22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

174. mál, menningarsjóður og menntamálaráð

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) gat þess, sem rétt er, að fleiri en ein n. hefði fjallað um undirbúning þeirra þriggja frv., sem lögð voru samtímís fyrir hið háa Alþingi í s.l. viku, og hann gat þess jafnframt, að hann saknaði þess að sjá ekki rakið í grg. frumvarpanna, hvað af einstökum ákvæðum þeirra mætti rekja til starfs eða hugmynda hvers einstaks aðila, sem um þetta mál hefði fjallað undanfarið.

Það er sjálfsagt, að þingnefnd fái alla aðstöðu til þess að kynna sér þau nál., sem menntmrn. hafa borizt varðandi þessi mál. Ég taldi við undirbúning sjálfra frv., að grg. þeirra mundu verða of viðamiklar, ef gera ætti þessu atriði nákvæm skil. Þær eru þegar alllangar, finnst kannske sumum of ýtarlegar, en ef hefði átt að rekja meginatriðin í grg. þeirra n., sem um málið hafa fjallað, hefði það óneitanlega lengzt mjög verulega. Hitt er sjálfsagt, að þingnefnd fái aðstöðu til þess að kynna sér þetta, og ég tel einmitt vera réttan vettvang, að málið sé athugað þar, og skal veita þeirri n., sem fær málið til meðferðar hér, þau gögn í þessu máli, sem hún óskar eftir, og þá fyrst og fremst þau nál., sem þessar n. hafa skilað menntmrn.

Hv. þm. gat þess, að um þetta mál hefðu í raun og veru fjallað tvær n. þann tíma, sent ég hefði verið menntmrh. Við þetta vildi ég aðeins bæta, að af hálfu fyrrv. stjórnar voru starfandi tvær n. samhliða til þess að fjalla um þau mál, sem fjallað er um í þessum frv.

6. júlí 1956 fól fyrrv. menntmrh. tveim mönnum, þeim Þorvaldi Garðari Kristjánssyni lögfræðingi og Ásgeiri Péturssyni deildarstjóra í menntmrn., að endurskoða gildandi lög um skemmtanaskatt og þjóðleikhús og félagsheimili. Þeir tvímenningarnir skiluðu sínum till. til rn. 9. apríl s.l. Auk þess hafði fyrrv. ríkisstj. eða fyrrv. menntmrh., eins og hann sjálfur gat um í ræðu sinni, á sínum tíma skipað sérstaka n. til þess að gera till. um stofnun vísindasjóðs. Sú n. hafði ekki það verkefni að fjalla neitt um löggjöfina um menningarsjóð og menntamálaráð.

Ég þóttist hins vegar sjá, þegar ég hafði kynnt mér nokkuð störf þessara tveggja n., sem starfandi voru á vegum fyrrv. ríkisstj., að einnig væri nauðsynlegt að endurskoða gildandi lög um menningarsjóð og menntamálaráð, og þess vegna var það, sem ég skipaði n. þá, sem ég gat um áðan í framsöguræðu minni, fyrst með. það verkefni eitt að endurskoða gildandi lög um menningarsjóð og menntamálaráð. Þegar ég síðan fékk till. n., sem fjallað hafði um málefni vísindasjóðsins, og hafði rætt það mál ýtarlega bæði við nm. sjálfa og aðra aðila og gerði mér ljóst, að till. hennar um fjáröflunina fyrst og fremst væru ekki líklegar til þess, að um þær gæti orðið samkomulag, fól ég n., sem ég upphaflega hafði beðið um að endurskoða gildandi lög um menningarsjóð og menntamálaráð, einnig að athuga þetta mál nánar, og það tel ég vera fullkomlega eðlileg vinnubrögð; þegar líkur eru til þess, að hugmyndir eins aðilans, sem um málið hefur fjallað, nái ekki allar fram að ganga, þá sé málið athugað betur. Í stað þess að skipa nýja n. í málið fól ég n., sem þegar hafði fengið annað skylt verkefni, sem engin önnur n. hafði fjallað um, að athuga þetta mál betur. Sú n. vann á þessu sviði gott og gagnlegt starf.

Ég beið alllengi eftir niðurstöðu þeirra manna, sem falið hafði verið að endurskoða lög um félagsheimili og skemmtanaskatt og þjóðleikhús, vildi ekki leggja fram endanlegar till. mínar í því máli, fyrr en álit þeirra manna lægi fyrir, því að þeir voru báðir þeim málum kunnugir. En það álit lá ekki fyrir fyrr en 9. apríl s.l., og vona ég, að með því sé. þeim orðum bv. þm. svarað, að málið sé síðbúið af minni hálfu. Það voru ekki skilyrði til þess fyrr en eftir 9. apríl s.l. að gera heildartillögur um þetta mál á grundvelli athugana aðila, sem höfðu málið með höndum ýmist frá fyrrv. ráðh. eða frá mér.

Auðvitað hefði verið æskilegt, að þessi mál hefðu getað komið fyrr fyrir hið háa Alþingi. En með tilliti til þess, að síðasta álitið frá mönnum, sem höfðu til þess umboð að fjalla um það, lá ekki fyrir fyrr en 9. apríl, hygg ég, að menntmrn. verði ekki með neinni sanngirni sakað um að hafa haft málið óeðlilega lengi í sínum höndum.

Hv. þm. spurði um, hvort menntamálaráð hefði beinlínis fjallað um það frv., sem hér er nú til 1. umr. Því er til að svara, að tveir menntamálaráðsmenn áttu einmitt sæti í þeirri n., sem ég fól að endurskoða l. um menningarsjóð og menntamálaráð, þ.e. þeir Haukur Snorrason ritstjóri og Vilhjálmur Þ. Gíslason útvarpsstjóri. Enn fremur átti skrifstofustjóri menntamálaráðs sæti í nefndinni, Gils Guðmundsson, og hef ég gert ráð fyrir því, að með því móti væri fullt tillit tekið til þeirra sjónarmiða, sem menntamálaráð kynni að vilja koma á framfæri varðandi þetta. Að því er ég bezt veit, hefur innan menntamálaráðs ekki verið neinn ágreiningur um þau nýmæli, sem brotið er upp á í þessu frv., og það form, sem þetta frv. hefur.

Meginvandinn í sambandi við eflingu menningarsjóðs er að sjálfsögðu, með hverjum hætti skuli aflað þeirra tekna, sem mér skilst að enginn ágreiningur sé um að nauðsyn sé að afla. Það er og að sjálfsögðu það mál, sem lengst hefur vafizt fyrir mér og þeim mönnum öðrum, sem málið hafa undirbúið bæði í nefndum og í menntmrn.

N. sú, sem falið var að fjalla um vísindasjóðsmálið, gerði aðrar till. um tekjuöflun en þær, sem gert er ráð fyrir í þessum stjórnarfrv., og gat hv. þm. um það. Ég skal ekki rekja það í einstökum atriðum, það mundi verða of langt mál, en meginatriði þeirra tekjuöflunartillagna var það, að leggja skyldi gjald á selt áfengi og selt öl og gosdrykki, eins og hv. þm. gat um í ræðu sinni.

Þetta var auðvitað það af till. n., sem fyrst og fremst kom til athugunar og afstöðu þurfti að taka til. En niðurstaðan varð sú, að þessi skattstofn væri ekki heppilegur með tilliti til þess, hvernig á hann hefur verið hlaðið undanfarin ár og nú alveg nýlega.

Þær skemmtanir, sem gert er ráð fyrir að verði nú skattlagðar örlítið meira í þágu menningarsjóðs en gert hefur verið hingað til, eru dansleikir og kvikmyndasýningar, en það er einmitt meginskattstofn skemmtanaskattsins. Var hann í upphafi eingöngu til byggingar þjóðieikhúss og hefur síðan verið varið auk þess til að styrkja byggingu félagsheimila og til lestrarfélaga og kennslukvikmynda og að nokkru til rekstrar sinfóníuhljómsveitar.

Mönnum fannst, að þeim tekjum, sem hingað til hefði verið aflað með skattlagningu aðallega þessara skemmtana, dansleikja og kvikmyndasýninga, hefði verið varið til mála, sem væru svo náskyld þeim málum, sem hér þyrfti að styrkja til viðbótar, að eðlilegt væri að nota þennan skattstofn frekar. Skemmtanir hafa til þessa allar götur síðan 1923 verið skattlagðar í þágu menningarmála. Með tilliti til þess, að langt er síðan þessi skattur hefur verið aukinn nokkuð og því fer mjög fjarri, að þessi skattur geri þessar umræddu skemmtanir óeðlilega dýrar, varð niðurstaðan sú að bæta nokkru við þennan skatt.

Ástæðan til þess, að ekki var einfaldlega farin sú leið að hækka skemmtanaskattinn, var sú, að þá hefðu allar þær stofnanir, sem nú njóta undanþágu frá skemmtanaskattinum, ekki heldur þurft að greiða hækkun skemmtanaskattsins, og með því móti hefðu tekjur af viðbótinni orðið miklu minni en ella.

Það, sem nú er gert ráð fyrir, er það, að allar þær skemmtanir, sem upphaflega var gert ráð fyrir að væru skemmtanaskattsskyldar, skuli greiða þetta viðbótargjald, og drýgir það tekjurnar mjög verulega.

Ég vil geta þess, þó að það snerti að vísu ekki beinlínis þetta frv., sem hér er um að ræða, að þrátt fyrir þetta smávægilega viðbótargjald á aðgangseyri dansleikja og kvikmyndasýninga verður aðgangseyrir að þessum skemmtunum talsvert lægri hlutfallslega en hann var, áður en sú mikla verðhækkunaralda hófst, sem hér hefur risið s.l. 15 ár. Aðgangseyrir hér á Íslandi að þessum skemmtunum er og enn allmiklu lægri en hann er af hliðstæðum skemmtunum í nágrannalöndum þrátt fyrir þetta smávægilega viðbótargjald. (JóhH: Má hann ekki halda áfram að vera það:?) Jú, jú, auðvitað mætti hann það og það væri líka að sjálfsögðu æskilegt, að hann gæti orðið það. En þegar einhvers staðar þarf að afla tekna, er auðvitað um að velja, hvaða skattstofn geti komið til greina, og það var einmitt það, sem ég var að rökstyðja áðan, að með tilliti til eðlis þeirra verkefna, sem ætti að styrkja, var þessi skattstofn talinn koma einna helzt til greina og að áfengi, öl og gosdrykkir væru óeðlilegri skattstofu í þessu sambandi, auk þess sem margbúið væri að auka þann skattstofn á allra síðustu árum, jafnvel allra síðustu mánuðum. En það játa ég auðvitað, að alltaf er álitamál, hvar afla eigi tekna, þó að menn séu sammála um, að tekjurnar eigi að nota í góðu skyni.

Að síðustu vil ég varðandi hugleiðingar hv. 1. þm. Reykv. í niðurlagi sinnar ræðu aðeins láta þess getið með örfáum orðum, að það er a. m. k. ekki mín skoðun, að þó að bókaútgáfa menningarsjóðs yrði efld verulega og þó að hann m.a. hæfi útgáfu tímarits, þá yrði bókaútgáfan eða tímaritið að einu eða neinu leyti til þess að fela eða styðja sjónarmið eins eða neins af hinum stríðandi aðilum í þjóðfélaginu, ekki til þess að efla sjónarmið þeirra, sem hafa á hendi hin pólitísku völd hverju sinni. Slíkt tel ég að engu leyti geta verið og ekki mega vera verkefni slíkrar útgáfu, sem styrkt er af opinberu fé, heldur eigi hún að sjálfsögðu að kappkosta að nota ekki aðstöðu sína til þess að beita áhrifum í þeim málum, sem eru viðkvæm þjóðfélagsleg deilumál hverju sinni. Með því á ég auðvitað ekki við, að slík útgáfustarfsemi eigi að láta deilur samtímans algerlega fram hjá sér fara. Þá yrði hún mörkuð lognmollusjónarmiðum og mundi engan veginn gera það gagn, sem hún á að gera. Það er skoðun mín, að slík útgáfa sem þessi, sem nýtur opinbers styrks, eigi að forðast að styðja einn af hinum stríðandi aðilum á kostnað annars. Þar á að gæta viðsýnis og frjálslyndis með því að gefa rúm þeim skoðunum, sem efst eru á baugi hverju sinni í menningarmálum og þjóðfélagsmálum, og það er hægt að gera það á annan hátt en þann að taka eina skoðunina fram yfir aðra eða efla eina óeðlilega á kostnað annarrar.