28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

174. mál, menningarsjóður og menntamálaráð

Frsm. minni hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eitt hinna þriggja frv. um almenn menningarmál, sem voru lögð fram nú alveg nýlega. Minni hl. menntmn. mun leggja fram skriflega brtt. við þetta mál.

Till. er við 3. gr. frv., að a-liður þeirrar gr. orðist svo:

„Gjald af dansleikjum samkvæmt lögum um skemmtanaskatt.“

Við leggjum þar með til, að burt falli gjaldið af aðgöngumiðum að kvikmyndasýningum, sem gert er ráð fyrir í frv. til l. um skemmtanaskatt.

Um rökstuðning fyrir þessu vil ég vísa til nál. og þeirra orða, sem ég sagði hér áðan í sambandi við frv. um skemmtanaskattinn. Við teljum mjög óheppilegt að hækka verð aðgöngumiða að svo ódýrum og fræðandi skemmtunum sem kvikmyndasýningar eru, miðað við ýmsar aðrar skemmtanir, sem völ er á.

Þessum tekjum menningarsjóðs er gert ráð fyrir að varið verði til vísindasjóðs að mestu leyti, eða a.m.k. 800 þús. kr., og í sambandi við það frv. leggjum við fram aðrar till. til fjáröflunar, þegar það verður tekið fyrir.

Ég hef að svo stöddu ekki fleiri orð um þetta frv., en bið hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt., sem er skrifleg og of seint fram komin.