28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

176. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég er í öllum höfuðatriðum samþykkur frv. því um skemmtanaskatt o.fl., sem hér er til umr. Þó verð ég að undanskilja eitt atriði, en það er bráðabirgðaákvæðið um hagnað viðtækjaverzlunar ríkisins, og vil ég leyfa mér að fara um það nokkrum orðum.

Samkvæmt þessu ákvæði á hagnaðurinn af innflutningi og sölu útvarpstækja næstu 5 ár að renna að hlutum til greiðslu á byggingarskuldum þjóðleikhússins, en að 2/5 hlutum til rekstrar sinfóníuhljómsveitarinnar. Er þetta raunar ekki ný ráðstöfun, því að tekjuafgangur viðtækjaverzlunarinnar hefur s.l. 6 ár runnið til þess að greiða þjóðieikhúsbygginguna.

Þegar ríkisútvarpið hóf starfsemi sína fyrir röskum aldarfjórðungi, voru því ætlaðir tveir tekjustofnar til að standa undir rekstri og nauðsynlegri uppbyggingu stofnunarinnar Þetta voru afnotagjöld hlustenda og hagnaður af innflutningi og sölu útvarpsviðtækja. Þessir peningar voru og eru beinlínis teknir af útvarpshlustendum sjálfum, og er því ekki aðeins eðlilegt, að þeir renni beint til starfsemi útvarpsins, heldur óeðlilegt að nota þá til nokkurs annars. Samt fór svo, að annar þessara tekjustofna var tekinn af ríkisútvarpinu. S.l. 6 ár hefur hagnaðurinn af sölu útvarpstækja til landsmanna verið notaður til að greiða byggingarskuldir þjóðleikhússins, og hafa á þann hátt verið greiddar 5 millj. 658 þús. kr. frá viðtækjaverzluninni. M.ö.o.: 5.6 millj. kr. hafa verið teknar af útvarpshlustendum til þess að greiða fyrir þjóðleikhúsbyggingu. Ástæðan til þess, að horfið var inn á þessa áeðlilegu braut, var sú, að rekstur útvarpsins gekk sæmilega og það hefur verið hægt að reka það við þær aðstæður, sem því eru nú búnar, án þessa fjár. Hins vegar er sú aðbúð, sem útvarpsstarfsemin býr við, hörmulega léleg og langt fyrir neðan það, sem sómasamlegt er af menningarþjóð að bjóða slíkri stofnun.

Á sama tíma sem 5.6 millj. af fé útvarpshlustenda hafa verið teknar til að byggja leikhús, hefur útvarpinu sjálfu ár eftir ár verið neitað um leyfi til að byggja yfir sjálft sig, þótt húsnæðisástand þess sé fyrir neðan allar hellur. Þannig hefur útvarpinu, sem flytur fréttir, fróðleik og skemmtun inn á hvert heimili í landinu í strjálbýli jafnt sem þéttbýli, verið bannað að byggja yfir sjálft sig. Síðan hafa peningar þess verið teknir af því til þess að byggja yfir aðra stofnun.

Menn kunna að halda, að ég ýki húsnæðisvandræði útvarpsins, en svo er vissulega ekki. Halda hv. alþm., sem sjálfsagt eru flestir útvarpshlustendur, að það sé gott húsnæði fyrir útvarpsstöð, þar sem flugvéladynur heyrist um land allt í útvarpinu, þegar flugvél flýgur yfir miðbæinn í Reykjavík? Halda menn, að það sé viðunandi útvarpshúsnæði, þar sem hamarshögg blandast fræðilegum erindum og ýmiss konar venjulegur húshávaði heyrist í upplestri á listaverkum? Halda menn, að það sé viðunandi húsnæði, þegar útvarpsþulirnir, sem tala til allrar þjóðarinnar á hverjum degi, hafa neyðzt til þess að kæra til borgarlæknis yfir því húsnæði, sem þeir verða að vinna í?

Ég vona, að ekki þurfi frekari sannana en þessi fáu dæmi til að sýna mönnum fram á, að ríkisútvarpið þarf nauðsynlega á nýju og betra húsnæði að halda. Teikningar af framtíðarbyggingum hafa verið tilbúnar í 10 ár, umsóknir hafa verið sendar ár eftir ár, en alltaf neitað, og svo eru peningar útvarpshlustenda, sem eiga að bæta úr þessu ástandi, teknir og notaðir til að greiða byggingarskuldir annarra stofnana.

Ég hef hér nefnt fyrst og fremst húsnæðisvandræði útvarpsins í sambandi við þetta fé, en það eru fleiri verkefni, sem bíða úrlausnar bjá því fyrirtæki. Eitt hinna alvarlegustu er sú staðreynd, að hlustendur í heilum landsfjórðungi heyra mjög illa til útvarpsins, og það er í raun og veru gersamlega óviðunandi. Það hefur margt verið reynt til að bæta úr þessu með því fé, sem fyrir hendi hefur verið, en engan veginn tekizt að leysa vandann. Mig grunar, að fyrir þá peninga, sem teknir hafa verið af viðtækjaverzluninni síðustu 6 ár, hefði mátt reisa eina mjög sterka útvarpsstöð t.d. á Hornafirði og ná þannig örugglega inn í alla afkima Austfjarða.

Frv. það, sem hér er til umr., er stjórnarfrv., og ég geri mér ekki vonir um, að ákvæðum þess um ráðstöfun á 5–8 millj. kr. frá útvarpshlustendum til þjóðleikhúss og sinfóníuhljómsveitar verði breytt. Hins vegar flyt ég brtt. þess efnis, að allur ágóði af sölu sjónvarpstækja, ef innflutningur þeirra hefst á umræddu árabili, skuli renna til undirbúnings og rekstrar sjónvarps hér á landi. Það er eins öruggt og gangur sólar, að sjónvarp kemur til Íslands. Þjóð, sem hefur aflað sér svo margra ísskápa og lúxusbíla, sem á þrýstiloftsflugvélar og leggur þráðlaust símasamband um land sitt, hlýtur að tileinka sér einnig þá tækni, sem sjónvarpið er. Spurningin er aðeins, hvenær það eigi að hefjast. Sjónvarpstækninni fleygir það fram, að þeir hlutir, sem erfiðir voru og dýrir í fyrra, eru auðveldir og tiltölulega ódýrir í ár. Það væri t.d. létt verk að koma upp sjónvarpsstöð ágætri og búa hana nauðsynlegum tækjum fyrir þær 5.6 millj., sem teknar hafa verið af útvarpshlustendum undanfarin 6 ár. Byrjunarathuganir fyrir sjónvarp hér á landi eru nú hafnar, og mér virðist sjálfsagt, að það verði, þegar þar að kemur, byggt upp fjárhagslega á sama hátt og ríkisútvarpið var á sínum tíma, með tekjum af sölu viðtækja og afnotagjöldum áhorfenda.

Vænti ég þess, að hv. alþm. sýni þessu sérstæða framtíðarmáli fullan skilning nú, er það knýr dyra hjá þeim, ekki sízt af því, að sjónvarpið biður ekki um grænan eyri frá neinum, það óskar aðeins eftir því að fá að nota sitt eigið fé í eigin þarfir. Svo lítilli bón er varla hægt að neita, þegar útvarpið gæti litið á hana sem nokkra sárabót fyrir fjárhagslega meðferð undanfarin ár.

Ég vil að lokum taka það fram, að þessar umkvartanir mínar á meðferð útvarpsins eru alls ekki sprottnar af neinum kala eða illvilja til þeirra stofnana, sem hafa notið og eiga að njóta milljónanna úr vösum útvarpshlustenda. Forráðamenn útvarpsins eru allir hinir vinsamlegustu í garð þjóðleikhúss og sinfóníuhljómsveitar og samþykkja árlega stórupphæðir til útvarps á leikritum þjóðleikhússins og tónleikum hljómsveitarinnar. Þrátt fyrir þetta verðum við að setja hag þeirrar stofnunar, sem okkur hefur verið trúað fyrir, ofar öðrum áhugamálum og hugsum fyrst og fremst um skyldu okkar við útvarpshlustendur í landinu, húsbændur okkar. Má hver lá okkur það, sem vill, að við skulum kvarta, þegar útvarpið og stofnanir þess eru notaðar sem mjólkurkýr fyrir aðrar stofnanir, á meðan slík verkefni eru óleyst hjá útvarpinu sjálfu sem húsnæðisvandræðin og hlustunarskilyrðin á Austurlandi, hið nýja örbylgjuútvarp og jafnvel sitt hvað við dagskrána sjálfa.

Ég vil að lokum ítreka áskorun mína til þm. um að velta útvarpinu þá sárabót að samþ. brtt. mína um sjónvarpið á þskj. 651.