14.05.1957
Neðri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

148. mál, eyðing refa og minka

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er vegna þess, að hér er farið fram á, að leyfð verði afbrigði frá þingsköpum, til þess að þetta mál verði tekið fyrir. Nú má segja, að varðandi þetta eina mál skipti það ekki e.t.v. sérstaklega miklu máli, en ég vil vekja athygli á því, að það er orðin mikil venja hér, sérstaklega síðari hluta þings, að jafnskjótt og mál koma úr nefndum, þá eru þau tekin á dagskrá með afbrigðum, án þess að nál. og brtt. hafi legið frammi lögskipaðan tíma. Þetta eru auðvitað ákaflega óheppileg vinnubrögð, að þm. sé ekki ætlaður tími til þess að átta sig á málunum. Þess vegna er fresturinn settur í þingsköp, að menn eiga að hafa tíma til að lesa nál. og brtt. yfir, bera þær saman við frv. og eftir atvikum bera ráð sín saman um afstöðu til mála. Þegar jafnrúmt er um starfstíma og reynzt hefur á þessu þingi, virðist vera gersamlega ástæðulaust sem meginregla að hverfa frá þessu. Allir skiljum við, að ástæður kunni að vera til þess að gera þetta í einstökum tilfellum, og sízt af öllu skal ég hafa á móti því né hef ég haft á móti því, að það væri gert, þar sem sérstök þörf er til, og fram að þessu hef ég ekki heldur hreyft athugasemdum við þennan hátt, sem upp hefur verið tekinn. En ég vil ekki með nokkru móti samþykkja eða eiga hlut að því, að ákvæði þingskapanna séu í raun og veru felld úr gildi, eins og verið er að gera með þeim hætti, sem upp hefur verið tekinn.

Ég er ekki að ásaka hæstv. forseta á nokkurn hátt fyrir það, að hann vilji hraða þeim störfum, sem fyrir liggja, og skapa verkefni á hverjum einstökum þingfundi. Það er eðlilegt frá hans sjónarmiði. Hitt verður hann að skilja, að þegar við komum hingað niður eftir og sjáum t.d. nú þennan stóra lagabálk, sem liggur fyrir, ásamt allmörgum brtt., nál., sem tekur a.m.k. nokkurn tíma að lesa, þá er ómögulegt að ætlast til þess, að við setjum okkur inn í málið á þeim tíma, sem fyrir hendi er, ef á að taka það strax til umræðu. Ég vil þess vegna ekki eiga hlut að slíkum vinnubrögðum, tel þau með öllu ástæðulaus og mjög varhugavert fordæmi og vil í allri vinsemd beina því til hæstv. forseta. Þetta er ekki atriði, sem snertir stjórnmáladeilur, heldur vinnubrögð í þessari stofnun, sem við erum saman komin í og eigum að gegna okkar skyldu í, og það hljóta allir að játa, að með þessum hætti, sem hér er á hafður, geta menn ekki áttað sig á málunum.