21.01.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

Minning látinna fyrrverandi alþingismanna

forseti (EmJ):

Áður en horfið er að afgreiðslu þingmála, vil ég minnast nokkrum orðum fyrrverandi alþingismanns, Steingríms Jónssonar fyrrum sýslumanns og bæjarfógeta, sem andaðist að heimili sinu á Akureyri 29. des. s.l., 89 ára að aldri.

Steingrímur Jónsson fæddist á Gautlöndum í Mývatnssveit 27. des. 1867, sonur Jóns bónda þar og alþingismanns Sigurðssonar og konu hans, Sólveigar Jónsdóttur prests í Reykjahlíð og síðar í Kirkjubæ í Hróarstungu Þorsteinssonar.

Hann brautskráðist úr lærða skólanum í Reykjavík vorið 1888, lauk embættisprófi í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1894 og gerðist sama ár aðstoðarmaður í íslenzku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn. Árið 1897 varð hann sýslumaður í Þingeyjarsýslu og hafði það starf á hendi í 23 ár, til ársins 1920, er hann var skipaður sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri. Gegndi hann því embætti til ársins 1934, er honum var veitt lausn sakir aldurs, en heimili átti hann á Akureyri til dauðadags.

Jafnframt umsvifamiklum embættisstörfum voru Steingrími Jónssyni falin ýmis trúnaðarstörf önnur í þágu þeirra héraða, þar sem hann bjó, og landsins alls. Árið 1906 var hann skipaður konungkjörinn alþingismaður, átti sæti á sjö þingum alls á árunum 1907–1915 og féll frá síðastur þeirra alþingismanna, sem voru konungkjörnir. Meðan hann sat í Húsavík, var hann lengst af í stjórn Kaupfélags Þingeyinga og Sparisjóðs Húsavíkur. Hann var bæjarfulltrúi á Akureyri á árunum 1923–1929 og jafnframt forseti bæjarstjórnar. Þar átti hann einnig sæti í yfirskattanefnd og stjórn Sjúkrasamlags Akureyrar. Héraðsdómslögmaður gerðist hann árið 1942.

Steingrímur Jónsson var kominn af traustum ættstofni. Hann ólst upp og hugarfar hans mótaðist á þeim slóðum, þar sem þjóðmálahreyfingar og menningarstraumar áttu sér einna greiðastan farveg hér á landi á síðustu áratugum nítjándu aldar. Faðir hans var forustumaður í héraðsmálum og þjóðmálum, og ekki mun það hending, að þrír synir Jóns á Gautlöndum áttu samtímis sæti á Alþingi. Steingrímur tók jafnan allmikinn þátt í umræðum, meðan hann sat á þingi. Á fyrsta þinginu, sem hann sat, 1907, var hann kosinn í millilandanefndina svokölluðu, sem ætlað var að semja við Dani um samband Íslands og Danmerkur. Samvinnuhreyfingin átti jafnan eindreginn stuðningsmann, þar sem hann var. Hann var formaður Sambands kaupfélaganna á árunum 1905–1910, átti löngum sæti á aðalfundum Sambands íslenzkra samvinnufélaga og var kjörinn heiðursfélagi þess árið 1952. Eitt af hugðarmálum hans var stofnun og starf menntaskóla á Akureyri. Lét hann sér jafnan annt um skólann, var frá 1928 til 1950 prófdómari þar í sögu við stúdentspróf, enda fór orð af áhuga hans á sagnfræði og þekkingu í þeirri grein.

Steingrímur Jónsson var glæsimenni, virðulegur og skyldurækinn embættismaður og réttsýnn í dómum. Hann var greindur og langminnugur, mælskur vel og vandaði jafnan málfar sitt. Félagslyndur var hann og ljúfmenni í kynningu, undi sér ætíð vel í hópi ungra manna, þótt aldur færðist yfir, og reyndist í hvívetna drengur góður.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að votta minningu þessa látna heiðursmanns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum].