18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

177. mál, Landsbanki Íslands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að bæta fáeinum orðum við það, sem ég sagði hér í dag, einkum vegna þeirrar síðustu ræðu, sem hæstv. forsrh. hefur nú haldið. Skal ég þó ekki hafa þetta langt mál.

Hæstv. ráðh. sagði það hér snemma í sinni

ræðu, að þeir sjálfstæðismenn, sem hér hefðu talað, væru sammála þeim skipulagshreytingum, sem hér væri farið fram á í bönkum landsins. Þetta er ekki rétt.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess, að ég mótmælti algerlega þeirri skipulagsbreytingu, sem fyrirhuguð er á Landsbankanum, og tel á henni enga þörf. Sú breyting, sem þar verður, gerir það m.a. að fjölga yfirmönnum bankans um fimm og verður til þess að auka útgjöldin við stjórn bankans um nokkur hundruð þúsunda. Að það sé einhver framför að því, eins og nú er komið fjármálum bankanna, að skipta bankanum í tvennt, fjölga bankastjórum hans um tvo og bæta við þremur stjórnarmönnum, það fæ ég ekki skilið, og a.m.k. hefur hvorki 1. þm. Reykv. (BBen) né 5. þm. Reykv. (JáhH), sem hér hafa talað, lýst neinu samþykki við þessa skipulagsbreytingu.

Á hitt hef ég ekki neitt minnzt, hvað snertir Útvegsbankann, að breyta honum úr hlutafélagi í ríkisbanka. Það getur út af fyrir sig verið réttmætt, þó að ég búist við, að sá banki geti starfað eins og hann hefur gert undir því skipulagi, sem er, og a.m.k. er það víst, að ekkert batnar hagur hans eða útlánageta við það að breyta honum á þann hátt.

Eru þetta þó ekki aðalatriði af því, sem ég vildi minnast hér á, heldur vil ég ítreka það, sem ég vék að hér í dag, að ég mótmæli því harðlega, að það hafi, síðan ég fór að kynnast í Landsbankanum og kom þar í bankaráð fyrir 3 árum, verið höfð í frammi nokkur flokksleg hlutdrægni, þannig að hægt sé að segja, eins og hæstv. ráðh. hefur hvað eftir annað gert, að það sé einn flokkur, sem ráði bönkunum. Hæstv. ráðh. margendurtók, að það væri engan veginn eðlilegt, að einn stjórnmálaflokkur réði þessum tveimur bönkum. Þar með er hann að segja: Vilhjálmur Þór bankastjóri og Valtýr Blöndal bankastjóri eru alveg áhrifalausir menn, og þeir eru beittir yfirgangi af hinum bankastjórunum, sem hafa meirihlutavaldið í þessum bönkum. — Ég efast um, að þessir menn mundu færa nokkrar þakkir, hvorki hæstv. forsrh. né öðrum, sem hafa skrifað í svipuðum dúr, fyrir þessar kveðjur.

Þá sagði hæstv. ráðh.: Ja, til hvers er Sjálfstfl. að burðast við að hafa meirihlutavald í bönkunum, ef hann beitir því ekki? Nú er það náttúrlega, eins og gefur að skilja, að það skipulag, sem er á þessum málum og er fyrst og fremst hvað Landsbankann varðar í gegnum bankanefndina, hefur leitt það af sér og gert það mögulegt, að sjálfstæðismenn ættu þessi störf, og það er ekkert undarlegt, að það, sem fellur upp í hendurnar á einum flokki, sé notað þannig, að það séu settir hans menn í þessi störf. En að þeir hafi beitt sér með hlutdrægni í sinni starfsemi í bankanum, því mótmæli ég, og ég mótmæli því harðlega.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri alls ekki neinn tilgangur með þessu frv. að reka menn og það væri yfirleitt alls ekki notað hér á landi. Ja, það var nú 1935, ef ég man rétt, þá breyttu Framsfl. og Alþfl. l. um Búnaðarbanka Íslands eingöngu til þess að flæma þaðan burt bankastjórann Pétur Magnússon. Bjarni Ásgeirsson, sem þá var bankastjóri í bankanum líka, var sömuleiðis látinn fara með þeirri breytingu, en honum var útvegað annað starf, og einn af fyrrv. þm. Alþfl., sem sagði mér frá þessu, sem ég raunar vissi um, sagði, að þetta hefði verið það andstyggilegasta verk, sem sinn flokkur hefði verið knúinn út í að fylgja.

Nú kann að vera, að það sé ekki ætlun hæstv. ríkisstj. að reka neina bankastjóra frá með þessum lagabreytingum, sem þeir eru hér með. Ég veit ekkert um það. Það kemur í ljós á sínum tíma. Það kann að vera og að það eigi þá að byggjast á því, að það sé fjölgað svo mikið bankastjórum, að það sé hægt að láta þá vera, með því þó um leið að taka meirihlutavald eða meirihlutaaðstöðu af þeim, sem eru fylgismenn Sjálfstfl. En ef það er ekki meiningin að reka neina af þessum bankastjórum burt, þá fer að verða skrýtinn hugsanagangurinn eftir þeim ummælum, sem hér hafa verið höfð í frammi varðandi þetta.

En það er fleira en bankastjórar, sem þarna er um að ræða, því að samkv. þessum lagabreytingum, sem hér á að knýja í gegn, eru það hvorki meira né minna en fimm bankaráðsmenn í öllum bönkunum þremur, fimm bankaráðsmenn, sem tilheyra Sjálfstfl., sem stjórnarliðið ætlar á þennan hátt að flæma burt eða sama sem reka. Það er þess vegna ekki alveg í samræmi við yfirlýsingar hæstv. ráðh., að það sé ekki ætlunin að reka neina menn.

Varðandi það, sem hæstv. ráðh. sagði hér um spariféð, þá er það vitaður hlutur, að sparifjáraukningin hefur stöðvazt, síðan núverandi ríkisstj. tók við. Það er að vísu rétt, að aukning hennar var nokkuð farin að minnka í tíð fyrrv. stjórnar, en það hefur alveg tekið steininn úr, síðan þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum.

Varðandi þær ásakanir, sem komu fram frá hæstv. forsrh. nú á fyrrv. stjórn og hennar fjármálastefnu, þá hittir það fyrst og fremst hans flokksbróður, fyrrv. og núverandi fjmrh., sem hefur haft stjórn fjármálanna á hendi.

Að öðru leyti skal ég ekkert fara að þræta um þá hluti, sem ég hef ekki gefið mig hér neitt að, eins og skipun hæstaréttar og annað slíkt, en bæði í dag og nú kvaddi ég mér hljóðs fyrst og fremst til þess að mótmæla þeim getsökum, þeim ásökunum, sem hafa kveðið við í blöðum og ræðum hv. stjórnarliða, að það sé einhver ægileg hlutdrægni, sem bankastjórar Sjálfstfl. hafi beitt í aðalbönkum landsins, Landsbankanum og Útvegsbankanum. Því mótmæli ég, og ég held, að það væri sæmra fyrir hæstv. stj. og hennar lið að færa einhverjar sannanir fyrir því, að þeirra menn í bönkunum hafi verið þar ofurliði bornir eða verið áhrifalausir menn.