28.05.1957
Efri deild: 113. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

148. mál, eyðing refa og minka

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þær breytingar, sem þetta frv. hefur tekið í Nd., verð ég að telja að sumu leyti og jafnvel flestu leyti til hins verra. Ég hef kynnzt þessu máli talsvert, vegna þess að ég á sæti í hv. landbn., og öll þau atriði, að ég hygg, sem eru í þessum breytingum, sem komu frá Nd., voru rædd og rædd mikið í landbn. Ed. Ég hef því ekki breytt þeirri skoðun um þau atriði, sem ég hafði þá, og er mótfallinn ýmsu af þessu, bæði hvað snertir hæð verðlaunanna, sem nú á að greiða, en þó er sérstaklega eitt atriði, sem mér er mjög sárt um að ekki skyldi fá að standa í frv., en það er í 11. gr., þar stóð, að veiðistjóri geti þó ákveðið, að ekki skuli eitra á vissum svæðum, ef hætta er á, að eitrið geti útrýmt sjaldgæfum fuglategundum. Það er vitað mál, að þarna er fyrst og fremst átt við örninn, og það er álit manna, sem kunnugir eru, að honum stafi mikil hætta af eitruninni. En ég skil svo 11. gr., eins og hún er nú orðin í frv., að það eigi að eitra á þeim svæðum, er veiðistjórinn telur líklegust til árangurs hverju sinni, m.ö.o.: þó að oddvitar og bæjarstjórar eigi að sjá um eitrun eftir fyrirmælum Búnaðarfélags Íslands, þá eigi Búnaðarfélagið ekki eða hafi ekki heimild til að láta falla niður eitrun á svæðum, ef veiðistjóri telur það líklegt til árangurs til að útrýma ref og mink, þó að það útrými um leið erninum. Ég lít svona á þetta, og þetta tel ég mjög skaðlegt.

En ég vil ekki bregða fæti fyrir þetta frv. og mun greiða því atkv. samt, þó að þessi ágalli sé á því, í þeirri von, að fljótlega verði bætt úr þessu með lagabreytingu síðar.

Ég vil segja svipað um till. hv. 1. landsk., að hún er að verulegu leyti til bóta. En þar sem skýrt hefur verið hér frá í hv. d. í dag, að jafnvel geti komið til mála, að þinglausnir fari fram á morgun, þá tel ég engar líkur til, að þetta frv. nái fram að ganga, ef við förum að samþ. við það brtt., og af þeim ástæðum mun ég ekki geta fylgt þeirri till. og mun því ekki standa á móti frv., þó að ég sé ósamþykkur sumum atriðunum, sem hafa verið sett inn í frv. í Nd., en geri það í trausti þess, sérstaklega hvað 11. gr. varðar, að á henni fáist breyting þegar á næsta þingi.