07.02.1957
Sameinað þing: 26. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

Varamenn taka þingsæti

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Nefndin hefur haft til meðferðar tvö mál nú um hálfs mánaðar skeið, mál varamanns fyrir Harald Guðmundsson, hv. 4. þm. Reykv., en Haraldur sendi bréf, dags. 22. jan. 1957, til Alþingis um það, að hann mundi víkja sæti, og óskaði eftir, að varamaður yrði settur í hans stað Eggert Þorsteinsson, — og svo bréf Finnboga R. Valdimarssonar um það, að varamaður verði látinn taka sæti í hans stað.

Út af varamannssæti Eggerts Þorsteinssonar er það að segja, að yfirkjörstjórnin í Reykjavík hefur ekki gefið út formlegt kjörbréf, en hún hefur í bréfi, dags. 23. jan. 1957, til Alþingis gert grein fyrir þessu máli, lýst kosningu hvað snertir A-listann í Reykjavík og atkvæðatölu hvers einstaks manns, sem á þeim lista var. Hún skýrði enn fremur frá því, að þann 9. júlí eða áður en kjörstjórn sneri sér að því að ganga frá kjörbréfum til varamanna af ]istanum í Reykjavík, hafi frk. Rannveig Þorsteinsdóttir, sem var 3. manneskja á A-listanum í Reykjavík, sent svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég undirrituð afsala mér hér með sæti sem varaþingmaður Reykvíkinga af A-listanum og fer fram á, að næsta manni þess lista við nýafstaðnar alþingiskosningar verði í minn stað veitt kjörbréf sem varaþingmanni Reykvíkinga.“

Enn fremur hafði 10. s.m. Alþfl. sent yfirkjörstjórninni í Reykjavík svo hljóðandi bréf: „Þar sem frk. Rannveig Þorsteinsdóttir hefur afsalað sér varaþingmannssæti A-listans í Reykjavík, óskar Alþýðuflokkurinn þess, að næsta manni listans, Eggert Þorsteinssyni, verði afhent kjörbréf sem varaþingmanni flokksins í Reykjavík.“

Eftir miklar bollaleggingar í kjörstjórn mun það hafa orðið niðurstaða, að þeir vildu ekki gefa út kjörbréf með venjulegum hætti a.m.k., og segja svo í niðurlagi bréfs síns, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirkjörstjórnin taldi ekki fært, með hliðsjón af 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 117. gr. kosningalaganna, að gefa út formlegt kjörbréf til Eggerts G. Þorsteinssonar, og tilkynnti hún þá flokksforustu Alþýðuflokksins þessa niðurstöðu. En þar sem kjörinn þingmaður flokksins hér í Reykjavík, Haraldur Guðmundsson, er í þann veginn að hverfa af landi burt, en enginn varamaður fyrir hann, þá telur yfirkjörstjórnin rétt, svo sem mál þetta horfir nú við og með hliðsjón af 46. gr. stjórnarskrárinnar, að senda málið til hins háa Alþingis, að það taki ákvarðanir um það, hvort Eggert G. Þorsteinsson geti talizt löglega kosinn varaþingmaður fyrir Alþýðuflokkinn fyrir yfirstandandi kjörtímabil.“

Þannig sem sagt afgreiðir kjörstjórnin það. Hún hvorki samþykkir að gefa út kjörbréf né heldur neitar að gefa út kjörbréf, en hún telur vafasama heimildina til þess og leggur málið fullafgreitt frá sinni hendi í hendur Alþingis og vísar til þeirrar gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um úrslitavald Alþingis um kosningar þm.

Það er vísað í þessu bréfi til 31. gr. stjórnarskrárinnar og 117. gr. kosningalaganna. 31. gr. stjórnarskrárinnar segir um kosningar í Reykjavík: Það skulu kosnir 8 þm. í Reykjavík. „Kosning þeirra er hlutbundin. Jafnmargir varamenn skulu kosnir samtímis og á sama hátt.“ Mér skilst, að það sé þetta orðalag, sem yfirkjörstjórnin telur gera það vafasamt, að hægt sé að veita Eggert G. Þorsteinssyni varamannskjörbréf á lista Alþfl., með því að þeir telja, að þegar kosning hafi farið fram, hafi frk. Rannveig Þorsteinsdóttir verið í þriðja sæti, en ekki Eggert Þorsteinsson.

Þetta finnst mér ákaflega hæpinn orðhengilsháttur, að leggja svo stífan skilning í þetta orðalag, enda kemur í ljós, að kjörstjórnin þorir ekki að fullyrða þetta og vísar því til Alþingis til úrskurðar.

Það er nú svo bæði með stjórnarskrá og lög, að hversu nákvæm sem þau lög eru, verður lífið alltaf miklu fjölbreyttara, og hvað nákvæmlega sem talin eru upp ýmis tilvik, sem fyrir geta komið í lögum, verður lífið þó alltaf fjölbreyttara og kemur með ný tilvik, sem ekki hefur verið reiknað með áður. Og þannig stendur það í þessu máli, að þriðji maður listans, frk. Rannveig Þorsteinsdóttir, segir sig af listanum, afsalar sér varaþingmannssætinu, áður en búið er að úrskurða um varaþingmennina og gefa þeim kjörbréf, og tel ég, að það hefði verið eðlilegt og sjálfsagt, að þá hefði verið tekinn listinn eins og hann var, þegar kjörstjórnin snýr sér að því að úrskurða um varamennina og gefa þeim kjörbréf.

Eggert Þorsteinsson er, eins og vitað er, fjórði maðurinn á listanum. Að svo miklu leyti sem það yrði talið, að þarna væri verið að blekkja kjósendur, hefur Eggert á sinn hátt haft áhrif á kosningu, að svo miklu leyti sem yfirleitt menn á listum hafa áhrif á það, hverjir kjósa listana, og er í fjórða sæti við kosningarnar. Og þegar slík forföll koma eins og þau, að frk. Rannveig Þorsteinsdóttir segir sig af listanum, þá er eðlilegt að taka tillit til þess, þegar úthlutað er, hvernig listinn er þá.

Þetta hefur hins vegar kjörbréfanefnd þingsins ekki getað orðið sammála um. Við Gísli Guðmundsson, hv. þm. N-Þ., erum á þeirri skoðun, að það beri að taka kosningu Eggerts Þorsteinssonar gilda. Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) og hv. 11. landsk. þm. (FÞ) voru á móti því og töldu það ekki geta samræmzt og gera vafalaust grein fyrir sinni skoðun, en hv. 1. landsk. þm. (AG) greiddi ekkí atkvæði í n. og gerir sennilega grein fyrir sinni afstöðu hér við umr.

Eins og ég hef áður lýst, liggur ekki fyrir hér kjörbréf í þess orðs merkingu eða a.m.k. ekki venjulegt kjörbréf fyrir Eggert Þorsteinsson. En það segir sig sjálft, þegar athuguð eru ákvæði 46. gr. stjórnarskrárinnar, en hún segir svo: „Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmenn hafi misst kjörgengi.“ Þegar þetta ákvæði er athugað, er auðséð, að það atriði, hvort kjörstjórn hefur gefið út kjörbréf, getur ekki á neinn hátt skert þennan stjórnskipulega rétt Alþingis til þess að hafa úrslitavald. Það getur verið af ýmsum ástæðum, að kjörbréf eru ekki gefin út, mismunandi skilningur á lögum o.s.frv., eins og hér á sér stað. Og það væri vitanlega fásinna að telja, að það, að kjörstjórn gefur ekki út kjörbréf, útiloki það, að Alþingi geti hagnýtt sér sinn stjórnskipulega rétt til þess að hafa úrslitavald um kosningu þingmanna. Þá væri kjörstjórnin í raun og veru komin þar með aðstöðu, sem væri hærra sett og hefði meira vald í vissum skilningi en sjálft þingið. Einmitt á þessu ákvæði byggjum við það, að Alþingi beri ekki að binda sig við það, þó að kjörstjórn Reykjavíkur hafi ekki séð sér fært að láta Eggert Þorsteinssyni í té löglegt kjörbréf.

Ég vil benda á það, að í stjórnarskránni eru engin þau ákvæði, sem banna þá lausn þessa máls, sem við hv. þm. N-Þ. leggjum til. Það eru engin ákvæði í stjórnarskránni, sem beinlínis banna það, heldur eru þessar efasemdir, sem koma fram í bréfi kjörstjórnarinnar, dregnar óbeinlínis eða beinlínis að nokkru leyti út frá þessu orðalagi, sem ég las áðan, um það, að jafnmargir varamenn skuli kosnir samtímis og á sama hátt. Það er náttúrlega augljóst mál, að ef svo hefði verið, að það hefðu verið skýlaus fyrirmæli um, að það gætu engir komið til mála sem varamenn aðrir en þeir, sem hefðu haft rétt til þess á kjördegi, eins og listinn var skipaður á kjördegi, — ef slíkt skýlaust ákvæði hefði verið, þá hefði ekki þessi deila orðið til. En engin slík ákvæði eru til í stjórnarskránni, sem banna þetta. Það virðist hins vegar eðli málsins samkvæmt eðlilegra í alla staði, að málið sé tekið með þeim hætti, sem við hv. þm. N-Þ. höfum talið.

Þegar svo atvikast, að atvikin í lífinu verða fjölbreyttari en löggjöfin gerir beinlínis ráð fyrir, þá verður á svipaðan hátt hér eins og þegar dómari hefur slík mál til úrslita að taka tillit til þess, hvað löggjafinn hafi ætlazt til og hvað sé eðlilegast í lausn hvers máls, án þess þó að halla nokkru þeim hætti, sem fyrir er. Og ef öll þessi atvik eru tekin til athugunar, býst ég við því, að það renni nýjum stoðum undir skoðun okkar í þessu máli.

Við teljum rétt að þetta mál eigi að leysast einmitt á þann hátt, sem er eðlilegastur, og það er, að listi Alþfl. í Reykjavík hafi varamann eins og aðrir listar hér í Reykjavík. Hann fékk kosinn löglega einn mann, og það hefur aldrei orkað tvímælis, að Alþfl. hefði undir öllum kringumstæðum getað fengið kosinn mann í Reykjavík og átti þá rétt á varamanni fyrir hann. Þess vegna er í alla staði eðlilegast, að hann fái að halda þeim rétti, þegar líka tillit er tekið til þess, að þetta raskar á engan hátt samsetningu Alþ., þetta veldur ekki misrétti gagnvart nokkrum aðila. Það er enginn aðili í landinu, hvorki flokkar né einstaklingar, sem geta kvartað yfir því, að á rétt þeirra sé gengið eða á einhvern hátt sé sniðgenginn vilji kjósenda.

Þegar allt þetta er tekið til athugunar, tel ég það vera alveg vafalaust rétt af þinginu og ég tel raunar hrein glöp af þinginu, ef það ekki tekur kjör Eggerts Þorsteinssonar gilt sem varamanns af lista Alþfl. í Reykjavík.

Ég vil benda á það atriði fyrir þá menn, sem vilja byggja á orðanna hljóðan, að ef svo færi, að Alþ. liti svo á, að ekki sé réttmætt, að Eggert Þorsteinsson verði talinn varamaður af lista Alþfl. í Reykjavík, þá er, þegar hv. 4. þm. Reykv. tekur við því starfi, sem vitað er að hann mun taka við, eitt af átta þingsætum Reykjavikur autt. Þá eru þm. Reykjavíkur ekki nema sjö, og náttúrlega hefur það tilsvarandi áhrif á styrkleikahlutföll flokkanna í þinginu.

Nú segja menn sumir, að þetta sé löglegt. Og hvað á þá að gera, ef það eru aðeins sjö þm. í Reykjavík? Stjórnarskráin gerir ráð fyrir því, að á Alþ. eigi sæti allt að 52 þjóðkjörnir menn, og eins og kosningatölur komu út við síðustu kosningar, var úthlutað öllum uppbótarsætunum, ellefu að tölu. Þess vegna eiga nú samkvæmt stjórnarskránni að sitja 52 þm. á þingi. Það eru skýlaus fyrirmæli í stjórnarskránni. Þeir eru þá ekki orðnir nema 51, þegar Alþfl. hefur misst sinn varamann og misst sæti hér í þinginu. Þá mundu kannske sumir segja: Ja, það á að kjósa upp í Reykjavík. — Ef við tökum nú á sama hátt fullkominn orðhengilshátt, þá stendur hér í 31. gr. stjórnarskrárinnar eitt ákvæði um endurkosningar, og það er svona: „Deyi þm. kosinn í einmenningskjördæmi eða fari frá á kjörtímanum, skal kjósa þm. í hans stað fyrir það, sem eftir er af kjörtímanum.“ Það eru engin ákvæði um uppkosningu í Reykjavík. Það eru engin ákvæði um uppkosningu nema í einmenningskjördæmunum. Það þarf þá að brjóta stjórnarskrána til þess að láta kjósa upp í Reykjavík.

Ef maður ætlar að taka hlutina svona algerlega sem orðhengilshátt, en ekki taka þetta á þann sama hátt og hver einasti dómstóll verður að gera, að hann verður vitanlega að láta skynsemi ráða og taka tillit til allra aðstæðna og gera sér fyllilega ljóst, í hvaða skyni þessi löggjöf og stjórnarskrá er sett, þá erum við komnir sem sagt í algera sjálfheldu í þessu efni.

Ég vil aðeins benda á þetta til frekari skýringar á því, hvað það er hæpið að taka málin svo einstrengingslega.

Ég vil svo með tilliti til þess, sem ég hef hér sagt, bera fram þá till. af hálfu okkar hv. þm. N-Þ.: Sameinað Alþ. samþykkir að taka Eggert G. Þorsteinsson gildan sem réttkjörinn varamann af lista Alþfl. í Reykjavík.

Ég leyfi mér að leggja þessa till. fyrir hæstv. forseta.

Þá er það kjörbréf varamanns í staðinn fyrir hv. 4. landsk. þm., Finnboga R. Valdimarsson. Nefndin fjallaði um það kjörbréf. Það hefur verið lagt hér fram kjörbréf frá landskjörstjórninni til handa Geir Gunnarssyni framkvæmdastjóra í Hafnarfirði, og með því að 1. landsk. varaþm. af hálfu Alþb., Jónas Árnason í Neskaupstað, hefur með símskeyti tilkynnt, að hann geti vegna samgönguörðugleika og annarra forfalla ekki mætt til þingsins, taldi nefndin eðlilegt venju samkvæmt að taka þetta bréf til athugunar og hafði ekkert við það að athuga og leggur einróma til, að það verði samþykkt.