ríkisstjórnanna. Ég minnist tveggja dæma um það atriði. En þá er ágreiningurinn orðinn um þetta, hvort ríkisstj., sem nú er, eigi að treysta því, hún hafi ástæðu til að treysta því, að þeim meiri hl., sem ræður í bankaráðum þessara tveggja höfuðviðskiptabanka, þ. á m. í þjóðbankanum, og bankastjórunum sé annast um það að framkvæma stefnu ríkisstj. og sjá um, að hún fari sem bezt úr hendi. Og þeir heimta, að ef við ekki treystum þessu, þá nefnum við einhver dæmi þess, hvers vegna við treystum því ekki.

Ég ætla nú satt að segja ekki að fara mörgum orðum um þetta. Menn hafa séð það undanfarnar vikur, að flokkur atvinnurekenda, Sjálfstfl., um leið og hann lætur prédika það hér úr ræðustóll af hv. 1. þm. Reykv. og öðrum, að það, sem ríði lífið á fyrir íslenzkt fjármálalíf, sé að halda stöðugu verðlagi í landinu, m.a. til þess að fólkið treysti á sparifé, leikur þann leik, atvinnurekendurnir, að espa til verkfalla í landinu til þess að reyna, hvað sem það kostar þá sjálfa, að brjóta niður þá fjármálastefnu, sem ríkisstj. lýsti yfir og hefur lýst yfir og lýsir yfir að hún vilji framfylgja. Er líklegt, að fulltrúum þessa flokks, sem þannig vinnur utan þings um stund móti sínum eigin hagsmunum og móti hagsmunum allrar þjóðarinnar til þess að reyna að brjóta niður stefnu ríkisstj., sé annast um það í bönkum landsins að framfylgja stefnu ríkisstj.? Er það líklegt? Um þetta er ágreiningurinn. Hann er ekki um skipulagsbreytingarnar. Hann er um þetta. Og þeir heimta, að ég nefni dæmi, þeir heimta m.ö.o., að ég fari að nefna útlán hjá einstökum mönnum og fyrirtækjum til þess að rökstyðja málið. Ég geri það ekki.

Hv. 5. þm. Reykv. kom inn á þetta sama, og ég raunverulega svara honum með þessu. Hann er með skipulagsbreytingunni, eins og ég tók fram áðan, en hann segir: Það þarf alls ekki að vera að skipta um, því að ríkisstj. á að treysta þeim meiri hl. í bankaráðum og framkvæmdastjórn, sem nú er. — Og hann segir, að raunverulega hafi Vilhjálmur Þór og Valtýr Blöndal ráðið öllu í bönkunum, þeir hafi bara ekki getað gert nokkurn skapaðan hlut fyrir þessum minni hluta, ekkert gert nema það, sem Vilhjálmur vildi, og ekkert gert nema það, sem Valtýr Blöndal vill. En ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum eru þá sjálfstæðismenn að basla með þetta meirihlutavald, til þess að Vilhjálmur Þór og Valtýr Blöndal ráði öllum útlánum í bönkunum? Hvers vegna í ósköpunum er verið að basla með það? Og hvers vegna hafa þeir beitt öllum brögðum á aðalfundi Útvegsbankans h/f til þess að ná þar meiri hl. í bankaráði til að geta skapað meiri hluta í framkvæmdastjórn, og hvers vegna leggja þeir svo hart að sér að ná meiri hl. í framkvæmdastjórn Landsbankans eins og kunnugt er? Ekki höfðu þeir meiri hl., þegar þessir menn voru kosnir, sagði hv. 1. þm. Reykv., ef ég man rétt Gunnar Viðar. Ég ætla ekki heldur að fara inn á það, hvernig sú kosning var og hvernig henni var komið í kring. En hv. þm. Sjálfstfl. vita ósköp vel um það, og þá voru þeim meirihlutavöldin meira virði í bönkunum en þau virðast nú. Þá virðast þeir ekki hafa gætt þess, að raunverulega, þótt þeir fengju þennan mann með því móti, sem þeir fengu hann inn í bankann, þá réð Vilhjálmur Þór raunverulega öllu, og sama var með hinn bankann, eins og ég sagði áður. — Ég get svarað því strax viðkomandi kosningu Vilhjálms Þór, að þegar var verið að taka fram í fyrir hæstv. fjmrh. og segja, að það væri ekki til þess að vera með neinn stráksskap hér úr ráðherrastóli, að ég get lýst því yfir, að það hefði orðið að stjórnarslitum, ef Sjálfstfl. hefði farið því fram, sem hann ætlaði, að skipa hann ekki sem bankastjóra. En þá voru völdin svo mikil, að þá átti að skipa allt annan, þá voru völdin svo mikils virði. Og þeir samningar stóðu yfir, ekki svo að vikum skipti, heldur svo að mánuðum skipti, að það var þvingað fram. Það er vitanlega þetta, sem skiptir meginmáli, það er það, að enginn einn flokkur ráði yfir aðalviðskiptabönkunum og þar með þjóðbankanum, og sízt þeir menn, sem eru í andstöðu við ríkisstj.

Hér var á það minnzt af hv. 5. þm. Reykv., að ég hefði svarað því, þegar hv. 9. landsk. sagði að bankastjórarnir ættu að framkvæma stefnu ríkisstj. í fjármálum eða þeir ættu að fara, — ég sagði, að þeirri reglu hefði nú yfirleitt ekki verið fylgt á Íslandi að reka menn í stórum stíl. En hann misskilur áreiðanlega grg. viðkomandi Útvegsbankanum, því að sjálfsögðu er það, að um leið og hlutafélagi er breytt í ríkisbanka, þá falla niður umboð ekki aðeins bankaráðs, heldur bankastjóra, og með þeirri breytingu, sem gerð er á landsbankalögunum, er gerð hliðstæð grein fyrir þessu. Hitt er allt annað mál, sem líka er sagt í grg., hverjir verða ráðnir til þess að gegna þessum störfum. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um Búnaðarbankann og Iðnaðarbankann, hvort þeir eru hliðstæðir. Það er vitanlega alveg rétt, annað er ríkisbanki, en hinn er það ekki, nema að því leyti sem ríkið á sína hlutdeild í honum, en þessir bankar eiga það báðir sameiginlegt, að þeir eru bankar stétta, bænda annars vegar og iðnaðarmanna hins vegar, og eins og ég hef bent á, þá fylgir Búnaðarbankinn að sjálfsögðu þeim reglum, sem settar eru um útlán úr ræktunarsjóði, sem er alveg fastákveðið eftir lögum, og úr byggingarsjóði, sem einnig er alveg fastákveðið, og kemur þess vegna ekki til athugunar annað en það sparifé, sem honum er trúað fyrir.

Sjálfstæðismenn segjast ekki hafa misnotað bankana í einu eða neinu. Ég hef orðað það þannig, að það mætti lána misjafnlega til hinna einstöku atvinnugreina og síðan væri auðvelt að segja, að það væri ekkert til handa öðrum, þegar þar að kemur. Ég ætla ekkert að ræða frekar um þetta atriði málsins. Það er ómögulegt að ræða um einstök útlán og ágreining um, hvernig á að verja því litla fé, sem við höfum, öðruvísi en að lenda í umræðum, sem er óviðeigandi að hafa frammi hér á Alþ. eða a.m.k. ég vil ekki láta leiða mig inn á, vegna þess að það þýðir það, að rætt verður um einstök lán. En ég óska sjálfstæðismönnum til hamingju með það, að þegar nú verður breytt um stjórn á bönkunum, þá sé þetta allt saman svo hreint, að það hafi aldrei verið lánað frekar til eins en annars á þann hátt, sem ekki hefði átt að vera.

Hv. 1. þm. Reykv. minntist á það, að við hefðum, framsóknarmennirnir, verið andvígir því að hafa þá kosningu á bankaráði Landsbankans að kjósa 4 menn hér í Sþ., eins og það var 1928, og hlutaðeigandi ráðh. skipaði form., við hefðum komið þessu ákvæði inn, sem nú væri orðið 30 ára gamalt, um bankanefndina. Og hann taldi það ákaflega mikil firn, að við skyldum ekki vera á sama máli núna, við skyldum vera að breyta til og leggja niður bankanefndina, en taka upp þetta fyrirkomulag, sem hefði verið horfið frá. En það má náttúrlega alveg eins snúa þessu við og spyrja: Hvers vegna eru sjálfstæðismenn ekki því samþykkir að kjósa 4 menn í Sþ. núna og láta hlutaðeigandi ráðh. skipa bankaráðsformann, því að það var það, sem þeir voru með 1928? Það er vitnað í það hér, að þetta séu orðin 30 ára gömul lög. Ég sé nú satt að segja ekkert athugavert við það, þó að lögum sé breytt, því að þeim er nú breytt satt að segja með styttra millibili en hér um ræðir. Og ef við höfum komizt að þeirri niðurstöðu, að bankan. sé fyrirkomulag, sem hafi ekki reynzt eins vel og við höfðum búizt við, og höfum horfið frá því, þá er svo mikið víst, að sjálfstæðismönnum hefur snúizt hugur algerlega á sama hátt viðkomandi því fyrirkomulagi, sem við mæltum með 1928.

Ég nenni ekki að rekja hér ádeilurnar viðkomandi hæstarétti. Það er vitanlega mjög deilt um það, bæði hér og annars staðar, hvað hæstaréttardómarar eigi að verða gamlir. Því er haldið fram af ýmsum, sem er rétt, að menn verði reyndari og vitrari með aldrinum og reynslunni. Sjálfsagt gildir þetta stundum, en stundum er það nú líka þannig, að þegar menn eldast, þá eru embættismenn, þ. á m. hæstaréttardómarar, ekki í eins góðu samræmi við þann hugsunarhátt, sem er í því þjóðfélagi, sem þeir eiga að lifa og starfa fyrir, eins og þeir, sem eru yngri, ef þeir eru komnir á manndómsár og búnir að fá nokkra reynslu. Og stundum er það þannig, að það, sem við eldri mennirnir höldum fram að sé lífsreynsla, reynist vera fordómar. Mér dettur ekki í hug að fara að dæma um þessa ágætu menn, sem þarna viku úr starfi. Það er heimild til þess, sem hefur verið notuð oftar en einu sinni, eins og hv. 1. þm. Reykv. hefur bent á, að láta dómara fara 65 ára, og hann bendir nú á það, að annar hefði verið orðinn það farinn að heilsu, að hann hefði fallið frá rétt á eftir. Þessi beimild í lögum er vitanlega vegna þess, að það þykir rétt, að dómsmrh. geti skipt um, þegar maðurinn er orðinn 65 ára, til að fyrirbyggja það, að of gamlir menn séu í embætti eða of hrumir.

En það er nú ekki satt að segja hægt að tala um, að þetta sé beinlínis ofsóknaratriði, því að hæstaréttardómararnir eru þeir einu, að ég hygg, í þessu landi, sem hafa full laun, meðan þeir lifa, og missa einskis í launum við það að láta af starfi. Þetta er gert vegna þess, að það þykir nauðsynlegt að tryggja afkomu þeirra betur en annarra embættismanna, til þess að þeir séu sem sjálfstæðastir í starfi. Þetta skraf um það, að mennirnir, sem hafi komið þarna inn, hafi reynzt ágætir og að það hafi engu raskað, við hefðum ekki getað hrært í þeim, og ég, sem er sá vondi maður, hefði ekki getað haft áhrif á þá, það er vitanlega hlutur, sem ekki er svaraverður. Vitanlega eru mennirnir þannig, vegna þess að við víssum, hvaða menn við völdum, og völdum þá til þess að gegna skyldu sinni eftir beztu samvizku, og það hafa þeir gert.

Ég get aðeins upplýst það hér, að það siðferði var í dómarastétt, að þessir menn, sem gegna þessum störfum, gegndu fulltrúastörfum um nokkurt skeið, og ef hv. 1. þm. Reykv. heldur, að það hafi verið ætlun mín að fara til þessara manna og skipa þeim fyrir um það, hvernig þeir ættu að dæma, eins og hann hafði gefið í skyn, þá get ég sagt honum það til sönnunarmerkis, að ég veit nú satt að segja heldur betur, vegna þess að ég gegndi fulltrúastarfi með þessum mönnum sem dómurum. Þeir umgengust ákaflega mikið hæstaréttarmálfærslumenn og aðra málfærslumenn hér í bænum, og það hefði verið talin sú mesta móðgun, hvað góður kunningi sem var í málfærslumannastétt, ef hann hefði nokkurn tíma leyft sér að spyrja um það fyrir fram, hvernig dómur mundi fara, og gilti jafnt og ekki sízt, ef menn hittust í kunningjahóp. Þessum getsökum, að ég hafi ætlað mér að hafa áhrif á þessa menn, tel ég fullsvarað með þessu. Við höfum verið heppin með það, að þannig hefur verið sú regla, sem dómarar þessa lands hafa fylgt.

Að lokum minntist hv. 1. þm. Reykv. á það, að sparifé hefði minnkað og að það væri þessari ríkisstj. að kenna. — Það er nú náttúrlega staðreynd, sem svo að segja hver einasti maður í þessu landi þekkir, sem nokkuð fylgist með, að áhugi manna á að leggja inn sparifé var byrjaður að þverra, þegar fyrrverandi ríkisstjórn lét af völdum, og raunverulega sannaði hv. 1. þm. Reykv. þetta álit almennings, vegna þess að hann sagði, að það væru athafnir, sem gilda, en ekki orð í þessu efni. En athafnir fyrrv. ríkisstj. voru þannig mánuðina áður en hún hrökklaðist frá völdum, að vísitalan hækkaði jafnt og þétt með miklum braða við hver mánaðamót. Það voru þær staðreyndir, sem almenningur skildi, og það er vegna þess, að ótti manna við að geyma fé á sparisjóði hefur verið til staðar. En ef sjálfstæðismenn vilja hlynna að því, að sparifé haldi áfram að aukast, eins og þeir tala í öðru orðinu, þá ættu þeir a.m.k. í stað þess að haga sér á þann hátt, sem þeir haga sér nú í málunum, sem ég minntist á núna í ræðu minni fyrir stuttu, ef þeir væru sjálfum sér samkvæmir, að styðja að þeirri stefnu ríkisstj. að halda verðlaginu stöðugu, í staðinn fyrir það að vinna með þeim aðferðum, sem eru að endemum, að reyna að sprengja verðlagið eingöngu í því skyni að reyna að koma ríkisstj. frá eða eyðileggja stefnuna, en alveg þvert ofan í sína hagsmuni og hagsmuni þjóðarinnar.