26.04.1957
Efri deild: 89. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

148. mál, eyðing refa og minka

Páll Zóphóníasson:

Það er aðeins eitt atriði, sem mig langar til að undirstrika, og það er þetta: Ef þið lesið grg. fyrir frv. mþn., þá sjáið þið allt þeirra oddvita, sem hafa svarað spurningum viðvíkjandi aðstöðu þeirra til t.d. eitrunar, sem ég ætla hérna sérstaklega að minnast á, — og það, sem ég vildi undirstrika, er þetta: Það eru til nokkur svæði á landinu, þar sem hefur verið eitrað reglulega um margra ára skeið, og öll þessi svæði eru nú þannig sett, að tófan er þar engin plága. Meðan mátti fyrir 20 árum ekki yfirgefa fé í högum, t.d. í Kalmanstungu að vetrinum, án þess að það mætti eiga nokkurn veginn víst, að eitthvað af því væri bitið, þegar maður kæmi að því aftur, þá bízt þar nú aldrei kind, en þar hefur verið eitrað reglulega allan þennan tíma. Sama er að segja um marga aðra staði. Svo eru aftur aðrir staðir, þar sem aldrei hefur verið eitrað og íbúarnir á þeim hafa lagt áherzlu á að vinna dýrin utan grenja, sérstaklega að vetrinum. Ef þið litið á skýrsluna og gáið að unnum dýrum, þá getið þið fundið þessa staði. Þar hafa menn verið að skapa sér atvinnu við að skjóta þau að vetrinum, fyrst til þess að selja skinn og síðan til að fá verðlaun fyrir dýrin, og í sumum af þessum hreppum, a.m.k. tveimur, er aldrei gengið á greni að vorinu til að reyna að vinna það.

Þessi tvö sjónarmið, sem þarna koma fram í reyndinni á þessum ýmsu ólíku aðstöðum, speglast svo aftur í umræðunum, þegar menn eru að tala um verðlaun fyrir unnin dýr og eitrun. Og það er einungis af því, að mennirnir, sem þar taka til máls, hafa ekki kynnt sér nema aðra hlið málsins, þekkja ekki nógu stór svæði til að geta skoðað málið alhliða. Ég er ekkert í vafa um það, að þeir menn, sem t.d. fordæma algera eitrun, hafa bara ekki sett sig inn í það, að það eru á milli 10 og 20 svæði í landinu, þar sem tófan er ekki nein plága lengur, af því að það hefur alltaf verið eitrað og alltaf gengið á gren á hverju sumri, þar sem grenin hafa farið fækkandi á hverju ári og dýrin, sem menn eiga að ráða við, meðan það eru önnur, þar sem ekkert hefur verið um það hugsað, og þeim hefur alltaf farið fjölgandi, og það eru þau svæði, sem þeir þekkja, sem framkvæma eitrunina. Það var bara þetta, sem ég vildi láta koma fram og benda á það, að menn skuli kynna sér grg.

Það er náttúrlega hægt að ná í frumgögn málsins, sem er þykk skrudda í folio-broti, á annan þumlung að þykkt, þar sem skýrt er frá áliti hreppsnefndanna og reynslunni síðustu úr. Þau liggja hjá mér enn þá, og þau geta menn náttúrlega fengið að sjá og skoða, sem vilja, til þess að ganga úr skugga um þau geysilega mismunandi sjónarmið, sem spegla sig í framkvæmdinni og útbreiðslu tófanna á hinum ýmsu stöðum á landinu.