23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

148. mál, eyðing refa og minka

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Mér kemur það dálítið ókunnuglega fyrir, að landbn. eða nokkrir af meðlimum landbn. hafa horfið frá því, sem áður var búið að ákveða, og þar með horfið frá till. sínum á þskj. 528. Ég vissi ekki betur en að það hafi orðið fullt samkomulag í n. um það orðalag, sem er á því þskj., að um það væri alveg fullt samkomulag á milli nefndarmanna. A.m.k. hafa þeir, sem þá voru mættir á fundi, allir skrifað undir nál. án fyrirvara. Ég var ekki mættur á þessum fundi, en hafði mætt á allmörgum fundum, þar sem þetta mál var rætt, og látið mína skoðun alveg ótvirætt í ljós um það, að ég væri á móti skilyrðislausri eitrun, eins og seinna álit frá landbn. á þskj. 588 ber með sér. Ég mun því leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að ég fái að taka upp till. á þskj. 528, þ.e.a.s. við 11. gr., sem hljóðar svo:

„Skylt er að eitra fyrir refi og minka á tilteknu svæði, þegar veiðimálastjóri mælir fyrir um, að svo skuli gert“ o.s.frv.

Ég er einn af þeim, sem eru algerlega á móti skilyrðislausri eitrun, og ég tel, að í umræðum um þetta mál og blaðaskrifum hafi einmitt komið skýr og glögg rök fram, sem ættu að vera alveg nægileg fyrir hvern þann, sem eitthvað hefur kynnt sér þetta mál, að það er ekki lausnin til þess að útrýma þessum skaðræðisdýrum, sem þarna er um að ræða, að eitra jafnskilyrðislaust og ákveðið er í seinna áliti landbn.

Annars skal ég ekki orðlengja frekar um þetta. Ég get fallizt á hina skriflegu brtt. frá hv. þm.

Ísaf., þar sem talað er um, að veiðistjóri skuli hafa sérþekkingu, eigi að vera sérmenntaður á þessu sviði. Það er mjög líkt orðalag og var í till. landbn. á þskj. 528. Ég get fyllilega fallizt á það orðalag, sem er í brtt. hv. þm. Ísaf. um það atriði.

Ég vil svo enn á ný taka það fram, að mér kemur mjög einkennilega fyrir sjónir sá hringlandaháttur hjá hv. landbn. eða meiri hluta hennar í þessu máli og tel mig algerlega mótfallinn því orðalagi, sem er á 11. gr., þar sem gert er ráð fyrir skilyrðislausri eitrun, sem ég á engan hátt get fallizt á.