27.05.1957
Efri deild: 110. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

177. mál, Landsbanki Íslands

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Með frv. þessu um breytingu á landsbankalögunum og þeim öðrum, sem því fylgja, er að því stefnt að gerbreyta stjórn bankanna, Landsbanka Íslands, Útvegsbanka Íslands og Framkvæmdabanka Íslands.

Rökstuðningurinn er sá, að því er Landsbankann og Útvegsbankann áhrærir, að þessi breyting sé nauðsynleg sakir þess, að fyrir rás viðburðanna hafi atvikazt svo, að Sjálfstfl. hafi meiri hluta í stjórn bankanna. Svo er þessu fylgt eftir með svívirðilegustu ásökunum á hendur stjórnendum bankanna, sagt, að þeir hafi misbeitt valdi sínu pólitískt í þágu Sjálfstfl.

Hæstv. forsrh., sem hefur lagt þetta mál fyrir Alþingi í umboði ríkisstj., hefur að vísu ekki berum orðum sagt, að bankastjórar Sjálfstfl. hafi misbeitt valdi sínu, en óbeint hefur hann gefið þetta í skyn.

Hins vegar hafa blöð hæstv. ríkisstj. tekið því dýpra í árinni. Af skrifum þeirra gætu ókunnugir haldið, að í bönkunum væri samsafn glæpamanna, sem einskis svifust. Ekki hafa blöðin haft fyrir því að koma með dæmi þessum sökum til rökstuðnings. Þau hafa látið sér nægja róg og órökstuddar dylgjur og fullyrðingar, og þetta hefur hæstv. ríkisstj. látið gott heita, um leið og hún fylgir þessu frv. á Alþ., og segir: Nú skulum við hreinsa til í bönkunum.

Ég tel þessi vinnubrögð ósæmileg með öllu, Þau eru ósæmileg í lýðræðisríki, sem vill telja sig í tölu réttarríkja, og það er ósamboðið virðingu Alþ. að hlusta á slíkar ákærur á fjarstadda embættismenn, sem er varnað máls sér til varnar.

Þeir, sem sökum eru bornir, eiga heimtingu á að vita, hvað það er, sem þeir hafa til saka unnið. Þeir eiga einnig kröfu til, að á þá sé hlustað, ef þeir hafa einhverjar varnir fram að bera. Allt annað er ósæmilegt í réttarríki.

Ég hef um margra ára skeið haft náin kynni af bankastjórum Landsbankans. Ég fullyrði, að þeir menn, sem þar hafa setið og sitja enn, séu svo grandvarir og heiðarlegir, að þeim mundi aldrei koma til hugar að misbelta valdi sínu í þágu pólitísks flokks. Það er vissulega hart, að þessir ágætu og heiðvirðu menn skuli verða að þola bótalaust, að þeir séu bornir glæpsamlegum sökum, án þess að þeim sé einn sinni gefinn kostur á að verja sig. (Forseti: Hér hefur enginn maður verið borinn glæpsamlegum sökum.) Nei, en þetta hefur verið gert, herra forseti, bæði í Nd. og eins utan þings. Og mér hefur verið tjáð, að farið hafi verið fram á það á fundum fjhn. Alþingis, að n. kynntu sér rækilega þann áburð, sem borinn hefur verið á bankastjóra bankanna, n. gengju sjálfar úr skugga um, hvort þessi áburður ætti við eitthvað að styðjast eða hvort sakirnar væru upplognar frá rótum. Mér til mikillar undrunar er mér tjáð, að stjórnarliðar í fjhn. hafi neitað þessum vinnubrögðum, svo sjálfsögð sem þau eru. Ekkert sannar betur vantrú þeirra sjálfra á réttmæti sakaráburðarins. Þeir þora ekki að horfa upp á það, að sannleikurinn komi í ljós, en telja hina leiðina öruggari, að beita ofbeldisaðferðum kommúnista og knýja málið fram á þann hátt.

Hæstv. forseti þessarar d. er formaður fjhn. d. Ég ber mikið traust til hans sem réttsýns drengskaparmanns í hvívetna. Sjálfur er hann bankastjóri og sem betur fer ekki í tölu þeirra, sem bornir eru sökum hér, en hann ætti öðrum fremur að geta sett sig í spor starfsbræðra sinna, sem eru bornir glæpsamlegum sökum, án þess að þeir fái rönd við reist.

Ég skora eindregið á hæstv. forseta, að hann láti kveðja á fund fjhn. stjórnendur bankanna og fá hreinlega úr því skorið, í hverju á að vera fólgin hin pólitíska misbeiting valds, sem fulltrúar Sjálfstfl. eru sakaðir um. Ég trúi ekki, að hæstv. forseti synji um þetta.

Hæstv. ríkisstj. er svo liðsterk hér á Alþingi, að vitanlega getur hún knúið þetta mál fram. En hún á að ganga hreint til verks. Hún á að segja það hreint út, sem fyrir henni vakir með breytingunni, sem sé: Við förum með völdin í landinu, og þess vegna viljum við, að við höfum stjórn bankanna í okkar hendi. — Þetta er mergur málsins. Hitt er ósæmilegt, að ætla sér að knýja málið fram með lognum sökum á heiðvirða menn.

Það er svo annað mál, hversu heilbrigt það væri fyrir þróun peninga- og bankamálanna í landinu, ef þessari aðferð yrði beitt, að sá háttur yrði upp tekinn, að í hvert skipti, sem skipt væri um ríkisstjórn í landinu, skyldi skipta um stjórn bankanna. Ég hygg, að það mundi ekki hafa traustvekjandi áhrif á bankana, hvorki inn á við né út á við.

Ég vil að lokum fara nokkrum orðum um þau önnur atriði, sem eru látin fylgja með þessari höfuðbreytingu, sem er gerbreyting á stjórn bankanna. Það er annars vegar aðgreining seðlabankans frá viðskiptabankanum og hins vegar að gera Útvegsbankann að ríkisbanka.

Það er ekki nýtt mál að fá settan á fót sjálfstæðan seðlabanka. Ýmsir telja rétt að aðskilja seðlabanka frá viðskiptabankanum, gera hann sjálfstæðan og óháðan. En sú breyting, sem hér er lagt til, að gerð verði, er hvorki fugl né fiskur.

Ef horfið væri að því að stofna sjálfstæðan seðlabanka, verður að setja um hann alveg sérstök lög og ganga þar rækilega frá. Þessi banki á ekki að vera verkfæri í höndum ríkisstj., eins og kommúnistar vilja vera láta. Þvert á móti, það þarf að tryggja sjálfstæði hans gagnvart ríkisstj. ekki síður en gagnvart viðskiptabönkunum. Það er þetta, sem þyrfti að gera. Hitt er fráleitt, ef pólitísk ríkisstj., ekki sízt stjórn, sem á allt sitt líf undir kommúnistum, á að ráða alveg stjórn bankamálanna.

Hitt aukaatriðið, sem fylgir þessum málum, að gera Útvegsbankann að ríkisbanka, tel ég í raun og veru ekki óeðlilegt. Þeir hlutir, sem einstaklingar eiga í bankanum, eru svo litlir, að þeirra gætir ekki að neinu leyti. Þessir menn voru á sínum tíma neyddir til að taka hlutabréf í bankanum, þegar herferðin var hér á árunum gerð á Íslandsbanka, og þeir eru ekki þarna hluthafar af því, að þeir hafi viljað stofna banka, þeir voru neyddir til þess. Og þar sem stjórnarflokkarnir hafa nú einu sinni sýnt af sér þá sanngirni, að þessir menn skuli fá greiðslu fyrir sín hlutabréf fullu verði, þá hef ég ekki fyrir mitt leyti neitt við það að athuga, að þetta verði gert.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, en ég treysti því, að hæstv. forseti sýni þann drengskap að vinna að þessu máli þannig, að sannleikurinn komi í ljós.