28.05.1957
Efri deild: 112. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

177. mál, Landsbanki Íslands

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér urðu í gær viðvíkjandi meðferð málsins, vildi ég upplýsa, eins og reyndar ég upplýsti í gær, en frá öðrum stað, að þann 20. maí var haldinn sameiginlegur fundur fjhn. beggja d. og þá rætt um frv. til l. um Landsbanka Íslands, og stendur í gerðabók: „Frv. athugað og borið saman við gildandi lög.“ Þá voru fjarverandi úr fjhn. þessarar hv. d. Gunnar Thoroddsen ag Jóhann Þ. Jósefsson, sem báðir voru í útlöndum.

Ég átti svo tal við formann þingflokks Sjálfstfl. um það, að ég óskaði eftir, að fulltrúar frá honum tækju þátt í nefndarstörfum, og tilnefndi þá Sjálfstfl. þá Sigurð Bjarnason, hv. þm. N-Ísf., og Sigurð Ó. Ólafsson, hv. 2. þm. Árn.

Síðan var haldinn sameiginlegur fundur 21. s.m. og þessi mál þá rædd á þessum sameiginlega fundi, og síðan á fundi 22. maí voru þessi mál enn rædd.

Ég vil enn fremur geta þess, að þau atriði, sem brtt. voru gerðar um í Nd. á þskj. 608 og 636, eru árangur af þeim viðræðum, þó að till. væru ekki formaðar á þessum fundi. Sumar till. eru aðeins um að breyta tilvitnunum í gr., þannig að það var aðeins ritstjórnarverk í raun og veru og rætt um það á þessum fundum, að það þyrfti að gera.

Ég tel því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, hafi í sjálfu sér fengið athugun í fjhn. d., og ég get lýst því yfir, að meiri hluti fjhn. var reiðubúinn til að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt.