24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

177. mál, Landsbanki Íslands

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það lítur út fyrir, að stjórnarliðið ætli að gera sig ánægt með þá klassísku sönnun hjá hv. 5. landsk., að skuldir Hafnarfjarðar væru óræk sönnun fyrir misbeitingu sjálfstæðismanna í bönkum landsins. Hann upplýsti, eins og kunnugt er, við fyrri umr. í dag, að Hafnarfjörður skuldaði ekki nema 300 þús. kr. Nú hafa að vísu komið upp nýjar upplýsingar frá hv. þm. A-Húnv., sem er í bankaráði Landsbankans, um, að þessi virðulegi kaupstaður skuldi nú 3 millj. í þeim banka. Ég tók eftir, að hann segði þrjár. (Gripið fram í: Þrjár og hálfa.) Eða þrjár og hálfa. Þetta er farið að verða nokkuð erfitt viðfangsefni, og efast ég ekki um, að þessar upplýsingar hjá hv. þm. A-Húnv. muni vera réttar. Ég hafði, eins og ég gat um í dag, talsverða ástæðu til þess að ætla, að upplýsingar hv. 5. landsk. væru ekki alveg óvefengjanlegar.

Það virðist því næst að spyrja í sambandi við þetta sönnunarmál: Er það þá sjálfstæðismönnum að kenna, að skuldir Hafnarfjarðar eru ekki meiri í bönkunum en 300 þús. kr., eða er það sjálfstæðismönnum að þakka, að Hafnarfjörður skuldar ekki meira en þetta, eða hefur Hafnarfjörður beðið um lán og fengið synjun, eða hefur Hafnarfjörður ekki þurft á láni að halda? Þessar skýringar virðist vanta, og væri æskilegt, ef hv. þm. vildi gefa nánari skýringar á þessu. Og ef hinir illu sjálfstæðismenn hafa synjað Hafnarfirði um lán, hvers vegna fer ekki kaupstaðurinn þá til vina sinna, framsóknarmanna í Búnaðarbankanum, og hrindir af sér þeirri auðmýkt að ganga með svona lítinn skuldabagga? M.ö.o. sönnunin um misbeitingu sjálfstæðismanna er nú skjalfest, og sönnunin er sú, að Hafnarfjörður skuldar ekki nema 300 þús. kr. Hvað viljið þið hafa það betra, enda er sýnilegt, að stjórnarliðið gerir sig fullkomlega ánægt með þetta? Þetta er svo lítið, að það er eiginlega óréttlæti, sem er lítt þolandi, og því verður að fá nýja bankastjóra og ný bankaráð til þess að fá úr þessu óréttlæti bætt. Getur nú stjórnarliðið glaðzt í hjarta sínu yfir hinni merkilegu sönnun, sem fram er komin um misbeitingu sjálfstæðismanna.

Hv. þm. V-Húnv. virtist vera mjög ánægður yfir þessu nýja formi á Landsbankanum, sem hann er nú að líkindum einn aðalhöfundurinn að. En mér heyrðist ekki hæstv. forseti vera jafnánægður, þegar hann lagði það á sig að koma úr forsetastóli upp í ræðustólinn til þess að vitna um þá kúgun, sem Framsókn sýnir vinum sínum í ríkisstjórninni. Þarna er, ja, hvað heitir flokkurinn, kommúnistar ásamt jafnaðarmönnum í ríkisstjórninni, og báðir vildu, að stofnaður yrði sérstakur seðlabanki. En það fór eins og jafnan áður, Framsókn hafði sitt fram. Þeir urðu að gera svo vel að beygja sig. Og svo segir hæstv. forseti: Ja, þetta er þó skref í rétta átt. — Ég get vel tekið undir það með honum. Þetta er skref í rétta átt, að Framsókn hafi sitt fram, eins og hún hefur viljað frá öndverðu. Þetta var líka ástæðan fyrir því, að fyrri tilraun rann út í sandinn. Það var vegna þess, að Framsókn vildi ekki hafa sjálfstæðan seðlabanka, en vildi hafa fyrirkomulagið, sem hv. þm. V-Húnv. er svo ánægður með, þ. e. að hafa bankann í tveim deildum og setja nýja stjórn yfir seðladeildina.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOI) sagðist vera á alveg gagnstæðri skoðun við mig um ríkisvaldið. Mín skoðun var sú, að ríkisvaldið ætti ekki að hafa ótakmörkuð umráð yfir bönkunum í landinu. Hann segir: Það er alveg öfugt. Ríkisstj. á að hafa ótakmarkað vald yfir bönkunum í landinu, og þeir eiga að gera það, sem hún vill, þótt það sé ekki ætið það, sem þeir álíta vera rétt. — Hv. þm. vildi sýnilega halda því fram, að ríkisstj. hlyti alltaf að gera rétt og það væri mjög vafasamt, hversu oft bankarnir gerðu rétt. Það er þetta ægilega bankavald, sem hefur jafnan farið í taugarnar á honum, og hann er nú sýnilega ánægður yfir því, að nú hillir undir það, að ríkisvald, sem er á hverjum tíma, geti farið að fyrirskipa bönkunum að gera það, sem það vill. Ef hv. þm. hefði undanfarin þrjú ár verið í ríkisstj. og bankarnir orðið að gera alveg eins og hann vildi, mundu ríkisbankarnir í landinu vera komnir að gjaldþroti. Ég er ekki eins viss um, að hv. þm. teldi, að þessi regla eða þessi stefna ætti að gilda, ef sjálfstæðismenn réðu yfir bönkunum. Ég hygg, að hann mundi þá ekki telja, að ríkisstj. ætti að geta farið með þá eftir vild sinni. En afstaða hans í bankamálum minnir mig dálítið á atvik, sem kom fyrir hér í Reykjavík fyrir mörgum árum. Þá var mikið atvinnuleysi hér, og voru miklir erfiðleikar að ná í fé til atvinnubótavinnu. Samt tókst bæjarstjórninni að fá 100 þús. kr. að láni í banka. En þessar 100 þús. kr. entust ekki lengi, aðeins hálfan mánuð fyrir vinnulaunum. Þá reis upp einn bæjarfulltrúinn á fundi og sagði: Ég heimta, að þessir peningar séu sóttir aftur í bankann, vegna þess að þeir eru allir komnir þangað, við ættum að geta tekið þá út aftur og notað í næstu atvinnubótavinnu.