24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

177. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það hefur verið gerð grein fyrir þessum frv. af hendi stjórnarinnar og frsm. meiri hl. n., og ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka meginefnið, sem þar hefur komið fram. Hins vegar hafa hv. stjórnarandstæðingar gert mikið úr að skora á stjórnina og stjórnarsinna að nefna þótt ekki væri nema eitt einasta dæmi um pólitíska misnotkun bankanna. Þeir skora á okkur að gera þetta, af því að þeir vita, að viðskipti manna og fyrirtækja við bankana eru yfirleitt trúnaðarmál og ekki þess eðlis, að hægt sé að ræða þau mikið eða með einstökum dæmum á opinberum vettvangi. Þetta er það vígi, sem þeir standa á bak við í þessum efnum.

En ég stend hér upp aðeins til þess að verða við ósk 5. þm. Reykv. (JóhH) og nefna eitt dæmi.

Eftir upplýsingum, sem ég hef fengið, nema lánveitingar þriggja höfuðbankanna til sveitarfélaga samtals 112 millj. 643 þús. kr. Lán til sveitarfélaga, þ.e. til sveitarfélaganna sjálfra, þar eru ekki með talin sérstök fyrirtæki sveitarfélaganna, eins og bæjarútgerð eða blönduð útgerðarfyrirtæki, sem sveitarfélögin eiga þátt i, eða annað sambærilegt, — lán til sveitarfélaga nema 112.6 millj., og þetta eina litla dæmi, sem ég ætla að nefna, er þriðja stærsta sveitarfélagið í þessu landi, Hafnarfjarðarbær.

Hafnarfjarðarbær hefur af þessum 112.6 millj. aðeins 350 þús. kr. í lán úr þrem höfuðbönkum þjóðarinnar, og getur þá hver maður séð, hvernig aðstæðurnar eru þar. Annars vegar eru þeir menn, sem við höfum ákært um að misnota aðstöðu sína í bönkunum í stórum stíl, þótt erfitt sé að tala opinberlega um einstök mál og einstaka menn, og á hinn bóginn það bæjarfélag, sem þeir hafa kannske haft, af stærri bæjarfélögum, hvað minnst áhrif á og andstæðingar þeirra hvað mest undanfarin ár. Þar er ástandið svona, að af 112.6 millj. kr., sem bankarnir hafa lánað sveitarfélögun;um, hefur þetta bæjarfélag, það þriðja stærsta í landinu, fengið 0.3 millj. Í þessu sambandi, eftir að ég hef nefnt þetta eina dæmi, skora ég á 5. þm. Reykv. að segja okkur frá því, hvað Reykjavíkurbær hefur stóran hluta af þessum 112 millj. kr.