23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

148. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 2. umr., var frv. gagnrýnt nokkuð af nokkrum hv. þm. og þær brtt., sem landbn. hafði gert við það. Samkvæmt óskum nokkurra þm. tók landbn. sínar till. aftur til 3. umr. til frekari athugunar. Hún hefur nú breytt þessum till. og ber fram nýjar till. á þskj. 588.

Helztu breytingarnar, sem hún hefur gert, eru þær, að í 1. gr. er breytt ákvæðinu um sérþekkingarskyldu veiðistjórans, en talað aðeins um, að hann hafi haldgóða þekkingu og reynslu. Þetta er í samræmi við þær skoðanir, sem hér komu fram í umr., að ýmsir, sérstaklega hv. 1. þm. Reykv., töldu, að haldgóð reynsla mundi vera eins þýðingarmikil í þessu starfi og eitthvert sérfræðinám, og gat n. út af fyrir sig fallizt á það, þar sem nú er ekki til í landinu sérstaklega menntaður maður til þessa starfs. Þá höfðu orðið mistök í till. okkar, þar sem talað var um, ef landbrh. teldi henta að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands, þá gæti hann falið veiðistjóra yfirumsjón með eyðingu svartbaks og annarra skaðlegra dýra. Þessi mál heyra undir menntmrh., og þess vegna var þessu breytt, og nú stendur hér: Ef menntmrh. telur henta o.s.frv.

Þá er það um eitrunina, að n. hefur breytt till. sínum á þann veg, að nú heyri þessi mál algerlega undir stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem þá ákveður í samráði við veiðistjóra, hvernig eitrun skuli framkvæmd og hvar hverju sinni.

Þetta eru þá þær breytingar, sem landbn. hefur gert á sínum fyrri till. Ég skal láta þess getið, að hv. 6. landsk. (GJóh) var ekki viðstaddur afgreiðslu þessara brtt., og hann er því óbundinn um afstöðu til þeirra.