22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

174. mál, menningarsjóður og menntamálaráð

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég efast mjög um haldgæði þeirra kenninga, sem hæstv. menntmrh. lét uppi um möguleika þess að gefa slíkt tímarit út án þess að það yrði einum eða öðrum aðila til framdráttar, ef það á annað borð á ekki að verða um of litlaust, svipað og segja verður að margt af útgáfuverkum þessarar stofnunar hingað til hefur verið og hefur haft þau áhrif, að aðrir hafa orðið að taka að sér sumt af þeim störfum, sem menn í fyrstu ætluðust til að þessari útgáfu yrðu fengin. Og ég sé engan veginn, að það sé óeðlileg þróun, heldur þvert á móti, og úr því mun reynslan skera. Það er auðvelt að tala fagurlega um slíka útgáfu, áður en hún er reynd, en það er bezt að bíða og sjá, hvernig til tekst, úr því að ráðið sýnist vera, að í þetta verði lagt.

Ég vil lýsa undrun minni yfir því, að fram skuli koma, að menntamálaráð skuli ekki hafa fengið þetta frv. til umsagnar. Ég tel alveg fráleitt að veita því ekki kost á að segja sína skoðun á málinn, og ég treysti hv. n. til þess að afla þeirrar umsagnar.

Ég hef auðvitað ekkert að athuga við það, þó að hæstv. ráðh. hafi skipað þá viðbótarnefnd við allar aðrar n., svo sem hann gerði, til athugunar þessa máls. Það var í hans valdi. Ég hefði talið eðlilegra, eins og á stóð, að gefa öðrum aðilum, sem um málið hafa fjallað, færi á því að segja sitt álit, en mér skilst af orðum ráðh., að svo hafi ekki verið gert.

Ég vil einnig taka fram, að óhjákvæmilegt var, að starf vísindasjóðsnefndarinnar fjallaði meira og minna um verkefni menntamálaráðs. Það var ljóst frá upphafi og gat aldrei öðruvísi farið heldur en að inn á sömu málin væri komið að verulegu leyti, þegar af því að menntamálaráð hefur hingað til haft það fyrir eitt aðalverkefni að styðja þessi mál, svo að í því gætti nokkurs misskilnings hjá hæstv. ráðh.

En sérstaklega vildi ég vekja athygli á því, að hæstv. ráðh. gat ekki um það, hversu óviðfelldið er, að þingið skuli fá málið til meðferðar svo seint. Ég skil alveg afstöðu hæstv. ráðh., að hann hafi þurft langan tíma til að velta málinu fyrir sér, og í því fólst engin ádeila frá mér til hans, því að ég veit það manna bezt, að hér er um mjög vandasamt mál að ræða og eðlilegt, að ráðh. þurfi að hafa sinn tíma til að hugsa um það. En vandinn hverfur ekki, þó að það sé komið út úr stjórnarráðinu, heldur hvílir vandinn einnig á Alþ., og það er til lítils gagns að leggja flókin mál þess eðlís, sem hér liggja fyrir, fyrir Alþingi, eftir að sýnt er, að það er alveg útilokað, að það hafi nokkurn tíma til þess að hugsa alvarlega um málin, og það fullyrði ég, að þannig sé komið nú.

En einkanlega vildi ég leggja áherzlu á, að það er mjög misráðið að taka fé til þessara þarfa af þeirri almenningsskemmtun, sem hollust er og bezt, en sleppa þeirri, sem verst er.

Það tjáir ekki að segja eins og hæstv. ráðh., að kvikmyndahúsin og dansleikir hafi þurft að standa undir sams konar starfrækslu fram að þessu. Það er alveg eins hægt að svara því, að það var ætlazt til þess, að áfengisgróði stæði undir henni áður fyrri. Á meðan hér var að verulegu leyti bann á áfengi, var ætlazt til þess, að þær miklu tekjur, sem þá fengust af sektum á smygli, rynnu til þessa sjóðs, og var hugsað sem veruleg uppistaða í hans tekjuöflun. Eftir að bannið var afnumið að öllu leyti, hvarf sá skattstofn að mestu, og þá var einmitt sérstaklega eðlilegt, að sá lögmæti áfengisgróði rynni til sjóðsins í hins stað, svo að þessi röksemd hæstv. ráðh. snýst í raun og veru alveg gegn honum sjálfum, þegar málið er skoðað ofan í kjölinn.

Þessi sjónarmið eru þó auðvitað aukaatriði. Það, sem mestu máli skiptir, er, að annars vegar þurfa sveitarfélögin hvert á sínum stað á þessum tekjum að halda til menningarmála innan síns umdæmis, en hins vegar er það verulegt atriði að gera kvikmyndahúsin svo fýsileg, að menn fari þangað fremur en að þeir sæki hinar óhollari skemmtanir. Og það er einmitt mjög athyglisvert, sem ráðh. gat um, að kvikmyndahúsin hér selji sína miða ódýrar en gert sé annars staðar. En kynni það ekki að vera ein skýringin á því, að drykkjuskapur er þrátt fyrir allt og þótt okkur ógni hann mun minni á Íslandi en í öðrum nálægum löndum? Og höfum við ástæðu til þess að taka upp baráttuna á móti því ástandi?