08.04.1957
Efri deild: 84. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

157. mál, Háskóli Íslands

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Við lauslegan yfirlestur þessa frv. hnaut ég sérstaklega um eitt atriði. Í 21. gr. er ákvæði um heimild handa háskólaráði til að takmarka aðgang stúdenta að deildunum. Ég veit ekki, hvort þetta er nýmæli í lögunum, en vildi gera um það fsp. nú.

Mér finnst þetta ákvæði vera vafasamt. Mér finnst það stríða gegn akademískum anda, að gert skuli ráð fyrir því, að stúdentum verði meinuð innganga í háskóla. Þetta er hættulegt og getur auðveldlega orðið misnotað. Ég minnist þess, að þegar ég gekk inn í læknadeild háskólans fyrir meira en 30 árum, voru sumir prófessorarnir andvígir þeirri miklu aðsókn að læknadeildinni, sem jafnvel þá þótti ofsetin. Ég er þess fullviss, að ef þá hefði verið slík heimild fyrir hendi, hefði verið unnið að því að takmarka aðsókn að deildinni þá þegar. Því var spáð, að læknar mundu verða atvinnulausir hópum saman og enda í alls konar spillingu af þeim sökum með slíkri aðsókn sem þá var að skólanum. Reynslan hefur sýnt, að þetta var skakkt, því að enn í dag er skortur lækna á Íslandi. Svona gæti þetta orðið í fleiri greinum.

Ég vil ekki hafa þessi orð fleiri nú, en óska þess, að hæstv. menntmrh. svari því, hvort þetta sé nýmæli eða hvort þetta sé eldra ákvæði, sem ég þekki ekki.