27.05.1957
Efri deild: 110. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

177. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. þm. V-Sk. hefur minnzt á nokkur atriði, og m.a. hefur hann minnzt á það, að bankastjórarnir í þessum bönkum, sem hann kallar fulltrúa Sjálfstfl., væru bornir sökum. Þar sem þetta er svar við þeirri ræðu, sem ég flutti hér við framsögu þessa máls, vil ég endurtaka það, sem í raun og veru hefur komið fram frá hæstv. forseta, að ég hef vitanlega ekki gefið neitt tilefni til, að þessi orð féllu hér. Ef ætti að rannsaka útlán í bönkunum, eins og stundum hefur verið gert í bönkum, sumpart hér, nokkur athugun í sambandi við gamla Íslandsbanka, sumpart annars staðar, þá kostar það hvorki meira né minna en að fá skrá yfir öll útlán bankans og leggja hana fyrir n. Og ég er ákaflega hræddur um, til að taka nú ekki dýpra í árinni, að það þætti dálítið einkennileg vinnuaðferð hér á Alþ. og næsta vafasöm, auk þess sem hún er ekki framkvæmanleg á stuttum tíma, ef væri snúið sér að þeirri vinnuaðferð að taka alla viðskiptaskrána og leggja hana fyrir n. hér á Alþ. Það þarf ekki að eyða neinum orðum að því, að það þætti vitanlega ekki við hæfi og væri það heldur ekki, og um réttmæti útlánanna er svo ekki hægt að ræða á Alþ. nema hafa nokkra daga umr. um útlánin í heild með tilgreindum persónum. Þess vegna hef ég vitanlega aldrei látið mér til hugar koma að nefna dæmi, þó að væri talað um að nefna dæmi, því að nm leið er maður þar kominn inn á þann ís, sem er svo háll, að það þýðir að taka fyrir einstök fyrirtæki, fjölda fyrirtækja, ræða efnahag þeirra og loks lán þeirra í bönkunum og hvað þeim væri lánað vegna fjárhagsstyrkleika og af öðrum ástæðum. Þetta held ég að við þurfum nú ekki að ræða frekar. Það þarf allt annað að koma til um aðstæður banka heldur en breytingar á bankalöggjöf, til þess að þetta verði framkvæmt í fljótleik.

Ég ætla svo ekki, vegna þess að ég tel þess varla þörf og skil ekki í því, að menn haldi fast við það við nánari athugun, að ræða þetta mál.

En viðkomandi stjórn bankanna vil ég segja þetta: Það kom fram hér í ræðu hv. þm. V-Sk., að það ætti ekki að koma því á, að ríkisstjórnin réði yfir bönkunum og þar með bankapólitíkinni í landinu; það veitti ekki af að hafa stjórnir, sem veittu viðnám ríkisstj. Þessu var flokksbróðir hans í hv. Nd., hagfræðingurinn, sem þar situr af hálfu Sjálfstfl., algerlega ósammála. Hann tvítók eða þrítók, að það væri vitanlega alveg sjálfsagður hlutur, að stjórn bankanna færi eftir þeirri peningapólitík, sem ríkisstj. markaði á hverjum tíma, og ef það væri ekki gert, þá ætti ríkisstj. að láta bankastjórana fara. Ég tók þetta sérstaklega upp eftir honum í hv. Nd., og hann endurtók, að hann teldi það vitanlega sjálfsagt, og talar þar vitanlega sem reyndur maður og um leið sem hagfræðingur. Það er ekki hægt fyrir eina ríkisstj. að stjórna peningamálum eins þjóðfélags nema hafa um leið áhrif á bankapólitíkina í landinu. Og það er nú þannig um þetta búið í sambandi við öryggi þeirra manna, sem stjórna bönkunum, að bæði bankaráð og sá ráðh., sem fer með bankamál, getur sagt öllum bankastjórunum upp nema í Útvegsbankanum, þar er hlutafélag, þar getur, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, ráðh. ráðið með vissu millibili, hverjir þeir eru og hverjir koma og fara. En í sjálfum þjóðbankanum er það þannig, að bankaráðið, meiri hluti bankaráðs og sá ráðh., sem fer með bankamál, geta sagt bankastjórunum upp fyrirvaralaust með því að greiða þeim, ef ég man rétt, sex mánaða laun. Og þetta er vitanlega í samræmi við þá kenningu, sem kom fram af hálfu Sjálfstfl. frá þeim hagfræðingi, sem lenti í og talaði í hv. nefnd.

Þess vegna þurfum við nú ekki að ræða frekar um það atriði. Það er búið svona um löggjöfina nú þegar, að ríkisstj. hefur þetta vald, ekki aðeins bankaráð, heldur ríkisstj., og það er vitanlega í samræmi við það, sem er talið eðlilegt og nauðsynlegt, til þess að ríkisstj. geti ráðið peningapólitíkinni.

Fleira var það held ég ekki, sem ég þarf að taka fram. En það kemur í ljós af því, sem ég hef sagt, að þessi frv. eru vegna þess valds, sem núna liggur í höndum ríkisstj., engin ofsókn. Það er ekkert annað en vindhögg út í bláinn að fullyrða það, þegar þess er gætt, hvað bankastjórarnir eru lausráðnir núna.