10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

157. mál, Háskóli Íslands

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Stjórn Háskóla Íslands og stofnana hans er falin rektor eða háskólaráði. Rektor skal vera prófessor og kosinu af prófessorum einum. Aðrir kennarar eru hvorki kjörgengir né hafa atkvæðisrétt við rektorskosningu samkvæmt háskólafrv. því, sem fyrir liggur. Í háskólaráði eiga sæti 5 prófessorar auk rektors, og eru forsetar háskóladeildanna sjálfkjörnir í þau sæti. Hver deild velur úr hópi prófessora sinna deildarforseta, og enn eiga prófessorar einir kennara atkvæðisrétt. Aðrir kennarar en prófessorar eiga hvorki kjörgengi né kosningarrétt í deildarforsetakosningum. Dósentar, lektorar, aukakennarar og aðstoðarkennarar eiga þannig engan atkvæðisrétt, þegar stjórn skólans er valin. Þó er hverri háskóladeild fyrir sig heimilað í frv. að ákveða, að dósentar og lektorar megi sitja deildarfundi og hafa þar atkvæðisrétt. Lengra en þetta þykir ekki fært að teygja sig í átt til lýðræðis og annarra mannréttinda á þeim stað.

Með þessum ákvæðum frv. er stígið skref aftur á bak frá gildandi lögum, kosningarrétturinn með öðrum orðum þrengdur að mun. Í l. nr. 21/1936, um Háskóla Íslands, eru ákvæði um, að rektor skuli kosin af prófessorum og dósentum háskólans og að allir deildarkennarar eigi atkv. um kjör deildarforseta og þar með fulltrúa deildar í háskólaráð. En eftirleiðis skal engum treyst, nema prófessor sé.

Mér eru ekki ljós nein frambærileg rök fyrir þessari skerðingu á kosningarrétti kennara í háskólanum, og ég hygg, að þau séu ekki til. Ástæðurnar hljóta að vera bæði annarlegar og léttvægar, hverjar sem þær eru. Það hlýtur að teljast óviðkunnanlegt í meira lagi að mismuna svo fastakennurum skólans sem gert er ráð fyrir í frv. Látum svo vera, að prófessorar séu einir kjörgengir í kosningum rektors og háskólaráðs, en að engum öðrum sé að lögum ætlaður kosningarréttur, er of langt gengið.

Háskólinn mun áreiðanlega ekki gegna hlutverki sinn hóti betur, þótt farið verði að ganga aftur á bak á braut lýðfrelsis í kosningum innan hans. Alræði fárra manna er æ og alls staðar varhugavert og leiðir fyrr eða síðar til kyrkings og stöðnunar. Þetta ber ekki hvað sízt að varast í æðstu menntastofnun þjóðarinnar. Háskólinn má aldrei verða umráðasvæði fámennrar klíku, og hann má aldrei umlykjast kínverskum múr. Þar eins og annars staðar í þjóðlífinu á jafnan að ríkja andi frjálsræðis og jafnréttis.

Á þskj. 507 legg ég til, að rektor háskólans skuli ekki aðeins kosinn af prófessorum, heldur einnig af dósentum og lektorum skólans, þótt prófessorar einir séu kjörgengir. Þar er einnig lagt til, að á fundum háskóladeilda skuli auk prófessora eiga sæti dósentar og lektorar, en öðrum kennurum gefinn kostur á að ræða þar mál, er sérstaklega varða kennslugreinar þeirra. Með þessum brtt. er leitazt við að draga úr þeim ágöllum, sem ég hef þegar bent á að væru í frv.

Í ýtarlegri greinargerð, er frv. fylgir, er m.a. frá því sagt, að í l. um háskólann í Osló séu ákvæði um, að fulltrúar stúdenta eigi rétt á setu í háskólaráði og hafi þar málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt. Þarna mun höfundum frv. hafa þótt fulllangt gengið í lýðfrelsisátt. Þó hafa Oslóarlög orðið til þess, að í frv. var sett heimild til handa rektor að kveðja á fund háskólaráðs fulltrúa stúdenta, þegar þar eru rædd mál, sem varða sérstaklega stúdenta.

Á þskj. 507 legg ég til, að í stað heimildar rektors komi skylda hans til að boða fulltrúa stúdenta á þá háskólaráðsfundi, er sérstaklega ræða málefni þeirra, og að fulltrúinn njóti þar ekki aðeins málfrelsis, heldur líka atkvæðisréttar.

Ég teldi vel farið, að stúdentar ættu þess kost að leggja lóð á vogarskálarnar öðru hvoru,þegar mál háskólans eru rædd og ákvörðuð. Það mundi þroska ábyrgðartilfinningu hinna ungu manna, og það er mikils vert atriði. Það mundi einnig auka samstarf kennara og nemenda, glæða skilning hvorra um sig á hlutverki og starfi hinna, en slíkt er í öllum skólum talið æskilegt. Loks gæti það aðeins orðið til að hressa upp á anda skólans að hafa unga fólkið öðru hvoru með í ráðum.

Í 11. gr. frv. eru ákvæði um, hvernig skipað skuli eða ráðið í kennarastöður skólans. Skal þriggja manna nefnd dæma um hæfni umsækjenda hverju sinni og láta uppi rökstutt álit um hæfni hvers eins. Í dómnefnd þessa nefnir háskólinn 2 menn, en ráðherra einn. Þá segir svo orðrétt í gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Álitsgerð n. skal höfð til hliðsjónar, er embættið er veitt, og má engum manni veita prófessorsembætti við háskólann, nema meiri hluti n. hafi látið í ljós það álit, að hann sé hæfur til þess.“

Við síðari hluta þessarar tilfærðu setningar langar mig að staldra ögn. Þar er ákvæði, er að vísu lætur lítið yfir sér við fyrstu sýn og virðist næsta sjálfsagt, en felur í sér varhugaverðan rétt til valdbeitingar. Með þessu ákvæði um, að engum megi veita prófessorsembætti, nema dómnefndarmeirihl., sem háskólaprófessorar skipa, hafi talið hann hæfan, er þessum sömu prófessorum veitt meira vald til embættaveitinga en skynsamlegt er að mínum dómi. Ákvæðið heimilar meiri hl. í dómnefnd að útiloka hvern umsækjanda sem vera skal, og galdurinn er aðeins sá að láta í ljós álit um, að hann sé óhæfur. Þar með heltist hann úr lest umsækjenda á miðri leið, og sá sem skipunarvaldið hefur, ráðherrann, fær eigi rönd við reist.

Fyrir nokkrum árum var prófessorsembætti auglýst laust til umsóknar, og gáfu 4 umsækjendur sig fram. Nefnd dæmdi um hæfni þeirra. Dæmdi hún 3 hæfa og raðaði þeim í 1., 2. og 3. sæti. Hinn fjórða dæmdi hún óhæfan, enda þótt hann hvað námsferil og störf snerti uppfyllti sett skilyrði. Var það mál margra, er til þekktu, að með þessu væri umsækjandanum gert rangt til. Máske hefði hann átt að vera í 4. sæti, en óhæfan var ranglátt að dæma hann. Hvers vegna var það þó gert og hann þannig smánaður frammi fyrir alþjóð? Víst var um það, að hann átti ekki vinsældum að fagna meðal háskólamanna um þær mundir, og hitt var einnig talið þá, að hann styddi flokk þáverandi menntmrh. Hvort tveggja þetta er hugsanlegt að hafi haft áhrif á dómsúrskurð nefndarinnar. Valdið var hennar að útiloka manninn, og það gerði hún með því að dæma hann óhæfan, með réttu eða röngu, skulum við segja, en með þeim úrskurði voru hendur ráðh. tryggilega bundnar. Annað eins og þetta getur alltaf komið fyrir, en gegn því verður þó að sporna eftir mætti. Misbeiting á valdi af hálfu dómnefndar háskólans er þeim mun verri en misbeiting ráðh. sem dómnefndin hefur betri aðstöðu en hann til að láta fagsjónarmiðin ein ráða, en það á auðvitað við hér sem annars staðar, að allir erum við nú bara menn.

Í brtt. minni við áðurnefndan málslið 11. gr. er farinn meðalvegur. Er í henni kveðið svo á, að ekki megi veita manni prófessorsembætti, ef dómnefndin hefur einróma látið í ljós það álit, að hann sé óhæfur til þess. Í till. kemur öll nefndin til skjalanna í stað meiri hl. hennar, eins og frv. ráðgerir, og ætti þá síður að vera hætta á, að umsækjendur yrðu ranglega dæmdir úr leik.

Ég kem þá að 21. gr. frv., en hennar gat ég að nokkru við 1. umr. þessa máls. Í upphafi gr. segir, að hver sá, sem staðizt hefur stúdentspróf, eigi rétt á að verða skrásettur háskólaborgari, hafi hann greitt tilskilið gjald og ekki gerzt sekur um meiri háttar óhæfu. Er hér um að ræða eðlileg og sjálfsögð réttindi stúdenta til náms í háskóla. Þeir unglingar, sem að skyldunámi loknu ganga menntaveginn svokallaða, eru í 6 ár að búa sig undir stúdentspróf, sem raunverulega er inntökupróf í háskóla. Þeim á því að vera greið leið inn í deildir háskólans, þegar þessu prófi er náð, enda er upphaf 21. gr. í fullu samræmi við þann skilning. Þar er allt eins og vera skal. En síðar í gr. tekur að harðna á dalnum. Þar er fitjað upp á því, að háskólaráð geti upp á sitt eindæmi mælt svo fyrir í einfaldri samþykkt, að aðeins ákveðinn fjöldi stúdenta skuli skráður í deild árlega, og jafnframt, að þetta fárra manna háskólaráð megi velja og hafna úr hópi stúdenta eftir reglum, er það sjálft setur. Þetta ákvæði frv. um heimild til handa háskólaráði til að takmarka aðgang að þessari menntastofnun er fráleitt, og það er jafnfráleitt, þótt það sé ekki nýmæli, heldur hafi verið smeygt inn í lög árið 1941. Það er vansæmandi að láta þetta ákvæði standa í l. um Háskóla Íslands. Þangað eiga allir að geta sótt þá menntun, sem hugur þeirra stendur til, svo framarlega sem þeir hafa staðizt tilskilið próf, stúdentsprófið. Hlið háskólanna standa opin, þar er gestrisni ein af æðstu dyggðum, og þar er óspart veitt úr nægtabrunni vizku og vísinda. Sú skóladeild, sem tæki upp á því að loka dyrum til hálfs eða fulls, ætti ekki lengur heima í háskóla og skyldi burtræk gerð þaðan. Alma Mater, hin veitula móðir, eins og háskóli er oft nefndur í heiðursskyni, þolir ekki, að neinum verðugum sé útskúfað.

Þetta heimildarákvæði er varhugavert á ýmsa lund. Fyrir gæti komið, að háskólaráð yrði einhvern tíma skipað svo forstokkuðum og skammsýnum mönnum, að til heimildarinnar yrði gripið. Þá yrði hópi ungra manna, sem í 6 ár hefðu búið sig undir háskólanám, stuggað frá eins og grípum úr túni. Þessum stúdentum yrði meinað að leggja stund á þá fræðigrein, sem þeir helzt hefðu kosið, og með því þvingaðir til að snúa sér að öðru, sem þeir hefðu síður áhuga á og máske minni hæfileika til. Hér yrði framið gróft ranglæti.

Í grg. frv. er réttilega sagt, að brottvikning úr háskóla sé mjög örlagarík ákvörðun fyrir stúdent og vandamenn hans og sé því rík þörf á að búa sem tryggilegast um málsmeðferð í því sambandi. Þetta er hverju orði sannara. En skyldi hún ekki líka geta orðið örlagarík, sú ákvörðun að skella dyrum háskólans í lás við nefið á stúdent, sem árum saman hefur keppt að því marki að komast þar inn fyrir dyr?

Háskóli Íslands var stofnaður 1911. Það voru ekki liðin mörg ár, þegar prófessorar hans tóku að gerast órólegir út af aðsókn manna að skólanum, og síðan hefur ekki linnt látum. Árið 1924 er skelfing háskólakennara komin í algleyming. Þá þegar krefjast ýmsir þeirra, að aðgangur að skólanum verði takmarkaður. Menn greindi að vísu á um, hvernig ætti að velja úr stúdentahópnum, enda hefur það lengst af síðan vafizt fyrir mönnum. Við setningu háskólans haustið 1924 komst þáverandi rektor, Guðmundur prófessor Hannesson, þannig að orði:

„Stungið hefur verið upp á því að takmarka nemendatölu háskólans eftir þörfum landsins og láta prófeinkunnir skera úr. Mér stendur stuggur af þessari aðferð, því að löng reynsla sýnir, að allajafna eru afburðamenn engir framúrskarandi prófgarpar.“

Þannig fórust þessum látna afreksmanni orð, og var hann þó á þeim árum áhyggjufullur út af aðsókninni að skólanum.

Ónáttúrleg útilokun frá skólagöngu mun alltaf gefast illa. Árið 1928 var hún reynd í menntaskólanum í Reykjavík. Þá var þeim skóla lokað að neðan nema fyrir ákveðna tölu nemenda, mig minnir 25. Í fyrsta sinn, er þetta kom til framkvæmda, var 17 nemendum, sem töldust tækir í 1. bekk menntaskólans, úthýst þaðan. Hvað skeði þá? Venzlamenn hinna útskúfuðu ungmenna stofnuðu nýjan skóla handa þeim og fengu einn af hinum áhyggjufullu prófessorum til að veita honum forstöðu. Það varð gagnið af þeirri skólalokun. Hvort sá bægslagangur varð til þess að flýta fyrir fjölgun menntaskóla í landinu, veit ég ekki, en ekki er mér grunlaust um það.

Ef gripið yrði til þess ráðs að takmarka aðgang að deildum háskólans, mundi það valda margháttuðum óþægindum, sem ég skal ekki orðlengja um hér. Nokkrir hinna útskúfuðu stúdenta mundu leita inn í þær deildir, sem opnar væru, og þannig leggja stund á það sérnám, sem hugur þeirra hafði aldrei staðið til, en flestir þeirra útskúfuðu mundu með tilstyrk venzlamanna klífa þrítugan hamarinn til þess að fá numið það, sem þeir óska. Þeir mundu leita til annarra landa til náms og koma síðan heim með fullgild próf í trássi við hinn ógestrisna íslenzka háskóla. Það, sem þá aðallega hefðist upp úr krafsinu, væri stóraukinn námskostnaður.

Það er mikill vandi lagður á herðar háskólaráðs að veita því umgetna heimild til lokunar, — ég held meiri vandi en það fær borið, sé á annað borð gert ráð fyrir, að hún verði nokkru sinni notuð. En eigi hún aldrei að notast, þá á hún ekki heldur að standa í lögum, því að hún er til engrar prýði. Ef einhvern tíma þarf að úthýsa stúdentum úr háskólanum, þá á það ekki að gerast af fámennu háskólaráði, heldur á þar að koma til mat og úrskurður þjóðarinnar í heild. Um það vandamál ætti sjálf þjóðarsamkoman, hið háa Alþingi, þá að fjalla, ef til kæmi.

Því legg ég eindregið til, að lokunarákvæðið í 21. gr. frv. sé burtu fellt. Í Háskóla Íslands á að vera hátt til lofts og vítt til veggja. Hann er æðsta menntastofnun þjóðarinnar, til fyrir hana og kostaður af henni. Engum Íslendingi er Háskóli Íslands óviðkomandi, og öll þjóðin á að fylgjast með störfum hans. Það, sem þar er vel gert, á að lofa, en hitt að vita, sem miður fer.

Háskólinn má aldrei verða ríki í ríkinu. Sá skilningur má ekki verða drottnandi, að háskólinn geti verið sjálfum sér nógur né þar megi enginn nærri málum koma, nema prófessor sé. Þröngsýni og gikksháttur eiga að vera þessum skóla framandi. Það má vel vera, að erlendis finnist háskólar, sem geti að skaðlausu notið alræðis um sín mál og krafizt afskiptaleysis þjóðar og ríkisvalds. Þar eru þá aðstæður aðrar. Stórþjóðir eiga sér marga háskóla, og milli þeirra er samkeppni, sem knýr þá nauðuga, viljuga til dáða. Háskólinn hér á engan keppinaut, og það er vissulega annmarki. Ef slíkur skóli einangrar sig, lokar sig inni í sjálfum sér, þykist sjálfum sér nægur og bannar alla íhlutun um mál sín, þá er hann í hættu staddur. Þá vofir yfir honum stöðnun, forpokun og afturför. Gegn slíku verður hann sjálfur og öll þjóðin að berjast. Prófessorarnir ættu ekki að óska alræðisvalds um málefni skólans né frábiðja sér afskipti annarra um mál hans. Slíkt mundi ekki bera vott um góðan skilning á þörfum skólans. Skólinn er ekki fyrst og fremst til fyrir kennara og nemendur, heldur alla þjóðina, og því á hún að ráða þar miklu.

Með brtt. á þskj. 507 er leitazt við að sníða burt nokkra agnúa á frv. til laga um Háskóla Íslands. Með samþykkt þeirri mundi dálítið spor stigið burt frá fámennisveldi í háskólanum og þeim hættum, sem því eru samfara. Áhrifa fleiri hæfra manna á velferðarmál hans mundi gæta, en af því getur ekki annað leitt en víðari sjóndeildarhring og aukinn þroska. Þetta er stórt og mikilsvert atriði, og því hef ég gerzt um það nokkuð fjölorður.