24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

178. mál, Útvegsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í þeim tveimur nál., sem fyrir liggja um þetta frv., varð ekki samkomulag í fjhn. um afgreiðslu málsins; Meiri hl. n, hefur lagt fram álit og brtt. á þskj. 616. Er það till. meiri hl., að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem þar eru fram bornar, og vil ég gera nokkra grein fyrir þeim brtt.

1. brtt., við 5. gr., er aðeins breyting á orðalagi, en engin efnisbreyting.

Um þrjár næstu brtt., 2., 3. og 4., er það að segja, að það er aðeins leiðrétting á nafni Fiskveiðasjóðs Íslands, sem hefur misprentazt í frv.

5. brtt. er við 14. gr. frv. Í gr. segir, að bankaráðsmenn skuli allir vera búsettir í Rvík eða svo nálægt Rvík, að þeim sé auðvelt að sækja bankaráðsfundi hvenær sem er. En nefndin leggur til, að þetta verði þannig orðað, að bankaráðsmenn eða varamenn þeirra skuli vera búsettir í Rvík eða svo nálægt Rvík, að þeim sé auðvelt að sækja bankaráðsfundi hvenær sem er. Er þetta í samræmi við þá brtt., sem meiri hl. fjhn. flutti við frv. um Landsbankann, sem samþykkt var nú áður á þessum sama fundi.

6. brtt. er við 23. gr. Í síðari mgr. þeirrar gr. segir, að endurskoðendur skuli gefa skýrslu til stjórnarráðs, en n. leggur til, að þeim verði einnig gert að skyldu að gefa skýrslu til bankaráðsins.

7. brtt. er við 39. gr. frv., en efni þeirrar gr. er að nokkru leyti í till. n. flutt í ákvæði til bráðabirgða. Meiri hl. n. leggur til, að þessi grein orðist þannig: „Umboð fulltrúaráðs og framkvæmdastjórnar Útvegsbanka Íslands h/f fellur niður, um leið og hlutafélagið hættir störfum, en fráfarandi bankastjórar eiga sama rétt á hendur hinum nýja banka, sbr. 37. gr., sem þeir hefðu átt á hendur Útvegsbanka Íslands h/f, ef stöður þeirra hefðu verið lagðar niður.“

8. brtt. er við 41. gr. og er aðeins leiðrétting. Það eru talin upp þar nokkur lög, sem sett hafa verið á liðnum tíma viðkomandi Útvegsbanka Íslands h/f, en eiga að falla úr gildi, um leið og þetta frv. verður samþykkt, auk hinna upphaflegu laga um hlutafélagið, sem eru frá 11. marz 1930.

Síðasta brtt. er um það, að á eftir 41. gr. komi ákvæði til bráðabirgða, og er þar kveðið á um starfstímabil bankaráðsmanna, sem kosnir verða og skipaðir í fyrsta sinn, eftir að frv. þetta hefur verið samþykkt á Alþingi. Segir í brtt., að starfstímabil bankaráðsmannanna skuli verða til ársloka 1961, en skipun formanns og varaformanns, sem ríkisstj. skipar í fyrsta sinn samkvæmt lögunum, skuli gilda til ársloka 1962, og síðan ákvæði um það, að hið nýkjörna bankaráð taki við yfirstjórn bankans, um leið og hann tekur til starfa sem sérstök ríkisstofnun, en þetta er nú í 39. gr. frv., sem ég hef áður minnzt á.

Fleiri brtt. liggja ekki fyrir frá meiri hl. nú, en eins og segir í nál., áskilur meiri hl. sér rétt til að flytja brtt. til viðbótar við 3. umr. Er það mál enn í athugun.