24.05.1957
Efri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

175. mál, vísindasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessu máli. Mér þykir vænt um, að n. skuli hafa orðið sammála um meginefni málsins og allt það, sem meginmáli skiptir í frv. Ég vil þakka frsm. n. fyrir þau orð, sem hann lét falla um frv. í heild sinni og tilgang þess. Ég tel till. hennar á bls. 619 vera eðlilegar og mæli með því fyrir mitt leyti, að þær nái fram að ganga hér í hv. deild.

Varðandi fyrri till. á þskj. 618 frá hv. 1. þm. N-M. er það að segja, að við bana hef ég fyrir mitt leyti ekkert að athuga, heldur tel hana þvert á móti vera til bóta. Það var aldrei tilætlunin, að sú upptalning á greinum, sem raunvísindadeild vísindasjóðs skyldi styrkja, væri tæmandi, þar sem segir í þeirri gr., með leyfi hæstv. forseta: „Rannvísindadeild annast styrkveitingar til rannsókna á sviði náttúruvísinda, þar með taldar“ og svo eru nefndar ýmsar greinar. Auðvitað má lengi um það deila, hvað slík upptalning á að vera ýtarleg, en ég hef síður en svo á móti því, að þarna sé bætt við þeim þremur greinum, sem hann leggur til, þ.e. lífeðlisfræði, búvísindum og fiskifræði. Það gerir upptalninguna meir tæmandi, þó að hún verði auðvitað ekki algerlega tæmandi heldur með þessu móti. Ég vil því fyrir mitt leyti mæla með því, að fyrri brtt. verði samþ. þegar við þessa umr.

Þá eru og uppi till. annars vegar frá hv. þm. V-Sk. og 2. þm. Árn. og hins vegar hv. 1. þm. N-M. um breytingar á stjórn deilda sjóðsins, önnur um breytingar á stjórn hugvísindadeildarinnar og hin um breytingu á stjórn raunvísindadeildarinnar. Það má auðvitað lengi um það deila og ræða fram og til baka, hvernig stjórn þessara deilda skuli skipuð, og ég skal fúslega gera þá játningu, að ég var í miklum vafa um, hvað til skyldi leggja í þessum efnum. Ég fór þó að mestu leyti eftir till. n., sem undirbúið hafði málið, nema hvað í menntmrn. var gerð nokkur breyting á skipun stjórnar hugvísindadeildarinnar og meira að segja alveg á síðustu stundu. Er það orsök þeirrar skekkju, sem er í grg. frv. varðandi skipun stjórnar hugvísindadeildarinnar. Það var um skeið ætlun mín að leggja til, að heimspekideildin hefði tvo, laga- og hagfræðideildin hefði tvo og þann fimmta skipaði ráðh. En á síðasta stigi við meðferð málsins varð sú breyting á, að ég lagði það til, sem í frv. er. Í rn. gleymdist aðeins að lagfæra grg. til samræmis við þessa breytingu á frv. sjálfu. Þetta er smávægilegt atriði. Ég vil aðeins láta þess getið að gefnu tilefni frá hv. þm. V-Sk. En vegna þess að þetta er nokkurt álitamál, hvernig stjórn deildanna skuli skipuð, og raunar enn fleiri hugmyndir hafa verið uppi en þær, sem hér eru komnar fram till. um, vildi ég nú mega mælast til þess við flm. þessara tveggja till., að þeir tækju till. sínar aftur til 3. umr. og að n. athugaði þetta síðan milli umræðnanna. Verði fundur á morgun, vil ég óska þess við n., að hún taki það til athugunar síðdegis í dag og ræði þá við flm. tillagnanna um þetta, hvort ekki væri hugsanlegt, að samkomulag næðist innan n. og við þá í þessum efnum. Hér er um smáatriði að ræða varðandi málið í heild og auðvitað ekki neitt stjórnmálalegt ágreiningsefni, svo að æskilegt væri, ef unnt væri að ná um þessi atriði samkomulagi, eins og öll önnur atriði í frv., einnig þau, sem eru mergur málsins.