23.11.1956
Sameinað þing: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

Minning látinna fyrrverandi alþingismanna

forseti (EmJ):

Síðdegis í gær varð Pálmi Hannesson rektor og fyrrv. alþingismaður bráðkvaddur í menntaskólahúsinu hér í bænum, 58 ára að aldri.

Pálmi Hannesson var kominn af skagfirzkum bændaættum, fæddur á Skíðastöðum í Lýtingsstaðahreppi 3. jan. 1898, sonur Hannesar bónda þar Péturssonar bónda í Valadal Pálmasonar og konu hans, Ingibjargar Jónsdóttur ráðsmanns í Haganesi í Fljótum Eiríkssonar.

Hann brautskráðist úr menntaskólanum í Reykjavik 1918, stundaði síðan nám í náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla, valdi sér dýrafræði að sérgrein og lauk meistaraprófi 1926. Á árunum 1926-1929 var hann kennari við gagnfræðaskólann á Akureyri, en varð rektor menntaskólans í Reykjavík haustið 1929 og gegndi því embætti til æviloka. Jafnframt forstöðu menntaskólans og kennslu þar voru honum falin fjölmörg trúnaðarstörf, og skulu hér talin nokkur þau helztu. Ráðunautur Búnaðarfélags Íslands um veiðimál var hann 1927–1929, sat 1930–1932 í mþn., sem undirbjó lög um lax- og silungsveiði, var formaður veiðimálanefndar frá 1933 til æviloka og formaður nefndar, sem vann 1954–1955 að endurskoðun laga um lax- og silungsveiði. Í rannsóknaráði ríkisins átti hann sæti frá stofnun þess 1940. Hann var í útvarpsráði 1935–1946, fyrst kosinn af útvarpsnotendum, síðar af Alþingi, og í menntamálaráði átti hann sæti 1934–1943 og frá 1946 þar til hann andaðist og vann síðustu störf sín í þágu þess. 1952 var hann skipaður í orðunefnd. Þingmaður Skagfirðinga var hann 1937–1942, sat á níu þingum alls. Í bæjarstjórn Reykjavíkur átti hann sæti 1946–1950. Hann átti einnig mikinn og góðan þátt í ýmiss konar félagsstarfsemi, var m.a. forseti Hins íslenzka þjóðvinafélags 1935–1939, fyrsti forseti Bandalags íslenzkra farfugla, sat í stjórn Ferðafélags Íslands og Hins íslenzka náttúrufræðifélags um langt skeið.

Það var ekki hending, að Pálmi Hannesson gerðist náttúrufræðingur. Hann ólst upp í fögru héraði, hafði yndi af ferðalögum um byggðir landsins og öræfi og leitaði jafnan úr fjölbýli, þegar kostur gafst. Á námsárum sínum tók hann þátt í könnunarferðum um óbyggðir Íslands, og jarðfræði varð síðan helzta viðfangsefni hans á sviði náttúruvísinda. Ýmislegt hefur hann birt um þau efni, þótt minna sé en skyldi vegna tímafrekra skyldustarfa á öðrum vettvangi, en dagbækur frá ferðalögum hans munu geyma mikinn og traustan fróðleik.

Pálmi Hannesson tók við ábyrgðarmiklu og vandasömu starfi, er hann varð ungur að árum rektor menntaskólans í Reykjavík. En hann stóðst vel þá raun sökum persónuleika síns, skapstyrks og frábærs hæfileika til að gerast leiðtogi og félagi ungra manna. Stjórn skólans fór honum jafnan vel úr hendi, og kennsla hans í náttúrufræði þótti með ágætum.

Pálmi Hannesson var höfðinglegur álitum, ágætlega gáfaður og menntaður. Hann var drengur góður í hvívetna, unni vel landi sínu og vildi veg þjóðarinnar sem mestan. Á Alþingi voru honum hugstæðust þau mál, er vörðuðu menningu og menntun þjóðarinnar og hagnýtar rannsóknir á náttúru landsins. Á ræðu hans var jafnan gott að hlýða. Hann flutti mál sitt af þrótti og karlmennsku á fagurri íslenzku.

Við fráfall Pálma Hannessonar á þjóðin á bak að sjá mikilhæfum drengskaparmanni og einlægum unnanda íslenzkrar náttúru og íslenzkrar tungu. Ég vil biðja hv. alþingismenn að votta minningu hans virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]