18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

177. mál, Landsbanki Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. heldur því fram, að við höfum heimtað það af honum, að nefnd væru einstök útlán, sem athugandi væru í bönkunum. Við höfum aldrei gert það, heldur farið fram á, að hann gerði grein fyrir almennum ágreiningi eða árekstrum, sem ríkisstj. hefur átt í við bankana eða innan bankanna hafa orðið vegna meirihlutaaðstöðu Sjálfstfl. Þessu er enn ósvarað. Hann segir, að við heimtum, að ríkisstj. eigi að treysta á sjálfstæðismennina í bönkunum. Það höfum við aldrei sagt, en við höfum sagt hitt, að ef ríkisstj. vantreystir þessum mönnum, þá verður hún að byggja sitt vantraust á staðreyndum. Það hefur hún ekki gert. Ég skil ekki, hvað hæstv. forsrh. er að fara, þegar hann segir, að sjálfstæðismenn hafi beitt öllum brögðum í fulltrúaráði Útvegsbankans til þess að ná aðstöðu til þess að kjósa bankastjóra. Þetta eru stór orð hjá hæstv. forsrh., að í fulltrúaráði Útvegsbankans hafi verið beitt öllum brögðum, algerlega órökstudd mér vitanlega, ekki annað en tilhæfulaus og ósæmandi að viðhafa þau öðruvísi en færa þeim nokkurn stað.

Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði kostað stjórnarskipti, ef Vilhjálmur Þór hefði ekki verið kosinn bankastjóri, og þá fékk maður skýringu á því. - Ég hef verið í þingflokki sjálfstæðismanna, meðan á þessu gekk, og heyrði aldrei nefnt neitt um stjórnarskipti þar. Sjálfum finnst mér þetta vera . töluvert Framsóknarlegt, þegar tiltekinn gæðingur á ekki að fá tiltekna stöðu, þá segja framsóknarmennirnir: Þá verður það að kosta stjórnarskipti. — Þetta er ný og skemmtileg upplýsing.

Ég verð svo að leiðrétta hjá hæstv. forsrh., þegar hann sagði, að áhugi fyrir sparifjármyndun hjá almenningi hefði byrjað að þverra, áður en fyrrverandi ríkisstj. lét af völdum. Þetta er rangt. Sparifjármyndunin var bæði jafnmikil og meiri en á undanförnum árum fram til júlíloka 1956, og ég efast um, að hún hafi annað ár á fyrstu mánuðum ársins verið meiri en á árinu 1956. Annaðhvort hefur hæstv. forsrh. ekki kynnt sér þetta nægilega vel eða hann misminnir í þessu efni.

Loksins er svo eitt, að hæstv. forsrh. segir, að ég hafi misskilið grg. við frv. um Útvegsbankann, að ekki falli niður umboð bankastjóranna. Ég bið afsökunar á því, ef hér er eitthvað, sem mér hefur yfirsézt og ég misskilið, en í 37. gr. lagafrv. sjálfs stendur: „Útvegsbanki Íslands tekur við öllum réttindum og skyldum gagnvart starfsfólki og framkvæmdastjórn Útvegsbanka Íslands h/f, er hlutafélagið hættir störfum.“ Í grg. segir um þessa grein: „Þarfnast ekki skýringar við“, — og ég hef ekki enn séð ákvæði frv. né grg. um það, að umboð bankastjóra Útvegsbankans falli niður, og vil því að lokum biðja hæstv. ráðh. að benda mér á það, og eftir að hann hefur gert það, þá segi ég, að ég biðst afsökunar á því, ef þetta er mín yfirsjón. Ég vildi óska eftir því, að hæstv. ráðh. vildi benda mér á þetta ákvæði í frv. eða grg.