24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

177. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv. heldur áfram að reyna að krafsa sig út úr þessu máli með því að blanda saman lánum bankanna til sjávarútvegs og fiskiðnaðar annars vegar og lánum bankanna til sveitarfélaga. Það veit hver maður, og hann veit það jafnvel og ég og sjálfsagt allir, sem hér eru staddir, að það, sem kallað er hjá bönkunum lán til sveitarfélaga, eru lán til hinna venjulegu sveitarfélagaverkefna, en ekki lán til útgerðar og fiskvinnslu. Ég nefndi ýtarlegt dæmi um vatnsveituframkvæmdir í Hafnarfirði því til stuðnings. Og það er algerlega tilgangslaust að reyna að rugla þessu tvennu svona gersamlega saman.

ríkisstj., sem hv. þm. studdi næst á undan núverandi stjórn, er búin að gorta æði mikið — og má það vissulega — af því, að hún hafi stuðlað að því, að 3 eða 4 mjög stór og myndarleg frystihús væru reist í landinu. Ég tek það alls ekki sem gildan pening, að lán Landsbankans til slíkra framkvæmda, til þess að halda uppbyggingu atvinnuvega áfram, þegar ríkisstj. er með stórar áætlanir um slíkt, sé nokkur afsökun fyrir því, að Hafnarfjarðarbær skuli ekki hafa fengið til sveitarfélagsþarfa nema 0.3 millj. af 112, sem þrír höfuðbankar þjóðarinnar lána til slíkra hluta. Það er fyrir neðan virðingu hv. þm. að reyna að rugla svona augljósum hlutum saman. Dæmið, sem ég nefndi, stendur algerlega óhaggað, það sér hver maður. Tölurnar eru svo skýrar. Það, sem um er að ræða, lán til sveitarstjórna, er einnig svo skýrt, að það er ekki nokkur leið að komast fram hjá því.

Rætt hefur verið nokkuð um afstöðu stjórnarflokkanna til þess, hvort átt hefði að gera seðlabankann að algerlega sjálfstæðum banka eða ekki. Það hefur komið fram, að það voru nokkuð mismunandi skoðanir um, hve langt ætti að ganga í þeim efnum. En rökin gegn því að skilja seðlabankann alveg frá Landsbankanum eru einnig öllum þm. kunn. Þau eru í stuttu máli, að Landsbanki Íslands hefur mikil viðskipti fyrir þjóð okkar erlendis og hann nýtur þar mjög mikils trausts. Það er þjóðinni ómetanlegt, að bankinn skuli hafa þetta traust, og það er til þess að rýra það á engan hátt og gefa ekkert tilefni til þess, að traust bankans erlendis minnki, sem sú leið hefur verið valin, sem ríkisstj. leggur til í frv. sínu, að seðlabankinn lúti sérstakri stjórn, en vill varðveita Landsbanka Íslands sem eina stofnun, varðveita það traust, sem hann hefur erlendis og okkar þjóð hefur mikla þörf fyrir.

Það hefur einnig verið rætt mikið um, hvort ríkisstj. eigi að ráða stefnu bankanna eða hvort bankarnir eigi að ráða efnahagsstefnunni í landinu, ég vil ekki alveg segja, hvort bankarnir eigi að ráða ríkinu, en það stappar nærri því, að það mætti orðast svo. Ég held, að nefna megi mörg dæmi frá öðrum þjóðum, sem við höfum sótt til margar fyrirmyndir, til stuðnings þeirri fullyrðingu, að þegar á milli ber, þá er það efnahagsstefnan og vilji ríkisstj., sem á að ráða. Það er t.d. orðin föst venja á Norðurlöndum, sem standa okkur næst og hafa veitt okkur flestar fyrirmyndir í bankamálum eins og öðrum málum, að þegar ágreiningur verður á milli seðlabankastjóra annars vegar og fjmrh. hins vegar, þá segir seðlabankastjórinn af sér. Það er hægt að nefna mörg dæmi um þetta og nefna nöfn, en þetta er staðreynd; þetta er föst venja, og talar það sínu máli um, hvernig frændur okkar á Norðurlöndum líta á þetta mál.

Hv. þm. A-Húnv. minntist á Bandaríkin og sagði, að þar væru flestir bankar einkabankar og þar af leiðandi miklu nær því, sem Sjálfstfl. sjálfsagt vildi hafa bankaskipun. Ég skal upplýsa hann um það, að jafnvel í þessu landi hins frjálsa framtaks, þar sem 3 eða 4 þús. bankar eru einkafyrirtæki, er líka til ríkisbanki, eins konar seðlabanki, The Federal Reserve Bank, eins og hann heitir, yfir öllu bankakerfi landsins. Þar á sjálfur fjmrh. sæti í bankaráði seðlabankans. Þeir líta svo á, að ríkisstj. eigi að hafa svo mikil áhrif á yfirstjórn bankamálanna og þar með verulegs hluta fjármálanna, að fjmrh. á sjálfur sæti í þessu bankaráði, en það er einmitt þetta bankaráð, sem ákveður stefnu seðlabankans þar vestra. Það er þessi banki, sem með vaxtapólitík sinni raunverulega ræður meiru en nokkur annar aðill um efnahagsástandið í landinu, því að með vaxtapólitík og með kröfum um það, hvað bankarnir skuli eiga miklar inneignir hjá ríkisbankanum, hefur hann áhrif á útlán bankanna, framkvæmdir og í raun og veru allt efnahagslífið. Þannig er hægt að sækja dæmi, hvort sem hv. sjálfstæðismenn vilja úr næstu nágrannalöndum okkar eða jafnvel sækja dæmið um ríkisafskipti og ríkisyfirráð yfir bankakerfi í sjálft gósenland hins frjálsa framtaks, þar sem langflestir viðskiptabankarnir eru einkabankar.

Ég tel því, að sú stefna, sem hér er tekin upp, að ríkið eigi að ráða, þegar á milli ber, og eigi að geta haft þau áhrif á seðlabankann, stjórn hans og stefnu, sem við viljum vera láta, styðjist við svo sterk rök, að þar verði ekki á móti mælt.