21.05.1957
Efri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans við fsp. minni. Af þeim kemur í ljós, að hann hefur ekki einungis haft eina nefnd sér til ráðuneytis um undirbúning þessa máls, heldur tvær, þannig að ætla mætti nú, að vel væri vandað til undirbúnings þessa frv. og viturleg ráð ráðin.

Það eru fyrst og fremst tvö atriði í sambandi við ræðu hans, sem ég vildi taka lauslega til athugunar.

Hæstv. ráðh. mælti mjög gegn brtt. minni og hv. þm. V-Sk. (JK) um að fella niður hina nýju og viðtæku heimild til að veita kvikmyndahúsum í öllum kaupstöðum landsins undanþágu frá skemmtanaskatti. Hann sagði réttilega, að þar væri um tvær leiðir að ræða, annaðhvort að veita undanþágu til kvikmyndahúsa í öllum kaupstöðum landsins eða engum. Og hann var ekki í neinum vafa um það, hvora leiðina hann vildi velja, nefnilega þá, sem kemur fram í frv., að undanþágan eigi að ná til allra kaupstaða. Hann benti á það, að hér í Reykjavík hefðu þrjú kvikmyndahús þegar slíka undanþágu, á Akureyri eitt, á Akranesi eitt, í Hafnarfirði eitt og umsóknir lægju fyrir frá Vestmannaeyjakaupstað og Ísafjarðarkaupstað.

Ég held nú, að þessi upptalning hæstv. ráðh. sýni það gleggst og sanni, hversu rétt ég hef fyrir mér í því, þegar ég benti á það í gær, að þetta hljóti óhjákvæmilega að þýða að draga mjög úr tekjum af skemmtanaskatti til þeirra aðila, sem hans eiga fyrst og fremst að njóta samkv. þessu frv.: félagsheimilasjóðs og rekstrarsjóðs þjóðieikhússins. Dettur hæstv. ráðh. í hug, að ekki muni draga úr tekjum af skemmtanaskatti, eftir að hver einasti kaupstaður landsins rekur kvikmyndahús með undanþágu frá greiðslu skemmtanaskatts?

Það liggur svo í augum uppi, að fram hjá þeirri staðreynd verður engan veginn gengið.

Ég er þess vegna ekki heldur í neinum vafa, hvora leiðina ég vel. Ég vil þessum tveimur stofnunum, sem hér er um að ræða, félagsheimilasjóði og rekstrarsjóði þjóðleikhússins, vel. Ég vil, að gagnvart undanþágunni sitji allir við sama borð, engin undanþága sé veitt frá greiðslu skemmtanaskatts. Og þessi stefna mín er ekki orðin til í gær eða dag til þess að hrella hæstv. menntmrh. Það vill svo til, að ég flutti fyrir hvorki meira né minna en 8 árum frv. um þetta mál, og það er þess vegna algerlega rangt hjá hæstv. ráðh., að engin till. hafi komið fram um að svipta þá aðila undanþágu, sem hennar njóta nú. Ég flutti ásamt hv. 1. þm. Árn. (JörB) frv. á þinginu 1948–49 um að fella þessa undanþágu niður, og með leyfi hæstv. forseta, þá segir svo í 1. gr. þessa frv.:

„Aftan við b-lið 3. gr. laga um skemmtanaskatt og þjóðleikhús bætist nýr málsliður: „Undanþága þessi tekur þó ekki til kvikmyndasýninga.“

Þetta er nánar rætt í grg., sem fylgdi frv., og með leyfi hæstv. forseta, segir þar á þessa leið:

„Samkv. gildandi lögum um skemmtanaskatt eru allmörg kvikmyndahús í landinu undanþegin greiðslu þessa skatts. Munu vera í þeim kvikmyndahúsum, sem nú njóta þessara fríðinda, rúmlega 2000 sæti. Það er því auðsætt, að þeir aðilar, sem skemmtanaskatturinn rennur til, en það eru félagsheimilasjóður, þjóðieikhússjóður og lestrarfélög og kennslukvikmyndir, tapa miklu fé á þessum undanþágum frá greiðslu skemmtanaskatts. Má gera ráð fyrir, að þetta tap hafi á s.l. ári numið allt að 1 millj. kr., en verður töluvert hærra á þessu ári, eftir að aðgangseyrir að kvikmyndasýningum hefur hækkað verulega.“

Og siðan segir í niðurlagi grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Með frv. þessu er þess vegna lagt til, að allur kvikmyndahúsarekstur í landinu verði skyldaður til þess að greiða skemmtanaskatt. Með samþykkt þess, ef að lögum yrði, væri óviðurkvæmilegt misrétti afnumið, en miklu nauðsynjamáli veitt aukin liðsemd.“

Þetta var till. mín og hv. þáverandi 1. þm. Árn. (JörB) fyrir 8–9 árum. Því miður náði hún ekki fram að ganga. Þeir menn, sem undanþágurnar höfðu fengið, stóðu fast á verði um þær og gera það enn í dag.

En ég vil spyrja: Hvaða ástæða er til þess sérstaklega að veita opinberum aðilum eða félagasamtökum einstaklinga undanþágu frá greiðslu skemmtanaskatts af kvikmyndahúsarekstri? Hefur ekki kvikmyndahúsarekstur verið talinn einn ábatasamasti rekstur í þessu landi? Hefur það ekki verið talinn rakinn gróðavegur að eiga kvikmyndahús og reka það í kaupstöðum landsins? Ég veit ekki betur. Að minnsta kosti hefur það verið talið svo, þegar einstaklingar hafa átt kvikmyndahúsin og annazt rekstur þeirra.

Nú bregður allt í einu svo við, að þeir opinberir aðilar, sem ráðizt hafa í kvikmyndahúsarekstur, koma barmandi sér til löggjafarvaldsins og vilja láta líta út, að þeir séu einhverjir gustukamenn, sem umfram allt verði að fá undanþágu frá löglegum skattaálögum, þ.e.a.s. skemmtanaskattinum í þessu tilfelli. Ég fæ ekki séð, hvaða skynsemi og rök liggja til grundvallar þessari undanþágu. Ég álít, að það væri þá miklu nær sanni, að ýmiss konar gagnlegur rekstur í kaupstöðum landsins fengi undanþágu frá greiðslu einhverra annarra skatta, sem hafa mikil áhrif á rekstur fyrirtækjanna og heildarafkomu fólksins í byggðarlögunum.

Mín skoðun er þess vegna óbreytt á því, að þessar undanþágur til handa opinberum aðilum, sem kvikmyndahúsarekstur annast, séu mjög ósanngjarnar og óskynsamlegar. Og ég fæ heldur ekki betur séð en að hæstv. ráðh. stefni rakleiðis að því að drepa félagsheimilasjóð og stórlama rekstrarsjóð þjóðleikhússins.

Hæstv. ráðh. segir, að hin almenna aukning skattsins vegi upp á móti undanþágunni. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvaðan á þessi almenna aukning skattsins að koma? Engin ákvæði eru um það í frv., að skatturinn eigi að hækka. Hvaðan á þá að koma almenn aukning til þess að vega upp á móti undanþágunni? Af því að fólki fjölgar í landinu ef til vill með tímanum. Ekki aukast tekjurnar af skemmtanaskatti við það, að nýr skattur er lagður á við hliðina á þær skemmtanir, sem eru mest sóttar og almennastar eru. Frekar mætti ætla, að heldur drægi úr aðsókn að kvikmyndahúsum við það, að nýr skattur væri á lagður og verð aðgöngumiða hækkar. Ég skal þó ekki gera mikið úr þeirri fækkun, því að ég reikna ekki með, að mjög mikið muni draga úr aðsókn, þó að aðgöngumiðar að kvikmyndahúsum séu hækkaðir um eina krónu.

Að öllu þessu athuguðu, skora ég á hv. þd. að samþykkja þá brtt., sem ég ber hér fram ásamt hv. þm. V-Sk. Okkur hefði að sjálfsögðu verið langsamlega næst skapi að leggja til, að e-liðurinn yrði allur felldur niður, því að auðvitað er ekkert réttlæti í því, að tvö bæjarfélög, Akranes og Hafnarfjörður, fái að halda þessari undanþágu áfram né heldur að þau kvikmyndahús hér í Reykjavík, sem hafa þessa undanþágu, njóti hennar og öðrum svo synjað um hana. Það ætti að fella þetta allt niður. Við vildum hins vegar koma í veg fyrir þá skemmd, sem verið er að gera nýja með þessu frv.

Ég kem þá að hinu atriðinu, sem ég ætlaði að svara í ræðu hæstv. ráðh. og ég ræddi einnig nokkuð um í ræðu minni hér í gær. Það er um 4. gr. frv.

Hæstv. ráðh. sagði, að ef 4. gr. yrði felld, þá væri kippt fótunum undan eflingu menningarsjóðs. Ég vildi nú spyrja hæstv. ráðh., sem ætlar sér að fá 2 millj. kr. í tekjur með þessum nýja skatti, sem 4. gr. ræðir um: Hvers vegna telur hann sig endilega þurfa að láta leggja á nýjan skatt til þess að koma fram þessum lofsverða stuðningi við menningarsjóð og hinn nýja vísindasjóð? Hefur ekki núverandi hæstv. ríkisstj. aflað sér hvorki meira né minna en 650 millj. kr. tekna á 2. gr. fjárl. af sköttum og tollum? Mundi það nú hafa verið talin goðgá, að hæstv. menntmrh., sem er áhugamaður um eflingu menningarmála, eins og m.a. sést á þessum frv., hefði sagt við afgreiðslu fjárl.: Ég óska þess að fá 2 millj. kr. úr þessum stóra potti. Það er ekki nema einn smákeppur, og hvað munar um eitt smáiður í sláturtíðinni til þess að efla menningarsjóðinn, sem er mitt hjartabarn? — Ég hefði álitið, að hæstv. ráðh. hefði tekið miklu raunhæfar á þessu máli, ef hann hefði gert þetta, heldur en að fara nú enn í þinglok, svona eins og til þess að hafa dálitla sumargjöf líka handa blessaðri þjóðinni sinni, sem vantar meiri menningu, að bera fram frv. um nýjan skatt, sem á að koma á ódýrustu skemmtanir alþýðu manna í landinu.

Ég held þess vegna, að það sé ekki hægt fyrir hæstv. ráðh. að stilla dæminu þannig upp, að þeir, sem greiði atkvæði á móti þessum nýja skatti, greiði atkvæði á móti menningunni, in casu menningarsjóði og vísindasjóði.

Ég bendi hæstv. ráðh. á þetta, og ég er reiðubúinn til þess, og ég býst við, að hv. 2. þm. Árn., frsm. minni hl., sem flutt hefur hér brtt. um að fella greinina niður, sé reiðubúinn til þess að vinna með hæstv. ráðh. í að útvega honum fé til eflingar menningarsjóðs að öðrum leiðum en þeim, sem farnar eru í 4. gr. frv., að leggja nýjan skatt á ódýrustu og vinsælustu skemmtanir alþýðu manna í landinu.

Ég mun þess vegna greiða atkvæði brtt. hv. 2. þm. Árn. um að fella greinina niður, en fyrst og fremst hafa það bak við eyrað, að ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefist ekki upp við nýsköpun sína í sambandi við menningarsjóð og vísindasjóð þrátt fyrir það. Hann hefur áreiðanlega það góða samvinnu við hæstv. fjmrh., að honum ætti að vera auðvelt að næla einn kepp upp úr stóra sánum, þar sem 650 millj. kr. fljóta af tollum og sköttum, sem þessi þjóð á að greiða á þessu ári.

Ég vil svo aðeins endurtaka það, sem ég sagði hér í gær og hæstv. ráðh. hefur ef til vill ekki heyrt hermt af mínum aths. við frv. þá, að ég varð hálfóánægður með það fyrir hönd ríkisútvarpsins, að ráð er gert fyrir því framvegis að svipta það hagnaði af viðtækjaverzlun ríkisins, sem stofnunin var svipt með gersamlega óviðurkvæmilegum hætti árið 1950. Ég segi það ekki vegna þess, að ég hafi ekki stutt þann hæstv. menntmrh., sem beitti sér fyrir því. En það urðu mikil átök á því ári um skemmtanaskattinn og skiptingu hans, og eftir að Nd. hafði fellt ákveðna till. frá ríkisstj. um skiptinguna, varð niðurstaðan sú, að mig minnir á næturfundi hér í hv. Ed., að samþ. var fyrirvaralaust og án þess að hafa minnsta samráð við ríkisútvarpið að svipta það tekjunum af viðtækjaverzluninni, sem það hafði haft.

Ég minntist á það hér í gær, að ríkisútvarpið, sem er ein áhrifamesta og vinsælasta menningarstofnun þjóðarinnar, er í slíku húsnæðishraki, að gersamlega óviðunandi er. Það háir starfsemi þessarar stofnunar geysilega og bitnar á útvarpshlustendum á marga vegu, hindrar nauðsynlega fjölbreytni og þróun í starfsemi stofnunarinnar.

Samkvæmt þessu frv. er lagt til, að útvarpið verði svipt þessum tekjustofni áfram og nú allt fram til ársins 1961. Að vísu er lagt til, að hagnaðurinn af viðtækjaverzluninni verði látinn renna til ágætra stofnana eins og þjóðleikhússins og sinfóníuhljómsveitarinnar, og ég vil ekki snúast beint gegn þessu ákvæði. Ég vil ekki segja, að það eigi að fella niður þetta ákvæði til bráðabirgða í frv. En ég bendi hæstv. ráðh. á það, að mér hefði fundizt, að það hefði a.m.k. átt að hafa einhver samráð við ríkisútvarpið, áður en sú ákvörðun var tekin, sem felst í þessu ákvæði til bráðabirgða. Það hefði ekki verið nema viðeigandi að gera það, vegna þess að ríkisútvarpið átti á sínum tíma að njóta hagnaðarins af viðtækjaverzluninni, og það er ekkert eðlilegra en að það geri það.

Hjá útvarpinu eru fjölmörg verkefni fram undan nú, eins og t.d. að bæta stöðvarnar, —það er kannske nærtækasta verkefnið, — þannig að Útvarp Reykjavík heyrist um land allt. Við vitum til dæmis, að um mikinn hluta Austurlands heyrist ákaflega illa í íslenzka ríkisútvarpinu. Þetta er eitt af því nærtækasta, sem þarf að gera.

Annað ákaflega merkilegt verkefni, að vísu ekki mjög fjárfrekt, er bygging sjónvarpsstöðvar, sem ég veit að hæstv. menntmrh. hefur mikinn áhuga á og hefur sjálfur haft frammi tillögur um hér á hv. Alþingi.

Ég legg sem sagt ekki til, að þetta ákvæði til bráðabirgða verði fellt niður, því að ég veit, að sinfóníuhljómsveitin og byggingarsjóður þjóðleikhússins þurfa á þessu að halda. En ég vil aðeins, að það komi fram, að hér er mjög ómaklega að ríkisútvarpinu vegið og það hefur á undanförnum árum háð mjög starfsemi þess, að það skuli einmitt hafa verið svipt þessum lögmætu tekjum sínum.