09.05.1957
Sameinað þing: 56. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

Bifreiðastæði alþingismanna

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er vegna fregnar, sem ég sé hér í blaði í morgun, sem ég vildi hreyfa málefni við hæstv. forseta. Þar er sagt:

„Á síðasta fundi bæjarráðs, er haldinn var á þriðjudaginn, voru lagðar fram tvær tillögur frá umferðarnefndinni varðandi bílaumferð í miðbæ Reykjavíkur. Önnur tillagan er á þá leið, að nú verði bannaðar bifreiðastöður í Templarasundi að austanverðu, en sú gata liggur milli dómkirkjunnar og alþingishússins út að Vonarstræti, og er þar mikil bílaumferð, m.a. í sambandi við útfarir frá dómkirkjunni.“

Svona hljóðar þessi fregn.

Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga og ekki nema til góðs frá umferðarsjónarmiði, að þarna séu bönnuð bílastæði. En ég geri ráð fyrir því, að fyrir ýmsa þingmenn muni þetta koma sér mjög illa, ef ekki verða gerðar ráðstafanir — einhverjar aðrar — til úrbóta fyrir þingmenn.

Ég vil því skjóta því til hæstv. forseta, að forsetar ásamt skrifstofustjóra Alþingis athugi, hvaða ráð séu hér tiltækileg. Hugsanlegt væri að semja um það við bæjaryfirvöldin, að þingmönnum yrði, meðan Alþingi stendur, ætlaður forgangsréttur að bílastæðum á torginu bak við dómkirkjuna. Hugsanlegt er að taka eitthvað af lóðinni hér vestanvert við alþingishúsið og nota í þessu skyni, og er þó þar, eins og sakir standa, á meðan Listamannaskálinn stendur, ekki um mikið rúm að ræða. En það er greinilegt, að ef á að banna bifreiðastöður á þeim slóðum, sem ég gat um, þá skapast gersamlega óviðunandi ástand fyrir þingmenn, nema því aðeins að ráðstafanir séu gerðar einhverjar aðrar. Og þar sem mér skilst, að við liggi, að þessi samþykkt verði gerð og henni verði þá framfylgt, tel ég, að hér sé ekki um mjög mikinn tíma til stefnu að ræða. Ég tel málið naumast þess eðlis, að þörf sé á að flytja um það þáltill., en hins vegar slíkt, að ekki sé hægt að láta það afskiptalaust, og vona, að þessi ábending nægi til þess, að hæstv. forsetar taki það til athugunar og þeirrar fyrirgreiðslu, sem þörf er á.

Ég skal taka fram, að sjálfan mig varðar málið ekki mikið, vegna þess að ég hef yfirleitt bíl ekki standandi hér. En mér er ljóst af því að sjá, hvernig bílum er skipað fyrir utan húsið og hversu fjölmargir þm. eiga hér hlut að máli, að fullkomið öngþveiti mundi skapast, ef ekki verður við gert í tíma.