27.05.1957
Neðri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

148. mál, eyðing refa og minka

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og ég gerði grein fyrir við 2. umr. þessa máls, hef ég á þskj. 497 flutt brtt. við 9. gr. frv. um að hækka verðlaun fyrir að vinna hlaupatófur og minka upp í 400 kr. fyrir hlaupatófur og 200 kr. fyrir mink. Ég hef þar farið eftir till. búnaðarþings um þetta efni, er samþ. voru á s.l. vetri, en búnaðarþingið ræddi þá frv. mþn. og gerði ályktun um það.

Brtt. mínar voru fluttar þegar eftir 1. umr., meðan málið var í n. Nú hefur hv. landbn. með brtt. sínum fyrir 2. umr. gengið að verulegu leyti til móts við till. mína, þar sem hún lagði til, að minkaverðlaunin yrðu hin sömu og ég hafði lagt til á þskj. 497 og verðlaun fyrir hlaupatófur yrðu færð upp í 350 kr.

Við 2. umr. tók hv. n. till. sínar aftur til 3. umr., og tók ég þá till. mína einnig aftur á sama hátt, þ. e. a. s. til 3. umr. Nú liggur hún aftur fyrir við þessa umr. B-lið till. get ég að sjálfsögðu tekið aftur nú og geri það, þar sem hann er samhljóða till. n. um minkaverðlaunin, en að athuguðu máli og eftir að hafa sérstaklega kynnt mér afstöðu hv. Ed.- manna í þessu málí, vil ég nú einnig taka aftur a-lið till. um verðlaun fyrir að vinna hlaupadýr. Ég vil fremur sætta mig við, að verðlaunin fyrir hlaupadýr verði aðeins hækkuð upp í 350 kr., eins og n. leggur til, en eiga það á hættu, að hv. Ed. breyti frv. á ný eða málið dagi uppi. — Till. á þskj. 497, 1. og 2. töluliður, er því hér með tekin aftur.

Enda þótt ég vilji að þessu sinni sætta mig við till. hv. landbn., þá er það álit mitt óbreytt, að greiðslur fyrir að vinna hlaupadýr verði að vera það háar, að refaskyttur víðs vegar um land sjái sér fært að halda áfram að sinna tófuveiðum á veturna. Sumir virðast ganga með þá grillu í höfðinu, að hætta sé á, að hér verði um eitthvert óskaplegt gróðafyrirtæki að ræða fyrir refaskyttur, ef verðlaunin verði hækkuð, t.d. upp í 400 kr. Þetta er auðvitað slík fjarstæða, að engu tali tekur, og stafar sennilega af ókunnugleika í einhverri mynd. Það er eins og menn geri ráð fyrir, að tófurnar fari í hópum og séu gæfar eins og rjúpur á haustdegi. En þeir, sem til þekkja, vita, að þessu er á allt annan veg farið.

Það eru aðallega notaðar tvær aðferðir við að vinna tófur að vetrarlagi. Önnur aðferðin er sú að liggja fyrir tófunum, og er það m.a. gert með sjó fram, þar sem tófan leitar í fjöru eftir æti um nætur. Hin aðferðin er að leita tófurnar uppi úti á víðavangi, oft á fjöllum uppi eða annars staðar í óbyggðum, og rekja slóðir þeirra, þegar svo hagar til, að það er hægt, og reyna þannig að komast í færi við þær. Þá eru stundum tveir menn saman við þetta starf. Báðar aðferðirnar eða hvor þeirra, sem notuð er, reyna mjög á þrek manna og þolinmæði auk skotfiminnar og alls konar útsjónarsemi, og yfirleitt eru það ekki nema afreksmenn á þessu sviði, sem ná að staðaldri sæmilegum árangri, og til þess að ná þeim árangri þarf mikla æfingu. Það er sem sé ekki á hvers manns færi, þó að hann kunni að fara með byssu, að komast í færi við tófu og koma skoti á hana úti á víðavangi, heldur er hér um að ræða íþrótt, sem krefst mikils erfiðis, — íþrótt, sem hinir yngri verða að læra af hinum eldri í hverju byggðarlagi og byggist á áhuga og mikilli þjálfun. En hér er áreiðanlega um að ræða eina áhrifamestu aðferðina við útrýmingu refa hér á landi og hefur verið. Auk þess hefur það svo sín áhrif á árangur grenjavinnslunnar á vorin, ef þeir menn, sem liggja á grenjum, stunda líka tófuveiðar á veturna og halda sér þannig í æfingu, ef svo mætti segja.

Í sambandi við það, sem ég hef nú verið að segja, og með tilliti til þess, sem þarf að gerast í þessum málum, vildi ég eindregið benda bæði hv. þm. og öðrum á að kynna sér hina merku bók Theódórs Gunnlaugssonar bónda á Bjarmalandi í Öxarfirði, sem ég hef hér hjá mér á borðinu. Þessi bók nefnist „Á refaslóðum“, og hún var gefin út af Búnaðarfélagi Íslands árið I955. Páli Zóphóníasson, fyrrv. búnaðarmálastjóri, hefur ritað formála fyrir þessari bók og segir þar m.a. um hana, að hún sé hin bezta kennslubók í refaeyðingum og geti sem slík haft mikla þýðingu fyrir alla, sem fást við refaveiðar. Ég veit raunar, að þessi bók hefur þegar hlotið almenna útbreiðslu viða um land, enda er hún mjög vel rituð og skemmtileg aflestrar, auk þess sem höfundurinn, sem stundað hefur refaveiðar um áratugi, er einstakur fræðimaður á sínu sviði.

Hér hefur í hv. d., bæði við 2. og 3. umr., verið rætt allmikið um eitrun til eyðingar refum og öðrum vargi. Um það mál er og nokkuð rætt í þessari bók, sem ég áðan nefndi, og skal ég ekki fara nánar út í það mál hér.

Hv. landbn. hefur nú fundið þá lausn á þessu máli að fela Búnaðarfélagi Íslands að ráða fram úr því, að sjálfsögðu í samráði við veiðistjóra, sem gert er ráð fyrir að verði skipaður samkv. þessu frv. Það má og virðast ekki óeðlilegt, að þessu félagi bændanna og fulltrúum þeirra á búnaðarþingi sé ætlað að ráða fram úr þessum vanda, enda skiptir það bændastéttina mestu, hvernig til tekst.

Annars hefur það farið svo í þessum umr. hér í hv. d., að í þeim hefur aðallega verið rætt um eyðingu refa og aðferðir við hana. En þetta frv. fjallar einnig um eyðingu minka hér á landi, og ég vil mega vænta þess, að frv., ef að lögum verður, beri einnig þann árangur, að allt verði gert, sem unnt er, af hálfu þeirra, sem með framkvæmd laganna fara, til þess að herða baráttuna gegn frekari útbreiðslu þessa nýinnflutta bitvargs um landið. Enn þá eru nokkur byggðarlög laus við þetta skaðræðisdýr, en ef ekki verður á móti því spornað, að það komist þangað, þá er þar mikið í hættu, m.a. nokkur beztu æðarvörp landsins, sem geta má nærri hvernig færi um, ef minkurinn kæmist þangað.

Það voru á sínum tíma hörmuleg mistök að leyfa innflutning þessa villidýrs í landið, og úr því verður að reyna að bæta eftir megni. En til þess að eyða refum og minkum í landinu, ætla ég að þurfi mikið og sameiginlegt átak margra. Það þarf að örva áhugamenn um allt land til þess að taka þátt í þessari starfsemi, þessari baráttu, og þetta frv. er áreiðanlega spor í þá átt, en jafnframt þarf að sjá fyrir skörulegri yfirstjórn þessarar starfsemi fyrir landið allt. Í þeim tilgangi hefur komið fram sú till„ sem felst í frv., að stofna veiðistjóraembætti, en til veiðistjórans verður að gera þá kröfu, að hann hafi sem nánast samstarf við þá, sem vinna að eyðingu dýranna í einstökum byggðarlögum, og þá er þess jafnframt að vænta, að Búnaðarfélagið vaki yfir því, að svo verði gert.

Til þess verður að ætlast, að veiðistjórinn kynni sér alveg sérstaklega nýjar aðferðir, sem notaðar kunna að vera og reyndar hafa verið erlendis, og stuðli að því, að þeim verði beitt eða þær verði reyndar einnig hér, og ég vil í því sambandi leyfa mér að vitna til þess, sem um slíkar aðferðir er sagt í áliti mþn., sem undirbjó þetta frv., um þennan þátt málsins.

Það er mín skoðun, að það sé e.t.v. tæpast eðlilegt, — og ég segi það sérstaklega í sambandi við sumt af því, sem hér hefur verið sagt í umr., að það sé tæpast eðlilegt, að Alþingi sjálft gefi nákvæm fyrirmæli um það, hvernig fara skuli að því að taka þessi villidýr af lífi, sem hér er um að ræða, og fyrirskipi eina aðferð eða banni aðra, heldur eigi það að vera þannig, að hlutverk þingsins sé að gera sitt til þess að skapa skilyrði til þess, að að þessu verki sé unnið. En undir framkvæmd laganna verður að sjálfsögðu mest komið í þessu máli og þeim, sem með hana eiga að fara, Búnaðarfélaginu og veiðistjóranum, sem skipaður verður samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður.

Eins og ég sagði í upphafi, tek ég þá aftur brtt. minar á þskj. 497 og skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, en vildi láta það koma fram, sem ég nú hef sagt, áður en meðferð málsins er lokið í hv. d.