21.05.1957
Efri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. meiri hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ), sem ekki gat verið viðstaddur afgreiðslu málsins í hv. menntmn. vegna fjarveru úr bænum.

Ég sagði það í gær við framsögu þessa máls þá, að samkvæmt 1. gr. þessa frv. væri ætlazt til, að undanþágur kæmu ekki til greina hér eftir, aðrar en þær, sem getur í þessari grein. Það kann að vera, að hann hafi misskilið það þannig, að þær kæmu engar til greina, en það var ekki svo, heldur á upptalningin í 1. gr. að vera tæmandi um þær undanþágar, sem hér eftir koma til greina. En eins og lögin eru núna, þá er það svo um undanþágurnar í 3. gr. laga nr. 56 frá 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, b-lið, með leyfi hæstv. forseta:

„Skemmtanir, sem haldnar eru í góðgerðaskyni eða til styrktar málefna, er miða að almenningsheill.“

Þetta er svo almennt orðalag, svo rúmt, að það er engin leið að gera sér grein fyrir því fyrir fram, hversu margs kona: félög geta komið til greina með að njóta þessarar undanþágu, og út af þessu hefur orðið ágreiningur, eins og segir í grg. með þessu frv., og fallið um það hæstaréttardómur.

Hér á upptalning undanþáganna því að vera nokkurn veginn tæmandi og reyndar alveg tæmandi samkvæmt þessum e-lið og niðurlagsákvæðum greinarinnar. Aftur á móti felast í þessari gr. þau ákvæði, að þeir, sem njóta nú þessara undanþága, eiga að njóta þeirra áfram.

Þá er hv. 2. þm. Árn. mótfallinn því, að heimild sé fyrir hæstv. ráðh. að undanþiggja skemmtanaskatti eitt kvikmyndahús í öðrum kaupstöðum, eins og segir í e-lið, og um þetta flytja þeir brtt. hv. þm. N-Ísf. (SB) og hv. þm. V-Sk. (JK).

Ég skal ekkert fjölyrða um þetta atriði, hvort réttmætt er eða ekki að fella þetta niður. Ef til slíks kæmi, að kvikmyndahús yrði reist og rekið í einhverjum hinna kaupstaðanna í þeim tilgangi, sem segir í þessari gr., að tekjum þess sé varið til menningar- eða mannúðarmála, þá er auðvitað hugsanlegt að taka það inn með lagabreytingu, en afnema þetta nú. En ekki sé ég neinn ávinning í því út af fyrir sig. Hitt get ég ekki fallizt á, að það geti komið til greina, að nokkur hugsi sér að fara að reisa kvikmyndahús aðeins í þessum tilgangi. Það er meira fyrirtæki en svo, að menn geri það aðeins til þess að njóta undanþágu á skemmtanaskatti.

Þá er hv. þm. andvígur 4. gr. frv. og flytur um það skriflega brtt , að hún sé felld niður, en þar er ætlazt til að leggja á nýjan skemmtanaskatt, sem nemur 1 kr. á hvern seldan aðgöngumiða að kvikmyndahússýningum og 2 kr. á hvern seldan aðgöngumiða að dansleikjum. Ég get ómögulega fallizt á þessi sjónarmið, að þetta megi ekki gera, vegna þess að þetta ofþyngi, ja, væntanlega þeim, sem kaupa þessa aðgöngumiða og njóta þessara skemmtana. Ég er nógu kunnugur því, hverju fólk eyðir í kvikmyndahús og á dansleikjum, til þess að álíta, að þetta gjald sé hreinasti hégómi af því, sem fer í súginn við slíkar skemmtanir fólks. Þegar á þetta er litið annars vegar, en hins vegar á hitt, hversu mikilsvert það er fyrir menningarsjóð að fá þann mikla tekjustofn, sem af þessu leiðir, a.m.k. um 2 millj. kr. á ári, og þegar litið er á þan verkefni, sem menningarsjóður á að leysa af hendi, þá get ég ekki skoðað huga minn um að mæla með því, að þessi skattur sé á lagður. Jafnvel þó að sveitarfélög þurfi að skattleggja þessar samkomur í sína þágu, þá ætti þetta ekki að vera því til fyrirstöðu, að þau gerðu það. Þetta er ekki svo gífurlegt gjald, sem þarna er ætlazt til að leggja á þessar skemmtanir.