24.05.1957
Efri deild: 109. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

175. mál, vísindasjóður

Páll Zóphóníasson:

Það fór eins og mig varði. Hæstv. ráðh. gat ekki komið með eitt dæmi um eitt einasta mál, sem rannsóknaráð ríkisins hefði átt frumkvæðið að og hefði verið tekið fyrir fyrir atvinnuvegina, — ekki eitt. Hann vitnaði í lögin og vitnaði í það, að þeir hefðu yfirumsjón með atvinnudeildinni.

Nú skulum við líta svolítið nánar á þetta að gefnu tilefni. Við skulum fara t.d. til annarra landa, við skulum skreppa til Danmerkur. Þar er tilsvarandi rannsóknaráði ríkisins ráð, sem kosið er og skipað af ríkisstj. og á að hafa eftirlit með öllum tilraunum við búfjárrækt. Það ræður, hvað er tekið fyrir, og í hvert skipti sem fram kemur eitthvað, sem hefur verið tekið fyrir að þess tillagi af stofnunum eins og atvinnudeildunum, þá er gefinn út um það ritlingur, og þá byrjar hann ævinlega á formála frá þeim, hvernig standi á, að málið hafi veríð tekið fyrir, og hvernig hafi verið unnið að því, og svo, þegar þeir eru búnir með sinn formála, kemur sjálf greinargerðin og niðurstaða rannsóknanna, sem um er að ræða.

Við skulum líta á, hvernig þetta hefur verið hérna. Af tilviljun lagði einhver á borðið hjá mér um daginn rit landbúnaðardeildar, A-flokk, nr. 5. Haldið þið, að rannsóknaráðið komi þar nokkurn tíma við? Það var öðru nær, það vissi ekki, hvað var að gerast, fyrr en búið var að prenta pésann. Það er forstöðumaður deildarinnar, sem prentar hann. Það er ekki neitt frá rannsóknaráðinu um, að það hafi skipulagt tilraunirnar og ákveðið, að þær skyldu gerðar, eða samþykkt, að þær yrðu gerðar. Nei, það hefur aldrei verið minnzt á það að taka tilraunina upp. Rannsóknaráðið skipti sér ekki af því.

Ef við förum til Noregs, þá er alveg sama að segja. Ef við förum til Danmerkur í aðrar tilraunir, þá er hið sama að segja þar. Þar er líka fimm manna nefnd, skipuð af ríkisstj. og kosin af félagasamtökum, sem ræður, hvaða tilraunir eru gerðar, og í hvert skipti sem kemur tilkynning um, að einhver tilraun hafi verið gerð, og niðurstöður hennar, þá er það náttúrlega yfirmaðurinn, sem byrjar á því að skrifa formála og skýra frá tildrögum til þess, að tilraunin hafi verið gerð, o.s.frv. Svo kemur skýrslan frá forstöðumanninum.

Við skulum segja, að það sé lögum samkvæmt, að þeir eiga að gera þetta hér, hafa forgöngu um þetta, en það hafa þeir bara ekki gert. Og ráðh. gat ekki nefnt eitt einasta dæmi. Hann bara vitnar í lögin.

Það er alveg sama, í hvaða land við förum, þar sem yfirstjórn er yfir einhverjum hlutum, þar er það hún, sem gefur út skýrslu og ákveður, hvað gert er. En hér hefur aldrei verið meiningin, að það væri svo. Rannsóknaráð var sett upprunalega til þess að hafa eftirlit með náttúrurannsóknum hér á landi, sérstaklega útlendinga, og til þess að reyna að safna í eina heild þeim niðurstöðum, sem yrðu í náttúrurannsóknum. Það hefur það gert. Það hefur gert það og rækt það starf vel, og það er allt í lagi með það. En hitt hefur það bara aldrei gert. Þess vegna er það, að það er ekki í nokkrum lifandi tengslum við sjálft atvinnulífið í landinu, og það mætti segja mér, að við gætum farið til mannanna, sem núna eru í rannsóknaráði, þessara tveggja, og sagt við þá: Heyrið þið, hvað var nú í skýrslunni, sem fiskideild gaf út um átu í sjónum, eða í skýrslunni, sem landbúnaðardeildin gaf út um fitun lamba á ræktuðu landi? Þeir hefðu ekki hugmynd um það. Ég hugsa, að við gætum spurt þá um hverja einustu skýrslu, sem út hefur verið gefin og þeir hafa átt að hafa yfirstjórn með að væri gerð, án þess að þeir vissu, hvað í þeim stæði.

Þess vegna er það, að það er ekki hægt að sýna atvinnuvegum landsins meiri fyrirlitningu en þá að vilja ekki á neinn hátt hafa í yfirstjórninni yfir raunvísindadeildinni menn, sem þekkja atvinnulífið og vita, hvað þar er um að ræða og hvar skórinn kreppir að. En þetta er kannske eðlilegt, þegar það er undirbúið af mönnum, sem ekki vita, hvað atvinnulífið í landinu er og hvar skórinn kreppir að og hvað þar þarf að gera, — sem gleyma að ætlast til þess, að unnt sé að gera vísindatilraunir fyrir landbúnað og fiskiðnað, — það á bara að gera það fyrir grasafræði, það á bara að telja, hvað margir litningar eru í fíflunum og sóleyjunum o.s.frv., og vera ágætt af því, og það er út af fyrir sig ágætt verk að gera það — allt slíkt, það er allt í lagi með það. Það er líka allt í lagi með að rannsaka nákvæmlega, hvenær Hekla gýs, hvernig þar hagar til o.s.frv., og þar átti rannsóknaráðið sinn stóra hlut í, ágætan hlut í viðkomandi náttúrurannsóknum landsins. En sjálft atvinnulífið hefur það staðið utan við og stendur utan við, og það á að vera það, sem ræður að nafninu til, hvað vísindasjóðurinn á að gera fyrir atvinnulífið. Móti því er ég, og ég tek mína till. ekki aftur. Það má vera, að hún verði felld. Ég geri ráð fyrir því, því að líklega er meiri bl. deildarinnar með ráðh. í því að ætlast til þess, að það eiginlega atvinnulíf komi helzt ekki til greina hér, það sé bara pjatt, þýðingarlítið „húmbúg“, sem eigi að gera þar, það séu ekki nein vísindi, — það átti að vera utan við að geta fengið nokkurn styrk úr þessum sjóði o.s.frv. Ég geri ráð fyrir því, að meiri hl. d. fylgi því. Það sýnir sig.