16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

148. mál, eyðing refa og minka

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er rétt, eins og kom fram hjá hv. þm. Borgf., að meginefni þessa frv. eða meginvandinn í sambandi við efni þessa frv. er það, hvort eitra eigi fyrir þann varg, sem hér um ræðir, eða ekki, og skoðanir manna í því efni eru ákaflega skiptar. Margir þessum málum mjög kunnugir telja, að eitrun fyrir refi hafi sáralitla þýðingu, alveg gagnstætt því, sem hv. þm. Borgf. heldur fram, en sé stórhættuleg fyrir sumar dýrategundir, sérstaklega erni, og horfi að því leyti til að gera dýralíf hér sýnu fáskrúðugra, þannig að mikil eftirsjá yrði að.

Hv. þm. Borgf. sagði, að þetta væri tilfinningamál. Ég er ekki sammála því, að þetta eigi að vera tilfinningamál. Þetta hlýtur að vera mál, sem hægt er að kanna til hlítar og fá nokkurn veginn vissu sína um.

Það er vitað mál, að undanfarið hefur verið heimílt að eitra fyrir refi og það sums staðar gert. Engu að síður hefur ágangur þeirra verið slíkur sem hv. þm. Borgf. gat um, og er því ljóst, að eitrun ein sé ekki fullnægjandi í þessu efni, enda halda ýmsir því fram, að það, sem gagni, og eina, sem gagni, sé að fá æfða og góða skotmenn til þess að reyna að leggja sig fram um eyðingu þessara dýra. Þarna stendur að vísu fullyrðing gegn fullyrðingu. En ég vil ekki við það kannast eða viðurkenna, að málið eigi að afgreiðast eftir tilfinningu eða óvissu mati, sem á tilfinningu hvílir, heldur hljóti að vera hægt að fá um þetta nokkuð örugga vissu frá sérfróðum mönnum, og mér skilst þetta frv. einmitt stefna í þá átt. Og það er rétt, sem hv. þm. Borgf. segir, að hv. landbn. leggur til, að á frv. sé gerð alger breyting í þessu meginatriði frá því, sem það var lagt fram, að í stað þess að Alþingi skv. frv., eins og nú liggur fyrir, er ætlað að lögskylda eitrun, þá á nú að leggja þetta algerlega í hönd einum manni, sem um þetta á að fá úrskurðarvald. Það, sem mér finnst þess vegna þurfa að athuga nánar, er, hvaða hæfileika þessi eini maður eigi að hafa, til þess að honum sé þetta mikla vald fáandi í hendur. Og ég verð að játa og það er aðalástæðan til þess, að ég stend hér upp, að mér finnst mjög á skorta í frv. og brtt. hv. n. grg. um það, hvaða þekkingu þessi maður þurfi að hafa og hvaða hæfileikum hann þurfi að vera búinn. Það segir að vísu, að maðurinn eigi að hafa sérþekkingu á lifnaðarháttum minka og refa og veiðiaðferðum þeim, sem unnt er að beita gegn vargdýrum þessum. Þetta er ákaflega óljóst og óákveðið orðalag. Eina upplýsingin, sem við fengum til viðbótar, var sú hjá hv. frsm., að hann taldi, að nú mundi enginn maður hér á landi vera búinn þessari sérþekkingu, og kemur það þó ekki glögglega fram í till. nefndarinnar, því að þar stendur í 5. lið: „Ef ekki fæst maður nú þegar með sérþekkingu í starf veiðistjóra“ o.s.frv., skal fara að eins og þar segir. Þá er í tillögu nefndarinnar, gagnstætt því, sem hv. frsm. sagði að væri ástæðan fyrir till., þó látið í það skina, að hér kunni einhver að hafa sérþekkinguna.

Nú segja mætti einnig, að hægt ætti að vera að afla sér erlends manns til þess að taka að sér starfið, en ef um fast starf er að ræða, kemur þar í gegn, hvort hann þá fullnægi embættisskilyrðum að öðru leyti. En það, sem á vantar og við komumst ekki hjá að gera okkur grein fyrir, er, að það verður að segja nánar til um, hver sérþekkingin eigi að vera.

Eftir upphaflegri grg. frv. er svo að sjá, að þar geti aðallega tvenns konar sérþekking komið til: annars vegar sú sérþekking, sem æfðir veiðimenn hafa og hafa aflað sér í löngu lífsstarfi, hins vegar sú fræðilega sérþekking, sem fæst við að lesa náttúrufræði. Og ég get ekki séð betur en að í grg. n. sé gert ráð fyrir því, með leyfi hæstv. forseta, að við slíka sérfræðikunnáttu sé átt. Þar segir:

„Í öllum nágrannalöndum okkar eru hagnýtar dýrafræðirannsóknir í höndum sérstakra stofnana, þar sem vinna sérmenntaðir dýrafræðingar, og heyrir vinnsla vargdýra eða tilraunir, er að henni lúta, undir stofnanir þessar.“

Samkvæmt þessu virðist mér, að ætlunin sé að fá einhvers konar lærðan dýrafræðing, sem er ein tegund af náttúrufræðingum, til forstöðu þessarar stofnunar. Víst geri ég ekki lítið úr hæfileikum manna á borð við Bjarna heitinn Sæmundsson, sem var einn af okkar fyrstu náttúrufræðingum lærðum með prófi, en hvort hann hefði verið sérstaklega lagaður til þess eða hæfur að verða forstjóri fyrir eyðingu minka og refa, það þykir mér allsendis ósýnt og óvíst. Svipað er með hinn ágæta fuglafræðing dr. Finn Guðmundsson. Ég veit ekki, hvort hans sérþekking nægir í raun og veru frekar til þess að verða að gagni í þessum efnum en ef fyrir hendi væri þaulæfður veiðimaður, þótt aldrei hefði á háskólabekk komið. Það tjáir ekki að segja það eitt, að það eigi að hafa sérfróðan mann í þessum efnum, ef ekki er nánar greint, með hverjum hætti þeirrar sérfræði hafi verið aflað og hvers eðlis hún er, vegna þess að ég þori að fullyrða, að eins og orðalagið er í brtt. hv. nefndar nú, þá getur það tekið til æfðra veiðimanna, ekki síður en til lærðra dýrafræðinga. En nefndin virðist, eftir því sem hv. frsm. talaði, gera ráð fyrir, að hinir æfðu veiðimenn geti ekki komið til álita sem sérfræðingar í þessum efnum.

Ég hygg, að ef ekki á að verða algert handahóf í þessum efnum um val mannsins og það sé komið eingöngu undir áliti og nánast tilfinningu þess, sem hann á að skipa, þá verði nú þegar í upphafi á Alþingi að gera sér grein fyrir því betur, hvers eigi að krefjast af manninum, hvaða skilyrðum hann eigi að fullnægja, og ég vil þá einnig í því sambandi víkja að því, sem hv. þm. Borgf. sagði alveg réttilega, að úr því að leita á samráðs við Búnaðarfélagið um starf þessa manns, þá er auðvitað alveg fráleitt að ætla Búnaðarfélaginn ekki tillögurétt um skipun hans. Ég tel ekki ástæðu til þess, að það hafi hið endanlega úrskurðarvald. En ef þessi afskipti eiga að vera eitthvað svipuð því, sem hv. frsm. gerði grein fyrir og talaði fagurlega fyrir, þá er það alveg sjálfsagt, að berum orðum sé tekið fram, að búnaðarfélagsstjórn hafi tillögurétt um skipun mannsins eða réttar sagt umsagnarrétt um þá umsækjendur, sem sækjast eftir þessu starfi. Með því er ráðherranum, sem úrskurðarvaldið endanlega hefur, ekki sýnt neitt vantraust.

Þá vil ég einnig spyrja hv. frsm. að því, hvar það sé tekið fram í till. n., að skrifstofa þessa veiðistjóra eigi að vera hjá Búnaðarfélaginu, þannig að tryggt sé, að ekki myndist nýtt embættisbákn með skrifstofu og þar tilheyrandi skriffinnsku. Ég hef ekki komið auga á þetta í brtt. n. eða við lauslegan yfirlestur frv. Vera kann, að þetta sé þó í einhverju ákvæði. En ef svo er ekki, og það hefur nefndin auðvitað athugað betur en við, sem aðeins höfum lauslega litið á málið, þá er nauðsynlegt, að þessi vilji nefndarinnar verði lögfestur, að maðurinn hafi sína búsetu, ef svo má segja, embættissetu, á skrifstofu Búnaðarfélagsins, því að annars getur hann sjálfur a.m.k. með samþykki ráðherra sett upp það embættisbákn, sem hv. frsm. óttaðist að kynni að verða gert.

Ég vildi benda á þessi atriði og skjóta því til hv. nefndar, að hún hugleiði þau betur, annaðhvort nú við þessa umræðu eða a. m. k. fyrir 3. umr. Við verðum að gera okkur ljóst, að hér er um ákaflega þýðingarmikið mál að ræða. Ég er hv. þm. Borgf. alveg sammála um það, að ef þar er um að ræða annars vegar eyðingu eða verulega skerðingu sauðfjárstofns landsmanna eða eyðingu arnarins, þá er ekki um það að ræða, að við verðum frekar að meta sauðfjárstofninn og eiga það á hættu, að örninn hverfi alveg úr landinu. Það er alveg rétt hjá honum. En það, sem við þurfum að rannsaka til hlítar, er, hvort þetta geti ekki farið saman að vernda örninn, þennan tígulega fugl — (Fjmrh.: Hefur þingmaðurinn séð örn?) Já, ég hef séð örn og hér ekki langt frá Reykjavík ekki alls fyrir löngu og vonast til þess, að hann sé ekki útdauður enn, þó að vera kunni, að hv. þm. öfundi Reykjavik af svo fögrum fugli hér í nágrenninu. En hitt veit ég, að það var miklu meira af örnum áður fyrr, og þingmenn hafa talið sér það til lofs, þeir sem á sínum tíma komu í veg fyrir það fyrir 30–40 árum, að stofninum væri gereytt, eins og þá voru taldar horfur á.

Ég tel samt, að þetta þurfi að athuga til hlítar, hvort það geti ekki farið saman, vernd arnarins og eyðing þessara vargdýra, og út af fyrir sig get ég alveg fallizt á það, að einum manni sé fengið það úrskurðarvald í þessu efni, sem hv. þm. Borgf. var svo hræddur við. En þá verður að vera tryggt, að það sé maður, sem hafi raunverulega þekkingu á málinu og fari ekki eftir tilfinningu, eins og hv. þm. Borgf. vildi telja að hlyti að ráða í þessu máll, heldur eftir þeim vísindalegu staðreyndum og gögnum, sem hægt hlýtur að vera að afla.