28.05.1957
Efri deild: 112. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

177. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það hefur nú verið gerð grein fyrir því hér og þarf ekki að endurtaka þá grg., hvernig vinnubrögðum hefur verið háttað í n. viðkomandi athugun þessa frv., og þessi háttur hefur verið hafður á um fleiri mál og það á þessu þingi, því að vitanlega fá n. úr báðum d. sömu aðstöðu til þess að athuga málið með þessum vinnubrögðum og hefur ekki þótt aðfinnsluvert, þegar hún hefur verið viðhöfð undir öðrum kringumstæðum.

Nú er það einnig svo, að meiri hl., sem stendur að þessu máli, hefur verið sammála í hinum sameiginlegu nefndum um frv. eins og þau liggja fyrir. Það liggur í augum uppi, að ef stjórnarandstaðan hefur ýmislegt við þessi frv. að athuga, þá var fyrst og fremst auðvelt að koma fram þeim aths. í hv. Nd.

Ég hef ekki orðið var við brtt., sem hafa komið fram við frv. í Nd., en málið hefur, eins og hér var rakið, legið fyrir þinginu þó þennan tíma og verið nægur tími til þess og meira en það að koma fram með slíkar brtt., ef það væri það, sem vekti fyrir hv. þm. Sjálfstfl.

Það er þess vegna einkennilegt, að á siðasta stigi, þegar á að fara að slíta þingi, og við vitum, að tíminn er orðinn mjög naumur, eftir athugun í n. og eftir að málið hefur verið athugað í Nd. og þeir, sem starfa hér í þessari d., hafa að sjálfsögðu haft sams konar aðstöðu til þess að athuga málið, þá kemur allt í einu fram þessi áhugi að vísa málinu til n., rétt eins og það sé þannig, að stjórnarandstaðan eða þm. Sjálfstfl. hafi ekki haft síðan í gær möguleika til þess, það er þó einn sólarhringur til viðbótar. Ef þeir hafa haft mikinn áhuga fyrir því að koma með brtt., gátu þeir vitanlega formað þær brtt., þótt málið kæmi ekki fyrir n. Það hefur engum tíma eytt fyrir þeim til athugunar á málinu og til þess að koma fram með brtt.

Það er þess vegna auðsætt mál, að ef ætti að vísa málinu til n., þá er það ný töf og líkur til þess, að þingstörfin tefjist verulega við það. Ég sé þess vegna enga ástæðu til þess að verða við þessari ósk, — hvort það verður frestað fundi eða ekki, það læt ég alveg afskiptalaust, ef það er aðeins stuttur tími, en bendi á það enn og aftur, að síðan í gær og reyndar allar götur síðan frv. var lagt fram hér á Alþingi hafa þessir hv. þm. haft aðstöðu til þess að vinna að sínum brtt. og koma fram með þær.

Það verður að reyna að leita samkomulags við stjórnarandstöðuna um að reyna að ljúka þinginu á morgun. Ég veit ekki, hvort það tekst, það hafa ekki komið svör um það enn þá. En að öllu forfallalausu verða þingslit næsta föstudag, og þá sjá menn, að það er ekki mikill tími til þess að athuga málið í n., samanborið við þann athugunartíma, sem hefur verið til staðar fyrir alla þm. til þess að athuga málið og koma fram með brtt.

Ég er þess vegna andvígur því, að málinu sé vísað til n. nú á þessu stigi.