28.05.1957
Efri deild: 113. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

148. mál, eyðing refa og minka

Páll Zóphóníasson:

Já, refirnir sleppa nú oft úr greipum manns. Það virðist sem brtt. frá Nd. hafi sloppið úr greipum prentsmiðjunnar, svo að frv. er ekki komið enn þá í því formi, sem það á nú að liggja hér fyrir.

Ég álít það skyldu mína sem formanns landbn. að skýra í stuttu máli frá þeim breytingum, sem gerðar voru á frv. í Nd. Landbn. hefur ekki getað haldið fund, síðan frv. barst hingað til d. í gær, og það, sem ég þess vegna segi, er ekki fyrir n. bönd, heldur frá mér sjálfum.

Breytingarnar, sem gerðar hafa verið, eru fyrst og fremst við i. gr. Þar er sú breyting, að meðan veiðistjóra var ætlað að standa beint undir ráðuneytið, þá er honum nú ætlað að standa undir stjórn Búnaðarfélags Íslands. Þó er ráðh. ætlað að skipa hann, gagnstætt öðrum ráðunautum, og honum ætluð laun í Vl. flokki, gagnstætt öðrum ráðunautum, sem ætluð eru laun í Vll. flokki. Þetta er breyting frá því, sem var í 1. gr. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að hægt sé að fela honum fleiri störf, sem á var imprað í nál. mþn., sem samdi frv. upprunalega, og hæstv. landbrh. minntist líka á í framsögu fyrir málinu hér í þessari hv. deild. Það er talið upp í greininni nú, eins og frv. kemur frá Nd., hvað það er, sem er hægt að fela honum, en ég álít það ekki tæmandi og vildi mega skilja það þannig, að fela mætti honum fleira en þar er talið upp.

Þessari breytingu, sem hér er um að ræða, er ég ekki á móti. En eins og ég sagði, tala ég hér fyrir sjálfan mig eingöngu, en ekki fyrir n. sem heild.

Þá er önnur brtt., sem n. hefur gert við 9. gr. Það eru hækkuð verðlaunin, bæði fyrir tófur og minka. Þessi hækkuðu verðlaun eru það þá, að ef jafnmikið er unnið af minkum og hlaupadýrum á hinu fyrsta ári, eftir að lögin öðlast gildi, eins og var 1955, þá munar það 130400 kr., sem ríkissjóður þarf að borga meira fyrir unnin dýr. Út af fyrir sig er ég ekki á móti þessu ákvæði vegna þess arna. Ég er á móti þessu ákvæði af því, að það er sýnilegt mjög, þegar maður athugar skýrslur um þessi mál, að það er sums staðar á landinu, í nokkuð mörgum hreppum á tveim svæðum á landinu, sem ekkert er gert til að reyna að útrýma dýrum annað en að skjóta þau að vetrinum, og það lítur bókstaflega út fyrir, að sumir hreppar geri sér leik að því að reyna að fá sem flesta yrðlinga lifandi út úr grenjunum til að geta fengið verðlaun fyrir að skjóta þá að vetrinum. Þess vegna var ég á móti því og er áfram á móti því, að verðlaunin séu höfð það þá, að menn fái hvöt til þess arna. En svona er þetta núna.

Þrátt fyrir þetta tel ég önnur ákvæði í frv. það mikils virði, að ég mun ekki greiða atkv. á móti því hér í d. Ég vil fá frv. fram samþ. og tel það mikinn ávinning þrátt fyrir þessa skemmd, sem ég tel að orðið hafi á því í Nd. Það mun sýna sig betur, þegar veiðistjóri er kominn og ef honum heppnast að fá inn þær skýrslur, sem á að senda, en ekki hafa verið sendar, þó að fjórum sinnum hafi verið eftir þeim kallað á árinu 1956 fyrir árið 1955, nema á pörtum á landinu og ekkert fyrir elna heila sýslu, Strandasýslu, sem aldrei sendi neitt frá sér um það, og margir hreppar víðs vegar annars staðar af landinu, — en það mun sýna sig, ef þær skýrslur nást inn og reynt verður að vinna úr þeim frá ári til árs, hve óhyggilegt það er að hækka verðlaunin eins og gert er í 9. gr., sýna sig í því, að það mun fjölga ár frá ári þeim dýrum, sem unnin eru á vissum svæðum á landinu sem hlaupadýr, af því að það er ekkert gert til að eyða yrðlingunum. Og þá veit ég, að lögunum verður breytt. Þess vegna vil ég ekki láta fella lögin vegna þess arna, hvað sem aðrir kunna að vilja.

Þá var 11. gr. breytt og að ég tel líka til hins verra, þó að ég muni hins vegar ekki heldur láta það, sem ég hef á móti því, verða til þess að fella lögin nú hér í d., og þess vegna greiði ég atkvæði með þeim. En þetta eru ákvæðin viðvíkjandi eitruninni. Það var svo fyrir mælt, þegar frv. fór frá okkur, í 11. gr., að það væri skylt að eitra fyrir refi og minka, en það væri heimilt fyrir veiðistjóra að undanskilja ákveðin svæði, ef hætta væri á, að eitrunin þar gæti á einhvern hátt orðið skaðvænleg fyrir náttúru landsins. Var þessu sérstaklega stefnt að því svæði, sem ernirnir eru nú á, sem eru yfirleitt Vestfirðirnir. Nú er hins vegar svo fyrir mælt, að oddvitum og bæjarstjórum sé skylt að sjá um eitrun fyrir refi og minka, eftir því sem Búnaðarfélag Íslands ákveður og mælir fyrir um. Það er sett þarna inn sem milliliður Búnaðarfélags Íslands, og það er ekki skylt að eitra, nema það fyrirskipi. Ef það gleymir einhvern tíma að vetrinum nógu snemma eða strax að haustinu að tilkynna, að eitra skuli, og skrifa hverri hreppsnefnd fyrir sig um, að nú skuli eitra þarna og þarna, þá fellur eitrunin niður. Ég tel þetta mjög miður farið, því að það átti skýlaust að vera skylda, og það dreg ég ekki af því, sem Pétur og Páll hafa um málið skrifað, sem fæstir þekkja meira en sitt byggðarlag, heldur af því, sem ég hef séð af skýrslunum, sem þó bárust nefndinni fyrir 1955, og þeim upplýsingum, sem oddvitarnir gáfu í bréfum sínum, er þeir svöruðu nefndinni, sem allur fjöldinn af þeim gerði. En af þeim er ákaflega augljóst, að þar á landinu, sem eitrað hefur verið að staðaldri, eins og t.d. í Mýra- og Borgarfjarðarsýslunni, hafa greni og dýrbitur farið minnkandi ár frá ári í s.l. 30 ár. Annars staðar, þar sem eitrunin hefur verið vanrækt, hefur grenjunum fjölgað ár frá ári. Það þarf þess vegna engum að segja, sem reynir að kynna sér ástandið í landinu öllu, að eitrunin hefur verið ákaflega stór liður til þess að útrýma refunum. Þess vegna er mér illa við, að það skuli ekki vera skylda eins og áður var, en er þó með því í trausti þess, að Búnaðarfélag Íslands, sem þarna á að ákveða, hvort það sé skylt að eitra eða ekki, taki sínar ákvarðanir í tíma og sjái um, að eitrunin sé framkvæmd vel og samvizkusamlega.

Í þessu sambandi vil ég benda á, að það var dálítil hræðsla við það hjá ýmsum að eitra fugla. Það var litið svo á, að þeir væru hættulegri fyrir þá fugla, ernina og fálkana, sem hætta getur staðið af að éti eitruð hræ, — það væri hættulegra fyrir þá, ef fuglar væru eitraðir, og þess vegna var mikið umtal í Nd. að láta ekki eitra fugla. Sem betur fór, var þetta tekið út aftur, og nú er leyfilegt að eitra fugla. Það er líka alveg nauðsynlegt, því að ef við lítum á upprekstrarlöndin, sem sum eru allt að því eins stór og öll Árnessýsla, hið byggða svæði, já, eða jafnvel stærri, eins og á öræfum Jökuldals og Vopnafjarðar, þá er útilokað að hafa gagn af því að eitra einn eða tvo kindarskrokka einhvers staðar á þessu svæði. Það þarf að eitra smátt og á mörgum stöðum, og það er vandalaust alveg fyrir þann, sem eitrar, að ganga þannig frá hverri eitraðri rjúpu, að hún sjáist ekki úr lofti, þó að hún finnist af lykt af þeim, sem er að leita eftir bráð, snuðrandi um öræfin. Þetta ákvæði kemur þess vegna ekki til okkar, það er nú heimilt að eitra rjúpuna, eins og var, þegar það fór frá okkur, og það tel ég til mikilla bóta.

Þá eru ákvæði við 13. gr., sem eru í því innifalin, að Búnaðarfélag Íslands fái upp borinn frá ríkisstj. þann kostnað, sem það leggur út vegna veiðistjórans og starfs hans, en það verði ekki tekið af því fé, sem Alþingi ætlar á fjárlögum í hvert skipti banda Búnaðarfélagi Íslands.

Loks er svo síðasta greinin um, að lög þessi öðlist þegar gildi.

Nú er orðið það áliðið ársins, þegar lögin öðlast gildi, að hlaupadýravinnnslan er búin seinni partinn af vetrinum í vetur, og það verða þess vegna í þetta skipti tvenns konar verðlaun, sem veitt verða, reyndar bæði fyrir minka og þó sérstaklega fyrir tófurnar, en það náttúrlega gerir heldur erfiðari framkvæmd laganna þetta fyrsta ár, en ekki svo að neinu nemi.

Þó að ég sé þess vegna sjálfur óánægður með tvær breyt., sem gerðar hafa verið á frv., þá mun ég samt sem áður greiða því atkvæði mitt, því að ég vil fá lögin samþykkt og ekki þurfa að senda þau á milli deilda aftur. Það er líka svo, að þau voru samþykkt með það miklum meiri hluta í Nd., að ef Nd. heldur fast við sína skoðun og frv. kynni að þurfa að fara í Sþ., þá erum við ekki í meiri hluta, Ed.- menn, svo að það er hætt við, að þannig komum við ekki fram okkar vilja, þó að við viljum gera breyt. á því, og þess vegna mun ég sem sagt fylgja frv. óbreyttu.