24.05.1957
Efri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

175. mál, vísindasjóður

Frsm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur orðið nokkru seinni til að afgr. þetta frv. en hin tvö frv., um skemmtanaskatt og menningarsjóð og menntamálaráð, sem var vísað til n. samtímis þessu frv., og er það að nokkru vegna þess, að í frv. um skemmtanaskatt eru ákvæði til að afla þess fjár, sem bæði menningarsjóður og sá vísindasjóður, sem gert er ráð fyrir að stofna með þessu frv., eiga að njóta.

N. hefur fjallað um þetta frv. á nokkrum fundum. Hún hefur sent það háskólaráði og rannsóknaráði ríkisins til umsagnar og borizt fljótt umsagnir þeirra ráða, sem bæði mæla eindregið með samþykkt frv. og leggja áherzlu á, að með því sé stofnað til svo merkilegs nýmælis, að nauðsyn beri til, að það nái fram að ganga á þessu þingi. Ráðin benda hins vegar á ýmis atriði í sambandi við frv., sem þau kysu á annan veg. Þau eru þó ekki sammála um þau atriði, enda hygg ég, að þau atriði verði engan veginn talin aðalatriði þessa máls.

N. hefur orðið sammála um afgreiðslu málsins í öllum meginatriðum. Nm. eru allir sammála um, að í frv. felist merkilegt nýmæli og því beri að tryggja framgang á þessu þingi.

Hins vegar komu fram í n. einnig nokkuð skiptar skoðanir um smærri atriði frv., eins og það, hvaða fyrirkomulag verði haft á stjórn deilda hins fyrirhugaða vísindasjóðs, en um þær deildarstjórnir eru ákvæði í 5. gr. frv.

Tveir nm., hv. þm. V-Sk. (JK), sem tók sæti í n. í umr. um þetta mál í fjarveru hv. 6. þm. Reykv. (GTh), og hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ), létu í ljós skoðanir um það, að þeir teldu fara betur á að breyta nokkuð um stjórn þessara deilda vísindasjóðs, og hafa flutt brtt. á sérstöku þskj., 612, um breyt. á b-lið 5. gr. um stjórn svonefndrar hugvísindadeildar.

N. er öll sammála um þær brtt., sem eru á þskj. 619, við 1. gr. frv. og 4. gr., sem fjalla um verksvið vísindasjóðs og skipulag og stjórn hans.

Um þessi meginatriði flytur n. öll tvær brtt., og skal ég strax gera grein fyrir þeim.

Við 1. gr. er brtt. n. sú, að því fé, sem ætlað er að verja til vísindasjóðs á ári hverju og í frv. er gert ráð fyrir að verði a.m.k. 800 þús. kr., verði ekki öllu úthlutað á hverju ári, heldur verði lagt til hliðar a.m.k. 5% af árlegum peningatekjum vísindasjóðs í sérstakan sjóð, sem nefnist stofndeild vísindasjóðs.

N. hafði hér til hliðsjónar ákvæði í frv. um menningarsjóð og menntamálaráð, þar sem einnig var gert ráð fyrir því, að a.m.k. 5% af árlegum tekjum menningarsjóðs yrði varið á sambærilegan hátt til þess að stofna sérstakan sjóð, sem ekki yrði skertur, þó að heimilt sé samkvæmt því frv. að verja þessu fé til að tryggja fastari starfsemi menningarsjóðs, með því t.d. að kaupa fasteignir, sem væru notaðar í þágu menningarmála, og enn fremur heimilt að verja vöxtum af fé þessarar stofndeildar til almennrar starfsemi menningarsjóðs.

Menntmn. þótti rétt að taka upp í frv. um vísindasjóð nákvæmlega tilsvarandi ákvæði þessum ákvæðum í 5. gr. frv. um menningarsjóð og menntamálaráð að þessu leyti.

Ég hygg, að hv. þdm. geti fallizt á þá hugsun, sem í þessu felst. Hún er sú að efna til nokkurs varanlegs sjóðs, sem geti aukizt og aukizt allhratt, þó að það sé ekki nema lítill hluti af því fé, sem árlega er gert ráð fyrir að verja til almennrar starfsemi þessara sjóða, sem hugsað er að leggja til hliðar og halda óskertu.

Það er vitanlegt og er bent á í grg. þessara frv. beggja, um menningarsjóð og vísindasjóð, að í öðrum löndum eru starfandi stórir og miklir sjóðir, sem árlega styðja menningar- og vísindastarfsemi, og þeir sjóðir eru sumir gamlir og eflast vegna vaxta sinna ár frá ári. Það er sú hugsun, að hluti af þessu fé megi verða að sjóðum, sem síðan eflist í framtíðinni, sem liggur til grundvallar þessari brtt. nefndarinnar.

Þá er önnur brtt. n. við 4. gr. frv. um að gera. þar nokkra breytingu á yfirstjórn vísindasjóðsins, þannig að í stað sjö manna, sem gert er ráð fyrir í frv., verði aðeins fimm, og þeir verði allir kosnir af ríkisvaldinu, fjórir kosnir hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi, en einn, sem er formaður, skipaður af menntmrh.

Það kunna að vera skiptar skoðanir um það, hve ríkan hlut ríkisvaldið, sem efnir til þessa sjóðs í því skyni að efla almenna vísindastarfsemi í landinu, eigi að eiga í stjórn og meðferð þessa sjóðs. Ég hygg þó, að komið hafi fram í sambandi við umr. um þetta merka frv. þau sjónarmið, að vísindamennirnir sjálfir, sem þessa fjár eiga að njóta, eigi að ráða mestu um ráðstöfun þessa fjár. Ég hygg þó, að hér á Alþingi verði ekki um það deilt, að ríkisvaldinu hljóti að bera réttur til að eiga ríkan þátt í ráðstöfun á þessu fé. Ekki verður um það deilt, að Alþingi einu ber rétturinn til þess að leggja skatta á þjóðina, og þess fjár, sem hér er um að ræða, er aflað með skattaálögum, nýjum skattaálögum meira að segja. Ekki verður heldur um það deilt, að vegna þessa ber Alþingi rétturinn til þess að ráða a.m.k. í meginatriðum ráðstöfun þessa fjár, enda var innan n. enginn ágreiningur um þessa meginstefnu, að ríkisvaldið ætti að ráða óskorað yfir stjórn vísindasjóðs, en hún aftur á móti ætti ákvörðunarrétt um, hvernig fjárframlögum til vísindasjóðs yrði ráðstafað í meginatriðum, í fyrsta lagi á milli deilda vísindasjóðsins tveggja og í öðru lagi að meginstefnu að ráða um verkefnaval og styrkveitingar úr sjóðnum, en deildarstjórnirnar aftur, sem fyrirhugaðar eru, að skipta fénu á milli einstakra rannsóknarefna eða rannsóknarmanna og vísindamanna.

Ég treysti því, að eins og þessi meginstefna var ágreiningslaus í n., þá muni svo verða einnig hér í hv. deild.

Hitt er annað mál, og það má gjarnan koma fram, að ég treysti því einnig, að þegar hv. Alþingi kýs fulltrúa sína til að stjórna þessum merkilega sjóði, þá takist það val svo, að til þess veljist menn, sem hafa góðan skilning á þeim mörgu og miklu verkefnum, sem honum eru ætluð, og hafa bæði viðsýni til að bera og skilning á aðstöðu vísindamanna okkar, sem ætlað er að greiða fyrir með þessu frv.

Ég vona því, að það val Alþingis takist svo til, að vísindamennirnir, sem kunna að hafa þá skoðun, að þeir eigi mestu að ráða um ráðstöfun þessa fjár, geti unað við þessa skipun, að Alþingi og ríkisvaldið ráði meginstefnu um ráðstöfun þessa fjár, en þeir aftur um nánari skiptingu milli einstakra verkefna.

Ég gat áður um lítils háttar ágreining, sem kom fram í n. um fyrirkomulag og stjórn deilda þessa sjóðs, og eins og ég gat um áður, hafa tveir hv. nm. borið fram brtt. við b-lið 5. gr. um stjórn hugvísindadeildar, þannig að sú breyting verði á gerð, að heimspekideild háskólans tilnefni tvo og laga- og hagfræðideild tvo. Við aðrir nm. þrír, meiri hl. n. að þessu leyti, þó að hún sé í raun og veru óklofin um þetta mál, eins og ég hef áður getið, teljum, að þó að um þetta kunni að mega deila, hvernig eigi að skipa mönnum í stjórn þessara deilda, sé hyggilegast að svo stöddu að halda óbreyttum ákvæðum frv. um þetta, sem gera ráð fyrir, að margir aðilar fái fulltrúa í þessum stjórnum. Ég hygg, að hæstv. menntmrh. og þeir menn, sem undir hans stjórn hafa starfað að undirbúningi þessa frv., hafi orðið að hugsa um þessi atriði, hvernig haganlegast væri að skipa þeim, hér er um marga aðila að ræða, sem kynnu að telja, að þeir ættu fullan rétt til fulltrúa í stjórn þessara deilda vísindasjóðs, og að sú skipun, sem feist í 5. gr. frv., eins og hún er nú, hafi verið allvel hugsuð. Við þrír nm. treystum okkur ekki til að svo stöddu að gera till. um breytingar á því, þó að við kynnum líka eins og aðrir að sjá aðra möguleika um skipun þessara stjórna. Ég tel því, að það sé langhyggilegast að halda þessu óbreyttu í frv. og reyna, hversu til tekst um samkomulag og samvinnu þeirra aðila, sem gert er ráð fyrir að hljóti fulltrúa í þessum deildarstjórnum eftir frv.

Þá sé ég, að hv. 1. þm. N-M. (PZ) hefur borið fram brtt. bæði við 3. og 5. gr. frv. N. hefur ekki haft ástæðu til að athuga eða ræða þessa brtt. Það má vitanlega ræða hana milli umr., og vænti ég, að hún verði þá tekin aftur til 3. umr., en hv. þm. mun gera nánari grein fyrir því hér við þessa umr., hvað fyrir honum vakir með þessari brtt.

Ég held, að ég hafi þá drepið á þær brtt., sem fyrir liggja, og sé ekki ástæðu til þess að svo stöddu að fara mörgum orðum um þetta frv. almennt. Hæstv. menntmrh. gerði rækilega og skýra grein fyrir því merkilega nýmæli, sem í því felst, þegar hann lagði þetta frv. fram.

Í grg. og skýringum og fskj. með frv. felast allmiklar upplýsingar og sterk rök fyrir framgangi þessa frv., svo að ég hygg, að það þurfi ekki að endurtaka þau rök, þau eru svo augljós. Það hefur lengi verið unnið af ýmsum aðilum að undirbúningi þessa frv., of lengi að mínum dómi. Ég vildi gjarnan láta það koma fram, að þó að ég kynni að kjósa einhver atriði á annan veg í þessu frv. eða um þá fjáröflun, sem liggur því til grundvallar, að hægt sé að auka svo fjárframlög til menningar- og vísindastarfsemi sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og í frv. um menningarsjóð og menntamálaráð, þá tel ég, að hér sé um svo merkilegt mál að ræða, að það megi ekki láta þetta þing ljúka svo störfum, að þessum frv. verði ekki tryggður framgangur, þó að menn kysu eitthvað, t.d. um fjáröflunina, á annan veg, enda hefur komið fram í n. og umr. um þessi mál, að allir óska, að frv. um menningarsjóð og menntamálaráð og um vísindasjóð, það frv., sem hér liggur fyrir, nái fram að ganga, en af skiljanlegum ástæðum hika sumir við að samþ. þá fjáröflun, sem til þess þarf, að þau komi að nokkru gagni.

Ég ætla ekki að fara út í það hér, að ég hefði yfirleitt kosið, að fjáröflun til almennra þarfa væri á komið með sem heillegastri löggjöf, þannig að ekki væri mikið gert að því að afla sérstaklega fjár til sérstakra mála með sérstökum frv. og þá oft með sérstökum álögum á ákveðnar álögur, sem fyrir eru. En ég vil ekki láta almennar skoðanir mínar um þetta atriði standa fyrir því að greiða fyrir þessum merkilegu frv., jafnvel þó að vegna þeirra verði að gripa til þess að leggja á þjóðina nokkrar nýjar álögur, sem sumir fordæma mjög, þó að þeir um leið vilji mjög lýsa því yfir, að þeir vilji efla menningu og vísindi og öll góð mál, en hins vegar ekki vera með í því að afla með álögum þess fjár, sem til þess þarf.

Ég vil svo segja að síðustu, að ég vona, að sá mjög smávægilegi ágreiningur, sem kann að vera milli nm. og kann að vera hér í hv. d. um atriði, sem eru alger aukaatriði þessa frv., verði ekki því til fyrirstöðu, að þessu frv. verði tryggður greiður framgangur í gegnum þessa hv. deild.