16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

148. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þessar umr. hafa á ýmsan hátt verið gagnlegar, og það var við því að búast, að hér kæmi fram einhvers konar gagnrýni á störf nefndarinnar, vegna þess að málið hefur verið deilumál og er enn og verður, og þetta nál. eru náttúrlega þeir ekki ánægðir með, sem vilja alveg skilyrðislausa eitrun. Ég geri ekki ráð fyrir, að hinir séu ánægðir heldur, sem enga eitrun vilja. Hugsun nefndarinnar var sú, að sá maður, sem fengi þetta mál til meðferðar, svokallaður veiðistjóri, hlyti að vinna með hvaða tiltækilegum ráðum sem væru að útrýmingu tófunnar og hlyti þá að fara eftir að einhverju leyti óskum þeirra manna, sem mest eiga undir því á hverjum stað, að eyðingin gangi vel.

Það má vel vera, að hér sé um að ræða nokkra áhættu, ef sérstaklega er gert ráð fyrir því, að maðurinn vinni þetta verk eftir tilfinningum sínum. En ég segi fyrir mig: ég vil ekki gera ráð fyrir því, að embættismaður, sem fær þetta verkefni til meðferðar, láti það hafa áhrif á störf sín, heldur vinni hann það fyrst og fremst út frá þeim staðreyndum, sem fyrir liggja, og þeirri reynslu, sem fyrir er um þessi mál, bæði hér og annars staðar.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um það, að honum þætti ekki nógu skýrt tekið fram um, hvers konar sérþekkingu þessi maður ætti að hafa. Það gat nefndin ekki gert, hún fór eftir því sem fyrir var þarna í frv. Hann talaði um sérþekkingu. Ég hef fengið um það upplýsingar, að t.d. í Bandaríkjum Norður-Ameríku er það orðið sérstök fræðigrein og kennsla í því að útrýma meindýrum slíkum sem þessum, og heyrt hef ég, að a.m.k. tveir Íslendingar séu við nám í þessum fræðum. Ekki veit ég um sönnur á því að vísu. En gera má ráð fyrir, að innan skamms verði hér tiltækir Íslendingar, sem hafa þekkingu á þessum hlutum. Ég verð að segja það, að ég get tekið undir með hv. 1. þm. Reykv., að ég teldi, að t.d. háskólanám í slíkum fræðum væri ekki fyrst og fremst það, sem við þyrftum með, heldur viðtæk og löng reynsla, samfara náttúrlega ýmsum fræðum, sem orðin eru til um þetta og maðurinn hefði numið.

Þá taldi hv. 1. þm. Reykv., að æskilegra hefði verið, skildist mér, að það hefði verið tekið fram í frv. eða brtt. n., að Búnaðarfélag Íslands hefði tillögurétt um ráðningu þessa manns eða skipun hans í embættið. Þetta var nú eiginlega ekki rætt í n., en hún gekk út frá því, að landbrh., sem gert er ráð fyrir að skipi þennan mann, muni gera það í samráði við Búnaðarfélagið, og þótti ekki þurfa að taka þetta sérstaklega fram.

Þá vildi ég geta þess, að ég tel ekkert því til fyrirstöðu, að nefndin taki sína tillögu til nánari yfirvegunar fyrir 3. umr. þessa máls. Ég tel ekki nema sjálfsagt að verða við þeirri ósk fyrir mitt leyti.