22.05.1957
Efri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti ég ásamt hv. þm. V-Sk. (JK) brtt. um, að 2. málsl. e-liðar 1. gr. félli niður, en í þessari málsgr. er ráðh. heimilað að undanþiggja skemmtanaskatti kvikmyndasýningar eins kvikmyndahúss, er rekið sé of opinberum aðila, í hverjum hinna annarra kaupstaða, enda sé tekjum af þeim varið til menningar- og mannúðarmála.

Ég benti á það, að ef þessi viðtæka undanþáguheimild yrði samþ., hlyti afleiðingin óhjákvæmilega að verða sú, að tekjur félagsheimilasjóðs og rekstrarsjóðs þjóðleikhússins af skemmtanaskatti drægjust verulega saman. Eftir að þessi heimild væri komin í lög, hlytu að verða sett upp kvikmyndahús, rekin af opinberum aðila, í öllum kaupstöðum landsins.

Gegn þessu hefur ekki verið mælt af hálfu þess hæstv. ráðh., sem þetta mál flytur, en engu að síður snerist hæstv. ráðh. og stuðningsflokkar hans hér í hv. þd. gegn brtt. minni og hv. þm. V-Sk., sem þar af leiðandi var felld.

Ég fæ ekki betur séð en að með þessu sé vitandi vits verið að stefna að því að eyðileggja félagsheimilasjóð og valda rekstrarsjóði þjóðleikhússins tilsvarandi búsifjum. Ég álít, að hér sé um slíkt gáleysi að ræða, að furðu sæti, ekki sízt þegar því hefur verið lýst yfir af hálfu hæstv. menntmrh., að honum gangi gott eitt til með flutningi þessa frv. Ég fæ ekki betur séð en að hann sé að taka með annarri hendinni það, sem hann gefur með hinni, og það, sem hann hefur þótzt gefa, er till. um, að skemmtanaskatturinn skuli skiptast jafnt á milli rekstrarsjóðs þjóðleikhússins og félagsheimilasjóðs.

Þar sem fyrrgreind brtt. mín og hv. þm. V-Sk. virðist ekki hafa fallið í nægilega frjóan jarðveg hjá hv. stuðningsmönnum stjórnarinnar, freistum við þess nú að flytja brtt. um, að allur e-liðurinn falli niður. Ástæða þess er ekki sízt sú, að okkur barst í atkvgr. óvæntur liðsauki, þar sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) lýsti því yfir, að hann mundi greiða atkvæði með brtt., sem gengi í þá átt.

Ég vil aðeins taka það fram, að ég hafði ekki árætt að flytja svo róttæka brtt. af ótta við það, að hún mundi eiga erfiðara uppdráttar en sú brtt., sem við fluttum. En það er mikið til í því hjá hv. 1. þm. N-M., að það er miklu hreinna og beinna að fella undanþágu frá greiðslu skemmtanaskatts af kvikmyndasýningum á vegum opinberra aðila gersamlega niður. Þess vegna höfum við nú flutt brtt. um þetta efni, sem ég vænti, að nái fram að ganga.

Að öðru leyti vil ég svo segja það, að ég álít, að það sé illa farið, að hæstv. menntmrh. skuli ekki hafa fallizt á þau rök, sem bent var á, bæði af mér og hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ), að það sé ekki skynsamlegt að vera að leggja nýjan skatt á ódýrustu og algengustu skemmtanir almennings. Skynsamlegra hefði tvímælalaust verið, að hæstv. ráðh., sem hefur áhuga fyrir eflingu menningarsjóðs, hefði beitt sér fyrir því að fiska, eins og ég sagði, einn kepp upp úr þeim stóra sá, sem hæstv. ríkisstj. situr við og safnar í sköttum og álögum á landslýðinn.

Ef brtt. mín verður ekki samþ. við þetta frv. nú og eftir að 4. gr. frv. stendur áfram, þá sé ég mér ekki fært að greiða atkvæði með frv. út úr þessari hv. þd., enda þótt ég sé samþykkur ákvæðum 2. gr. þess um, að skemmtanaskattinum skuli skipt til helminga á milli félagsheimilasjóðs og rekstrarsjóðs þjóðleikhússins.

Ég vil svo endurtaka áskorun mína til hv. þd. um að samþ. þá sanngjörnu brtt., sem hér liggur fyrir og fyrst og fremst hefur þann tilgang að bjarga hagsmunum tveggja þýðingarmikilla menningarstofnana, þ.e.a.s. félagsheimilasjóðsins og rekstrarsjóðs þjóðleikhússins.