22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

174. mál, menningarsjóður og menntamálaráð

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er eitt, sem ég vil taka fram til viðbótar því, sem ég hef sagt um málið fram að þessu, til skýringar því, að þessi frv. skuli hafa verið lögð fyrir hið háa Alþingi, þótt langt sé liðið á þingið. Um þau atriði hefur verið talsvert rætt í hv. Ed., bæði í sambandi við frv., sem þar hefur verið á döfinni síðan snemma í vetur um félagsheimilasjóð, breyt. á l. um félagsheimilasjóð, og frv. um skemmtanaskatt, sem nú hefur verið nýlagt fyrir hv. Ed.

Það er hv. 1. þm. Reykv. (BBen) áreiðanlega mjög vel kunnugt, að brýna nauðsyn ber til þess að setja skýrari reglur um innheimtu skemmtanaskattsins heldur en verið hafa í gildi undanfarin ár, og veit ég ekki annað en að við séum sammála um það, ef ég man rétt orðaskipti, sem milli okkar fóru um það efni fyrir skömmu hér í hv. deild.

Einmitt í hv. Ed. hefur verið mjög fast eftir því gengið af hálfu nokkurra þm. Sjálfstfl., að þessu þingi lyki ekki án þess, að flutt yrði frv. um hreyt. á skemmtanaskattslögum og þar með tillögur um nýja skiptingu á tekjum af skemmtanaskatti, þar sem gert væri ráð fyrir aukinni hlutdeild félagsbeimilasjóðs í tekjum af skemmtanaskattinum. En það felst einmitt í frv. um skemmtanaskatt, sem nú liggur fyrir, að hlutdeild félagsheimilasjóðs er aukin úr 35% í 50%, og það er mjög nauðsynlegt vegna félagsheimilasjóðsins, að sú breyting nái fram að ganga og geti tekið gildi þegar á miðju þessu ári, eins og lagt er til í því frv. Sömuleiðis var og er bráðnauðsynlegt, að reglurnar um undanþágu undan greiðslu skemmtanaskatts séu endurskoðaðar, eins og gert er ráð fyrir í frv. um skemmtanaskattinn, ef tekjurnar af skemmtanaskattinum eiga ekki að vera í nokkurri hættu, eiga beinlínis ekki að vera í verulegri hættu.

Þetta er ein ástæðan til þess, að ég tel alveg brýna nauðsyn bera til þess, að þessi frv. séu afgr. þegar á þessu þingi, a.m.k. skemmtanaskattsfrv., og þá taldi ég rétt að afgreiða málin í heild, eins og hér hefur verið lagt til.

Hv. þm. sagðist skilja, að ég hefði þurft nokkurn tíma til þess að hugleiða þessi mál, þar sem þau séu vandasöm, svo sem þau sannarlega eru.

Þótt ég að vísu hafi hugleitt þau meira eða minna í allan vetur, þar sem ég vissi, að þau voru á döfinni, vil ég aðeins endurtaka það, að síðasta nál., siðasta álitið frá stjórnskipaðri n., lá þó ekki fyrir fyrr en 9. apríl s.l., þ.e. álit þeirra Þorvalds Garðars Kristjánssonar og Ásgeirs Péturssonar, sem falið var að endurskoða skemmtanaskattslögin og félagsheimilalögin. Þar hafði ráðuneytið mikið gagn af till. þeirra eða athugunum þeirra varðandi skemmtanaskattinn og þjóðleikhús. Hins vegar voru till. um breyt. á l. um félagsheimili það margbrotnar, að ég treysti mér ekki til þess að undirbúa frv. um þau efni fyrir þetta þing, og mun það verða undirbúið fyrir næsta þing.