28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Rúmlega 30 ár hefur verið innheimtur skemmtanaskattur samkvæmt lögum um það efni. Tekjum af þeim skatti hefur alla tíð verið varið til að standa straum af menningarmálum. Lengst af fóru þær tekjur til þess að standa straum af byggingu þjóðieikhússins. En á þingi 1947 var talið, að séð væri fyrir byggingarkostnaði þjóðleikhússins, og með lögum, sem þá voru sett um félagsheimili og fleira, var ákveðið að skipta tekjum þeim, sem af skemmtanaskattinum renna, til rekstrar þjóðleikhússins, í félagsheimilasjóð, og nokkur hluti þeirra tekna var lagður til lestrarfélaga og til þess að kaupa fyrir kennslukvikmyndir.

Skv. þessu frv. er tekjustofninn hinn sami og verið hefur að undanförnu að öðru leyti en því, að í 4. gr. þessa frv. felst það nýmæli, að innheimta skuli 1 kr. gjald af hverjum seldum aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og 2 kr. gjald af hverjum aðgöngumiða að dansleik á þeim stöðum á landinu, þar sem íbúar eru 1500 eða fleiri.

Þeim tekjum, sem þetta gjald skilar, á síðan að verja til menningarmála, eins og nánar er gerð grein fyrir í frv., sem rædd verða hér á eftir og þessu frv. fylgja.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að tekjum af skemmtanaskatti, þegar undan eru skilin ákvæðin í 4. gr. frv., verði varið að hálfu til þess að efla rekstrarsjóð þjóðleikhússins, og að hálfu eiga þær að renna í félagsheimilasjóð.

Með þessum ákvæðum er aftur náð því marki, sem sett var í l. 1947, þegar sett voru lög um félagsheimilasjóð og ákveðið, að helmingur af skemmtanaskattinum rynni í þann sjóð. En undanfarin ár varð að gera breytingu á því, vegna þess að skuldir af stofnkostnaði þjóðleikhússins reyndust meiri en áætlað var, þegar l. um félagsheimilasjóð voru sett, og hefur því orðið að skerða að nokkru þær tekjur, sem félagsheimilasjóði voru í upphafi ætlaðar.

Með bráðabirgðaákvæði þessa frv. er tekið fram, að 3/5 hlutum af rekstrarhagnaði viðtækjaverzlunar skuli til ársins 1961 vera varið til að greiða þær skuldir, sem eftir standa af stofnkostnaði þjóðleikhússins, en ríkissjóður hefur, eins og kunnugt er, tekið ábyrgð á því, að þær skuldir verði greiddar. En hinum hluta af hagnaði viðtækjaverzlunarinnar verður varið til styrktar sinfóníuhljómsveitinni.

Menntmn. hefur fjallað um þetta frv. og ekki orðið alls kostar ásátt um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir, en minni hl. n. hefur skilað sérstöku áliti, og kemur þar fram, að hann vill láta breyta frv. allmikið frá því, sem það er nú.