17.05.1957
Efri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

174. mál, menningarsjóður og menntamálaráð

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Gildandi lög um menntamálaráð Íslands og menningarsjóð eru nær 30 ára gömul. Þau voru sett að frumkvæði þáverandi menntmrh., Jónasar Jónssonar. Þegar lögin voru sett, voru þau hin merkustu nýmæli, og mun þessi lagasetning án efa verða eitt af því, sem mun varðveita nafn Jónasar Jónssonar í íslenzkri menningarsögu.

S.l. þrjá áratugi hefur þó margt breytzt í íslenzku þjóðfélagi, og er nú orðið fullkomlega tímabært að taka þessi lög til endurskoðunar í ljósi fenginnar reynslu og breyttra tíma.

Tekjur menningarsjóðs hafa undanfarin ár samkvæmt þeim tekjustofni, sem honum er ætlaður í gildandi l., en það eru áfengissektir og tekjur af upptæku áfengi, numið milli 500 og 600 þús. kr. Þeim ber að skipta samkvæmt ákvæðum gildandi laga í þrjá jafna hluta, og skal verja 1/3 til bókaútgáfu, 1/3 til kaupa á listaverkum til listasafns ríkisins og 1/3 til að styrkja náttúrufræðirannsóknir.

Fé það, sem bæði bókadeildin og listaverkadeildin hefur haft til umráða, hefur reynzt allt of lítið og staðið þeirri merku starfsemi, sem menningarsjóði er ætlað að styrkja, mjög fyrir þrifum.

Það er því einn megintilgangur þessa frv., að þar er gert ráð fyrir því, að menningarsjóði sé séð fyrir verulega auknum tekjum, þó að ákvæðin um sjálfa tekjuöflunina séu að vísu í öðru frv. Jafnframt er gert ráð fyrir nýjum verkefnum, sem menningarsjóði er ætlað að styrkja og teljast verða í samræmi við þarfir, sem skapazt hafa í þjóðfélaginu smám saman á þeim tíma, sem liðinn er síðan lögin í upphafi voru sett.

Það er gert ráð fyrir því, að unnt verði að stórauka bókaútgáfuna frá því, sem verið hefur, og verja allmiklu meira fé en undanfarið hefur verið hægt til þess að búa listasafn ríkisins íslenzkum og erlendum listaverkum.

Um nauðsyn á eflingu bókaútgáfunnar og listasafns ríkisins sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða, en leyfi mér að vísa til þess, sem um verkefni bókaútgáfunnar og listasafnsins er sagt í þeirri grg., sem fylgir frv. Hins vegar vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þau hin nýju verkefni, sem sjóðnum er ætlað að annast samkvæmt frv., eins og það er flutt.

Í fyrsta lagi er menningarsjóði ætlað að styrkja vísindasjóð með árlegu framlagi, sem gert er ráð fyrir að nemi allt að 800 þús. kr. Er flutt samhliða þessu frv. sérstakt frv. um vísindasjóð, sem væntanlega mun koma til umr. næst á eftir þessu frv., og munu þá látnar fylgja nokkrar skýringar á því máli.

Þá er hér og gert ráð fyrir nýju verkefni, að menningarsjóður láti gera íslenzkar menningarog fræðslukvikmyndir eða stuðli að gerð þeirra og styðji á annan hátt innlenda kvikmyndagerð.

Meðal annarra menningarþjóða hefur gerð menningarkvikmynda fyrir löngu rutt sér til rúms, en hér á landi hefur því verkefni fram að þessu verið lítt gaumur gefinn. Á gildandi fjárlögum er að vísu nokkur fjárhæð, sem gert er ráð fyrir að verja til þess að taka kvikmyndir af kunnum Íslendingum, og menningarsjóður hefur fyrir sitt leyti hafið nokkurn undirbúning að því, að gerðar verði stuttar kvikmyndir um íslenzka listamenn, og er kvikmynd um Ásgrím Jónsson senn fullgerð. Er kominn tími til þess, að kvikmyndatæknin verði tekin í þjónustu íslenzkra menningarmála. Verkefnin á því sviði eru óþrjótandi. Það þarf að gera kvikmyndir um atvinnuvegi landsins, um þjóðhætti. Nefna má t.d. gagnsemi þess að gera kvikmynd um sögu landhelgismálsins og handritamálsins, svo að eitthvað sé nefnt.

Þá er í þriðja lagi gert ráð fyrir því í frv., að menningarsjóður fái það hlutverk að styðja íslenzka tónlist og íslenzka myndlist, bæði tónlistar- og myndlistarfræðsluna og sjálfa listsköpunina. Má í því sambandi nefna, að mjög æskilegt væri, að gerðar yrðu góðar eftirlíkingar málverka í eigu listasafns ríkisins, en tækni á því sviði er orðin frábær. Mundu slíkar eftirlíkingar fyrst og fremst látnar í té skólum og öðrum opinberum stofnunum. Listaverk og listamenn mundu þannig komast með nokkrum hætti í nánari snertingu við almenning í landinu en verið hefur.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því, að menningarsjóður hafi með höndum eða auki stuðning sinn við iðkun þjóðlegra fræða, svo sem ættfræði, staðfræði, örnefnasöfnun, almenna menningarsögu o.s.frv.

Þess má geta, að til skamms tíma hafði menntamálaráð heimild til þess að verja úr menningarsjóði nokkru fé til þess að greiða fargjöld fyrir námsmenn, fræðimenn og listamenn til annarra landa. Þegar skattfrelsi Eimskipafélagsins var afnumið fyrir nokkrum árum, hætti Eimskipafélagið að veita slík hlunnindi, sem úthlutað var af menntamálaráði, og féll þar með þessi tegund styrkveitinga af hálfu menntamálaráðs niður. Hér er gert ráð fyrir því, að upp verði aftur tekin heimild til þess að verja nokkru fé úr menningarsjóði í þessu skyni, þar sem reynslan sýndi, að það kom mörgum efnalitlum manninum að mjög góðu haldi.

Enn fremur er gert ráð fyrir því, að nokkru fé verði varið til kynningar íslenzkri menningu bæði innanlands og utan.

Athugun menntmrn. hefur leitt í ljós, að tekjur menningarsjóðs muni þurfi að aukast um 2 millj. kr. og verða þannig alls um 21/2 milljón, til þess að sjóðurinn geti vel sinnt hinu gamla hlutverki sínu og bætt við þeim verkefnum, sem ég vék lauslega að.

Í frv. um breytingu á gildandi lögum um skemmtanaskatt, sem einnig er hér til umr. í þessari hv. d. í dag, er gert ráð fyrir því, að þessa fjár verði aflað með tveggja króna gjaldi af aðgöngumiðum að dansleikjum og einnar krónu gjaldi af aðgöngumiðum að kvikmyndasýningum, öðrum en barnasýningum. Þrátt fyrir þetta smávægilega gjald yrði aðgangseyrir að bæði kvikmyndasýningum og dansleikjum hlutfallslega talsvert lægri en hann var fyrir styrjöldina og miklu lægri en hann er af hliðstæðum skemmtunum í nágrannalöndunum.

Í desember s.l. fól menntmrh. eftirtöldum mönnum að endurskoða gildandi lög um menningarsjóð og menntamálaráð: Friðfinni Ólafssyni forstjóra, sem var formaður n., Gils Guðmundssyni skrifstofustjóra, Hauk Snorrasyni ritstjóra, Jakob Benediktssyni magister og Vilhjálmi Þ. Gíslasyni útvarpsstjóra.

N. varð sammála um till. sínar til rn. Þetta frv. er í öllum meginatriðum samhljóða till. n. Þess er þó að geta, að n. gerði ráð fyrir því, að í stað einstakra styrkja, sem nú eru veittir í fjárl. til nafngreindra vísindamanna, fræðimanna og listamanna, kæmi ein fjárhæð, sem rynni í menningarsjóð, en menntamálaráð úthlutaði síðan. Er þessi hugmynd til athugunar, þegar næstu fjárl. verða undirbúin.

Þess má og geta, að n. varð sammála um þá tekjuöflun, sem gert er ráð fyrir að skuli standa undir hinum nýju verkefnum, sem menningarsjóður á að taka að sér samkvæmt þessu frv.

Þá skal ég að síðustu fara fáeinum orðum um helztu breytingar og nýmæli laganna eða hinar einstöku greinar þeirra.

Í 2. gr. er kveðið svo á, að menntamálaráð skuli gera árlega áætlun um tekjur og gjöld menningarsjóðs, en tekjum sjóðsins ekki skipt fyrir fram í ákveðnum hlutföllum á óbreytilegan hátt, eins og gert er samkv. ákvæðum gildandi laga.

Í 3. gr. er fjallað um bina nýju tekjujöfnunarleið, auk þess sem gert er ráð fyrir sama tekjustofni og menningarsjóður hefur haft undanfarin 20 ár tæp.

Í 4. gr. er fjallað um það, hvernig tekjum menningarsjóðs skuli varið, og hef ég áður rakið það og skal ekki um það fjölyrða meir. Þó vil ég geta þess, að í 5. gr. er það nýmæli, að skv. henni skal verja a.m.k. 5% af árlegum heildartekjum menningarsjóðs í sérstakan sjóð, er nefnist stofndeild menningarsjóðs, og er menntamálaráði heimilt að fengnu samþykki ráðh. að verja fé stofndeildar til kaupa á fasteignum, sem notaðar yrðu í þágu menningarsjóðs eða annarra menningarmála. Þessum sjóði er ætlað að vera eins konar fastur varasjóður menningarsjóðs og heimilt að varðveita hann í fasteign. Öll starfsemi menningarsjóðs og menntamálaráðs fer nú fram í leiguhúsnæði á ýmsum stöðum í bænum, og háir það starfseminni að sjálfsögðu allmikið, en sérstaklega bókaútgáfa sjóðsins krefst mikils húsnæðis.

Þá er í 8. gr. gert ráð fyrir því, að starf framkvæmdastjóra sjóðsins verði föst staða, er ráðh. veiti, en menntamálaráð hefur fram að þessu ráðið framkvæmdastjóra.

Að síðustu má og geta þess, að nú er skrifstofukostnaður menntamálaráðs greiddur af skrifstofukostnaði stjórnarráðsins, þ.e.a.s. úr ríkissjóði. Ákvæði um þetta eru felld niður og gert ráð fyrir því, að framvegis standi menningarsjóður sjálfur undir sínum skrifstofukostnaði.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.