24.05.1957
Efri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

175. mál, vísindasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þótti hv. 1. þm. N-M. (PZ) óþarflega stórorður í sambandi við jafneinfalt mál og hér er um að ræða og mál, sem er þess eðlis, að ástæðulaust er að deila um það af miklum skaphita. Hann sagði, að sér fyndist það nálgast fyrirlitningu á atvinnuvegum landsins að ætla rannsóknaráði ríkisins að tilnefna einn mann í stjórn raunvísindadeildar, en ekki deildarstjórum atvinnudeildar, og hann bað um, að nefnt yrði eitt dæmi þess, að rannsóknaráðið hefði haft frumkvæði að rannsóknum í þágu atvinnuveganna.

Þessu til svars vil ég aðeins leyfa mér að benda honum og hv. dm. á, hvernig skipulagi þessara mála er varið. Rannsóknaráð er stjórn atvinnudeildar háskólans. Stjórn atvinnudeildar háskólans er í höndum atvmrh. og rannsóknaráðs ríkisins, sbr. ákvæði 13. gr. laga um náttúrurannsóknir, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnumálaráðherra hefur yfirstjórn atvinnudeildar með aðstoð rannsóknaráðs ríkisins.“

M.ö.o.: ráðh. hefur æðsta valdið, en hin raunverulega stjórn atvinnudeildarinnar er í höndum rannsóknaráðs ríkisins. Síðan skiptist atvinnudeildin, eins og menn vita, í deildir: fiskideild, búnaðardeild og iðnaðardeild, — í þrjár deildir, sem hver um sig hefur sinn deildarstjóra. Það, sem hv. þm. leggur til, er, að deildarstjórarnir tilnefni menn í stjórn raunvísindadeildar, þ.e. að undirmennirnir tilnefni, en yfirmennirnir fái þar hvergi að koma nærri. Það sjá allir, að hér væri um hina furðulegustu skipun að ræða. Þeir, sem stjórna fyrirtækinu í heild, eiga ekki að koma fram fyrir það út á við, heldur eiga undirmenu að koma fram út á við fyrir hönd fyrirtækisins. Þetta væri álíka og ef ákveðið væri með ákvæði í lögum, að aðalbókari og aðalféhirðir Landsbankans t.d., svo að ég nefni eitthvert dæmi, — það var verið að ræða bankamálin hinum megin við vegginn, því dettur mér það í hug, — þeir skuli koma fram fyrir hönd bankans út á við, en ekki bankastjórarnir, hin eiginlega stjórn hans.

Þegar hv. þm. spyr um, hvaða rannsóknarverkefni rannsóknaráðið hafi annazt, þarf ég ekki að nefna nema eitt dæmi um það. Öll rannsóknarverkefni atvinnudeildar háskólans eru gerð undir yfirstjórn og að meira eða minna leyti fyrir frumkvæði rannsóknaráðsins, á þess ábyrgð sem yfirmanna stofnunarinnar. Það skiptir svo náttúrlega ekki máli, að deildarstjórarnir eru auðvitað meira eða minna sjálfstæðir í sínum störfum og hafa frumkvæðið í ýmsum ágætum hlutum. En störf þeirra eru á ábyrgð yfirmanna þeirra, sem ég efast ekki um að hafi fylgzt vel með, gegnt embættisskyldu sinni og fylgzt með því, hvað er að gerast í þeim stofnunum, sem þeir eiga að stjórna, og ekki aðeins vita, hvað er að gerast, heldur einnig stundum átt frumkvæði. Rannsóknaráðið hefur verið skipað eftirtöldum mönnum: Ásgeiri Þorsteinssyni verkfræðingi, dr. Birni Sigurðssyni lækni og Pálma Hannessyni rektor, meðan hans naut við, en maður hefur ekki verið skipaður í hans stað. Allt eru þetta valinkunnir hæfileika- og sæmdarmenn, sem aldrei hvarflar að mér eitt andartak, að hafi ekki gegnt embættisskyldu sinni samkvæmt lagaákvæðum með hinum allra bezta og æskilegasta hætti.