28.05.1957
Efri deild: 113. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

148. mál, eyðing refa og minka

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. N-M. um, að þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. í hv. Nd., séu tæpast til bóta. Ég mun þó ekki gera margar athugasemdir við frv., eins og það kemur hingað aftur, en langaði til að minnast dálítið á breytingu, sem gerð hefur verið á 11. gr. þess.

Það varð samkomulag hér í þessari hv. d. við afgreiðslu málsins að halda ákvæðinu í þessari grein um skyldu til að eitra fyrir refi og minka, en þó um leið lagt á vald veiðistjóra að ákveða, hvort og hvenær þörf væri slíks á hverjum stað. Með þessu vildu hv. þdm. koma í veg fyrir eitrun að óþörfu á vissum svæðum, en hins vegar ekkert draga úr baráttunni gegn ref og mink.

Nú kemur þessi gr. aftur töluvert breytt hingað frá Nd. og að ég tel sízt til bóta. Á þskj. 588 er gert ráð fyrir, að 11. gr. orðist á þann veg, að oddvitum og bæjarstjórum skuli skylt að eitra fyrir refi og minka samkvæmt fyrirmælum stjórnar Búnaðarfélags Íslands og á þeim svæðum, er veiðistjóri telur líklegust til árangurs hverju sinni. Um þetta ákvæði finnst mér að gengið sé langt í því að gera einfalt mál flókið. Það er Búnaðarfélagið, sem á að mæla fyrir um eitrunina á þeim svæðum, sem hún skal fara fram á, en veiðistjóri tiltaka um svæðin hverju sinni. Ég tel þetta ekki vera til bóta frá því, sem ákveðið var, er frv. fór héðan úr þessari d., og vildi leggja til, að þessu yrði breytt.

Önnur breyting, sem ég vildi mæla með að gerð yrði um leið á þessu, er sú, að óheimilt skuli að eitra fugla. Á þskj. 528, sem var nál. frá hv. landbn. Nd., var brtt. um, að þetta skyldi óheimilt. Þetta nál. mun hafa verið dregið til baka af n. og annað samið allólíkt. Finnst mér það benda til þess, að hv. þm. í landbn. Nd. hafi ekki verið allir á einu máli og hafi verið harla óákveðnir í sínum till. Ég vil nú gera það að minni till. hér og bera fram brtt. skriflega, mælast til þess, að hún fáist borin upp, um breytingu við 11. gr. frv., svo hljóðandi:

„11. gr. orðist svo:

Skylt er oddvitum og bæjarstjórum að sjá um eitrun fyrir refi og minka á tilteknum svæðum, þegar veiðistjóri mælir fyrir um, að svo skuli gert. Óheimilt er að eitra fugla, en að öðru leyti skal við eitrun fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum veiðistjóra. Héraðslæknar og lyfjaverzlanir láta oddvitum og bæjarstjórum í té eitur samkvæmt fyrirmælum landbúnaðar- og heilbrigðismálaráðuneytisins.“

Þessi till., eins og hún er orðuð, má heita samhljóða þeirri till., sem hv. landbn. var með á prjónunum um skeið í Nd., þótt hún væri síðar dregin til baka. Jafnvel þó að þessi samþykkt yrði gerð hér nú, er ekki víst, að óttast þurfi töf á afgreiðslu málsins á þessu þingi, því að svo deildar meiningar munu vera í Nd., að allt eins líklegt er, ef hv. Ed.-þingmenn gætu hugsað sér að fylgja þessari till., að hún mundi ganga fram að lokum á þessu þingi.