07.02.1957
Sameinað þing: 26. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

Varamenn taka þingsæti

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Eins og till. þessi er orðuð, er gert ráð fyrir því, að Alþingi samþ. að taka gilda kosningu Eggerts Þorsteinssonar. Ég tel, að hér sé mjög óvenjulega að farið, það sé ekki hægt fyrir Alþingi að samþ. á þann hátt að taka gilda kosningu alþm., án þess að fyrir liggi kjörbréf. Hins vegar er ég á þeirri skoðun, að kjörstjórninni í Reykjavík beri skylda til að gefa út kjörbréf, og ég tel, eins og mál þetta ber að, að það sé eðlilegt, að gildandi lögum sé fullnægt á þann hátt, að Alþfl. fái varamann, og að það sé eðlilegt í þessu tilfelli að gefa út kjörbréf handa fjórða manni á lista flokksins, Eggert Þorsteinssyni. Mín afstaða mundi miðast þannig við kjörbréfið, þegar það lægi hér fyrir, en ég segi nei við þessari till., eins og hún liggur hér fyrir.