08.04.1957
Efri deild: 84. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

157. mál, Háskóli Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér skildist á ræðu hæstv. ráðh., að einn aðaltilgangurinn með þessu frv. væri sá að sameina í eitt ákvæði úr 17 lögum, sem felld yrðu úr gildi með þessu frv., ef að lögum verður, en jafnframt taka inn í það nokkur ný ákvæði. En á sama þinginu og sama daginn og þetta frv. er lagt fram, eru lögð fram tvö ný frv. um breyt. á lögum um háskólann. (Gripið fram í: Eitt.) Eitt, — ja, það má kannske segja, að það sé eitt. Ég sé nú ekki betur en að það sé frv. til l. um breyt. á lögum nr. 12 12. marz 1947, um menntun kennara, og það eigi að stofna nýtt embætti við Háskóla Íslands til þess að sjá um þá kennslu. Og svo sé ég ekki betur en að hér sé annað frv. til laga um stofnun prófessorsembættis í eðlisfræði við verkfræðideild háskólans. Það eru tvö ný frv. til breytinga á háskólalögunum, sem eru lögð fram sama daginn og er verið að sameina í eitt öll eldri ákvæðin. Mig langar til að fá útskýringu á því, hvernig stendur á, að ekki er hægt að sameina þetta allt í eitt frv. Hvaða öfl eru hér að verki, svo að við þurfum að vera að samþ. breytingar á háskólalögunum, um leið og við erum að færa þetta saman í eitt? Hví ekki að færa þetta allt saman saman og hafa þetta í einu frv.? Eigum við svo kannske að ári aftur að fara að sameina þessi tvö, sem væntanlega verða samþykkt núna, eða setja nýja nefnd til að finna út, hvernig á að koma þessum tveimur inn í þetta frv., sem við nú erum væntanlega að samþykkja? Ég skil ekki þetta verklag; mér er það ómögulegt. Ég vil heina því alvarlega til n. að reyna að koma þessu saman. Það er nógur glundroði í því, hvað eru lög, þegar maður þarf að leita á ótal stöðum, — því að alltaf er einhver breyting og breyting og breyting við lögin, — þó að við séum ekki að leika okkur að því á sama þinginu, sem við færum eldri háskólalögin saman í eitt, — og það er ágætt, það er eins og það á að vera; maður á að finna í einum lagabálki þau lög, sem eru um það efni, — þó að við ekki á sama þinginu samþykkjum tvö önnur frv. til að breyta þeim sömu lögum, sem við erum nú að breyta. Ég vildi beina því mjög alvarlega til n., nema ráðh. hafi einhverjar alveg sérstakar ástæður til þess að láta þessi ákvæði um háskólann, sem eru í þessum tveimur frv., sem hér liggja fyrir, málunum 155 og 156, vera alveg sérstök og utan við aðallagabálkinn, sem um háskólann á að gilda.