17.05.1957
Efri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

175. mál, vísindasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Framfarir í vísindum hafa verið meginundirstaða hinna öru framfara í atvinnu- og félagsmálum síðustu áratugina. Um gervallan heim kappkosta bæði ríkisvald og aðrir, sem til þess hafa bolmagn, að búa svo að vísindastarfsemi og vísindamönnum, að hægt sé a.m.k. að fylgjast með helztu nýjungum í atvinnulegum og menningarlegum efnum.

Íslendingar geta ekki fremur en aðrar þjóðir skellt skolleyrum við þessari þróun, sem hefur verið og er að gerast í heiminum. Engin þjóð getur gert sér vonir um að vera hluttakandi í þeim almennu framförum, sem vísindi nútímans eru að leggja grundvöll að, nema hún eigi á að skipa vísindamönnum, er kunna nokkur skil á þeim atriðum, sem framþróunin grundvallast á. Hinum smærri þjóðum er engu siður brýn nauðsyn að eiga vísindamenn, sem geta átt forgöngu um hagnýtingu hinnar nýju þekkingar.

Hér á landi háir fjárskortur vísindastarfsemi svo mjög, að þess eru allmörg dæmi, að ungir og efnilegir vísindamenn hafi kosið að hverfa af landi brott sökum erfiðra starfsskilyrða hér og skorts á tækjum og aðstoð. Sannleikurinn er sá, að hér á landi er mönnum enn naumast orðið nægilega ljóst gildi nútímavísinda fyrir menningu okkar og sjálfstæði.

Þegar háskólinn var stofnaður á sínum tíma, skapaðist hér nokkur aðstaða til vísindastarfsemi, og hana hefur hið opinbera smám saman verið að bæta. En á allra síðustu árum og þó sérstaklega á síðasta einum eða tveimur áratugum hafa orðið svo örar framfarir, einkum á sviði náttúruvísinda og tæknivísinda, að brýna nauðsyn ber til þess að tryggja, að þær framfarir, sem á þeim vísindum munu grundvallast, fari ekki að meira eða minna leyti fram hjá okkur Íslendingum.

Verkefnin, sem bíða úrlausnar íslenzkra vísindamanna, eru óþrjótandi. Auðæfi landsins eru mjög margvísleg, en flest torsótt. Vísindalegar rannsóknir á náttúru landsins og hafsins umhverfis það sem og tæknilegar athuganir á hentugum vinnslu- og nýtingaraðferðum eru bæði vandasöm og umfangsmikil verkefni, sem verða ekki leyst til nokkurrar hlítar nema með ötulu starfi úrvalsmanna á löngum tíma. Vísindalegar rannsóknir eru enn á frumstigi hér á landi, og ber brýna nauðsyn til þess að bæta skilyrði þeirra. Því frv., sem hér liggur fyrir, er ætlað að bæta úr brýnustu þörf á þessu sviði.

Vísindasjóðir hafa á síðari árum verið stofnaðir í fjölmörgum löndum, og framlag bæði stórra þjóða og smárra til vísindarannsókna hefur farið mjög vaxandi með hverju ári undanfarið. Það er talið, að Bandaríkjamenn verji nú um 5000 millj. dollara árlega til vísindarannsókna, og Bretar munu verja hlutfallslega mjög svipaðri upphæð. Miðað við mannfjölda svarar þetta til þess, að hér á Íslandi væri árlega varið um 80 millj. kr. til vísindarannsókna, en segja má, að nú sé til þeirra efna varið um 9–10 millj. kr.

Menn munu eflaust benda á, að ekki sé við því að búast, að smáþjóð eins og Íslendingar hafi efni á því að verja hlutfallslega jafnmiklu fé til vísindarannsókna og stórþjóðirnar Bandaríkjamenn og Bretar. En á það má og benda, að hin góðu lífskjör í þessum löndum og hin miklu menningarskilyrði þeirra eiga án efa að mjög verulegu leyti rót sína að rekja til þess, að þessi lönd hafa um langt skeið varið mjög miklu fé — mjög miklum hundraðshluta sinna árlegu tekna — einmitt til vísindarannsókna. Þetta hafa hinar smærri þjóðir og gert sér ljóst, og nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa á árunum eftir styrjöldina stóraukið styrk til vísindarannsókna í löndum sínum. Skal ég í því sambandi nefna, að bæði í Danmörku og Noregi voru eftir stríðið stofnaðir vísindasjóðir, nýir vísindasjóðir, þó að í þessum löndum báðum hafi verið fyrir starfandi fjölmargir sjóðir, sem höfðu það markmið að efla margs konar vísindarannsóknir.

Öllum er kunnur Carlsberg-sjóðurinn danski, sem haft hefur ómetanlega þýðingu fyrir danskar vísindarannsóknir. Af dönskum sjóðum má einnig nefna Rask-Örsted-sjóðinn. Rannsóknaráði ríkisins var komið á fót í Danmörku þegar eftir stríðið eða 1946. Engu að síður töldu Danir þetta ekki nægja, og fyrir 4 árum — eða 1952 stofnuðu Danir nýjan opinberan vísindasjóð, Danska vísindasjóðinn, sem hefur yfir allmiklu fé að ráða árlega.

Í Noregi hafa um langt skeið verið starfandi vísindasjóðir, sem hafa slíkt hlutverk, og vil ég nefna t.d. Nansens-sjóðinn, Norsk varekrigsforsikringsfond, gjafasjóð C. Mohr og vísindasjóðinn frá 1919. Þessa sjóði töldu Norðmenn hins vegar ekki nægilega, og 1946 voru samþykkt í Noregi lög um íþróttagetraunir, þar sem gert var ráð fyrir, að tekjurnar af þeim rynnu að mjög verulegum hluta til eflingar vísindarannsóknum í Noregi. Hafa norsk vísindi notið mjög gáðs af þeirri lagasetningu.

Hér á landi hefur stofnun slíks vísindasjóðs verið rædd á ýmsum vettvangi, svo sem í rannsóknaráði ríkisins, atvmrn. og menntmrn. Á árunum 1953 og 1954 vann rannsóknaráð ríkisins að undirbúningi till. um stofnun vísindasjóðs, og lét ráðið semja frv. um málið 1955. Var frv. sent atvmrh. og menntmrh. Í því frv. var eingöngu gert ráð fyrir, að sjóðurinn styrkti rannsóknir á sviði raunvísinda. En áhugi var mikill meðal vísindamanna í húmanistískum fræðum eða hugvísindum á því, að einnig væri aukinn styrkur til rannsókna á sviði hugvísinda. Varð það að samkomulagi milli Steingríms Steinþórssonar, sem þá fór með málefni rannsóknaráðs ríkisins og atvinnudeildar háskólans, og Bjarna Benediktssonar, þáverandi menntmrh., að hinn síðarnefndi skipaði n. til að undirbúa málið frekar, og skyldi n. skipuð fulltrúum bæði raunvísinda- og hugvísindamanna. Nefndin var skipuð 24. marz 1956, og áttu í henni sæti þeir Birgir Kjaran hagfræðingur, formaður, Ármann Snævarr prófessor, dr. Björn Sigurðsson, formaður rannsóknaráðs ríkisins, dr. Júlíus Sigurjónsson prófessor og Pálmi Hannesson rektor. Nefnd þessi skilaði störfum 4. jan. 1957 og sendi menntmrn. uppkast að frv. um ví,sindasjóð ásamt ýtarlegri grg. og skýrslu um vísindasjóði í nokkrum öðrum löndum. Frekari athugun á málinu fól ég síðan nefnd þeirri, sem ég skipaði í desember s.l. til að endurskoða l. um menningarsjóð og menntamálaráð, en þeirrar n. gat ég í framsöguræðu minni með því frv. áðan.

Menntmrn. hefur síðan athugað öll gögn, sem fyrrgreindir aðilar hafa safnað, og þær till., sem þeir hafa gert. Með hliðsjón af þeim og öðrum upplýsingum, sem ráðuneytið hefur aflað sér, hefur það samið það frv., sem hér liggur fyrir.

Tekjur þær, sem frv. gerir ráð fyrir að vísindasjóður byggi starfsemi sína á, eru árlegt framlag úr menningarsjóði, a.m.k. 800 þús. kr. Varðandi verksvið sjóðsins er rétt að benda á, að honum er ekki ætlað að styrkja kandídata til venjulegs framhaldsnáms, heldur verða þeir að sinna ákveðnum sérfræðilegum rannsóknum eða afla sér vísindaþjálfunar. Einnig er heimilt að styrkja rannsóknarstofnanir til kaupa á tækjum, ritum eða rannsóknarefnum.

Skipulag og stjórn sjóðsins verður með þeim hætti, að Alþingi er tryggð mikil hlutdeild um ráðstöfun sjóðfjárins. Verkefni yfirstjórnar sjóðsins, sem skal skipuð 7 mönnum, á að vera að skipta heildarfjárframlaginu til vísindasjóðs á milli hinna tveggja deilda hans, þ.e. raunvísindadeildar og hugvísindadeildar, þ.e. verkefni yfirstjórnarinnar skal vera að kveða á um, hversu miklu af heildartekjum sjóðsins skuli varið til styrktar raunvísindum og hversu miklu til styrktar hugvísindum. Yfirstjórnin skal enn fremur í samráði við ráðh. setja almennar reglur um verkefnaval og styrkveitingar úr sjóðnum. Af þessum 7 mönnum skulu 4 kosnir af Alþingi, deildarstjórnir sjóðsins tilnefna 2 menn, og einn er skipaður af ráðherra. Það er ekki ætlazt til, að þessi yfirstjórn úthluti sjálf styrkjum úr sjóðnum. Það er m.ö.o. ekki ætlazt til þess, að fulltrúar Alþingis annist um sjálfar styrkveitingarnar, sjálfa úthlutunina. Til þess að annast hana er gert ráð fyrir, að hvor deild sjóðsins um sig, raunvísindadeild og hugvísindadeild, fái sína sérstöku stjórn, og á sú stjórn að mestu leyti að vera skipuð fulltrúum frá vísindastofnunum, sem gera má ráð fyrir að hafi sérþekkingu til að bera til þess að vega og meta þau verkefni, sem sótt er um styrk til. Er ákveðið í 5. gr., hvernig skipa á stjórn deildanna hverrar um sig.

Með stofnun vísindasjóðs ætti að vera stigið mikilvægt skref til eflingar íslenzkum vísindum. Ég gat þess í upphafi, að margar aðrar þjóðir leggi fram hlutfallslega miklu meira fé í þessu skyni en hér er gert ráð fyrir. En mjór er mikils vísir. Það er von mín, að með þessu frv. verði lagður heilladrjúgur grundvöllur að hluttöku Íslendinga í hinni miklu vísindaþróun nútímans, en sjálfstæði þjóðarinnar og menning getur oltið á því, að búið verði að vísindastarfsemi í landinu af raunsæi og myndarskap, og vart mun fjármunum betur varið með öðrum hætti.

Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.