10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

157. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mig langar til að fara fáeinum orðum um þær brtt. frá hv. landsk. þm. (AG), sem hann hefur flutt á þskj. 507.

Hin fyrsta lýtur að rektorskjöri. Hv. þm. sagði, að sú skipan, sem gert væri ráð fyrir í frv., væri spor aftur á bak, þ.e. að skertur væri réttur nokkurs hluta þeirra manna, sem nú hefðu rétt til rektorskjörs, til þess að njóta hans áfram. Þetta er á misskilningi byggt, og sá misskilningur liggur í því, að dósentsheitið á að verða heiti á annars konar starfsmönnum framvegis en það er nú. Eðli dósentsembættisins breytist, ef þetta frv. nær fram að ganga. Nú er rektor kjörinn af prófessorum og dósentum, en fastir kennarar háskólans eru nú prófessorar og dósentar, sem svo eru nefndir. Nú er gert ráð fyrir, að allir fastir kennarar háskólans, sem hafa kennslu við háskólann að aðalstarfi, skuli heita prófessorar, þ.e. þeir, sem nú bera embættisheitið dósent, skulu, ef frv. nær fram að ganga, verða prófessorar þegar í stað, en samkvæmt gildandi lögum eiga þeir ekki að verða prófessorar, fyrr en 6 ár eru liðin frá skipun þeirra sem dósenta. Nákvæmlega sömu mennirnir og sams konar hópur manna mun því framvegis geta kosið rektor og nú. Nú kjósa þeir menn rektor, sem gegna kennaraembætti við háskólann sem aðalstarfi, og svo mun auðvitað verða framvegis. Mér vítanlega hefur aldrei komið fram till. um, að þeir menn, sem nú eru nefndir lektorar eða aukakennarar, geti átt þátt í rektorskjöri.

Samkvæmt þessu frv. mun nokkur hluti þeirra, sem nú heita lektorar eða aukakennarar, fá dósentstitil. Ég tel ekki eðlilegt, að þeir menn eigi þátt í rektorskjöri, sem gegna aðalstarfi í þágu annarrar stofnunar, en hafa aðeins sem aukastarf að kenna einhverja grein við háskólann.

Þess vegna tel ég, að það, að menn, sem nú eru aukakennarar eða lektorar, fá dósentstitil, eigi ekki að veita þeim atkvæðisrétt við rektorskjör. Sú staðreynd, að dósentar hafa nú slíkan kosningarrétt, af því að þeir hafa kennslu við háskólann sem aðalstarf, á ekki að geta fylgt dósentsembættinu, eftir að það gerbreytir um eðli. Þess vegna er það misskilningur hjá hv. þm., að hér sé um að ræða spor aftur á bak. Það er um að ræða að láta nákvæmlega sömu skipun haldast við rektorskjör og nú á sér stað, og vona ég, að hann geti fallizt á þessa röksemdafærslu.

Um hitt má svo auðvitað deila, hvort sú stefna er æskileg að breyta eðli dósentsembættisins svo sem hér er lagt til. Hér er um að ræða till. háskólans, sem menntmrn. sá ekki ástæðu til að ganga gegn, og hv. menntmn. hefur ekki heldur séð ástæðu til annars en mæla með því, að þessar hugmyndir háskólans um kennaraheiti næðu fram að ganga.

Þá flytur hv. þm. brtt. við 4. gr. frv. um, að stúdentar, sem kvaddir séu á fund háskólaráðs, þegar um sé að ræða mál, er sérstaklega varði stúdenta, skuli ekki aðeins hafa málfrelsi á fundinum, heldur einnig atkvæðisrétt. Í frv. er skv. till. háskólans gert ráð fyrir því sem nýmæli, að heimilt sé að kveðja fulltrúa stúdenta á fund háskólaráðs, þegar til umr. sé mál, er varða stúdenta sérstaklega. Þetta nýmæli mun ekki vera algerlega ágreiningslaust. Persónulega er ég þó þeirrar skoðunar, að það sé til bóta. Ég tek alveg undir þau ummæli hv. þm., að það geti verið hollt fyrir hina eldri kennara að heyra sjónarmið stúdentanna sjálfra, þegar mál þeirra eru til umr. Þess vegna tel ég mjög æskilegt og var þess mjög hvetjandi, að ákvæðið yrði tekið inn í háskólalögin, eins og það er í 4. gr. Hins vegar tel ég það vera of stórt spor í einu a.m.k. að gera ráð fyrir því, að stúdentarnir geti sjálfir greitt atkv. í eigin málum. Ég hygg, að hitt væri miklu hyggilegra, að sjá um skeið a.m.k., hvernig samvinna háskólakennaranna og fulltrúa stúdenta gefst í umr. um mál í háskólaráði, áður en það spor er stigið að veita stúdentum beinlínis atkvæðisrétt um eigin vandamál. Það er a.m.k. andstætt þeirri meginreglu, sem gildir í réttarfarinu hvað þetta snertir, og þó að ég vilji ekki jafna þeim málum, sem þarna yrðu til umr., saman við þau mál, sem koma til kasta dómstóla, þá hygg ég þó ekki fjarstæðu að benda á í þessu sambandi, að um það mætti mjög deila almennt, hvort æskilegt sé að láta stúdenta hafa beinan atkvæðisrétt í háskólaráði um eigin mál. Hitt tel ég æskilegt og til bóta að kveðja þá til ráða og rétt að reyna þá skipan um skeið, áður en stærra spor er stigíð. Ég hygg, að það sé svo, að í Noregi hafi fulltrúi stúdenta einnig atkvæðisrétt, en sú skipan er alveg ný. Ég hygg, að það mundi einnig verða til bóta að afla um það upplýsinga, hvernig það hefur gefizt þar, áður en slíkur háttur yrði tekinn upp hér. Slíku sem þessu mætti alltaf breyta síðar, ef ástæða þætti til.

Þá flytur hv. þm. einnig brtt. varðandi embættaveitingarnar. Hér er hreyft mjög viðkvæmu máli. Hv. þdm. er án efa kunnugt um, hver afstaða háskólans hefur verið og er enn í þessu máli. Það hefur verið stefna forráðamanna háskólans, þó að henni hafi að vísu verið haldið misjafnlega fram, að háskólinn ætti að hafa sjálfdæmi varðandi embættaveitingar og ráða sjálfur því, hverjir ráðast til embætta við háskólann. Hins vegar hefur það verið skoðun stjórnvalda, alveg án tillits til þess, hverra flokka menn hafa farið með ríkisvaldið, að það væri óeðlilegt. Um þetta hafa oft og tíðum staðið harðar deilur. Nú um 14 ára skeið hefur verið á þessu skipan, sem samkomulag varð um milli þáverandi menntmrh., Magnúsar Jónssonar próf., og háskólans. Sú skipan er í stórum dráttum þannig, að þegar embætti við háskólann er veitt, skal skipa dómnefnd eftir ákveðnum reglum. Ráðherra er ekki bundinn af áliti þeirrar dómnefndar að öðru leyti en því, að telji meiri hl. dómnefndar einhvern umsækjanda óhæfan til þess að gegna starfinu, má ekki veita honum það. Dómnefnd, sem háskólinn hefur að vísu meiri hl. í, getur ályktað umsækjanda óhæfan, og þá má ekki veita honum embætti. Önnur ráð varðandi embættaveitinguna hefur háskólinn ekki. Að öðru leyti er veitingarvaldið óskert í hendi ráðherra. Um þessa skipun hefur verið mjög sæmilegur friður s.l. 14 ár.

Í því frv., sem nefnd, aðallega skipuð háskólamönnum, samdi, var gert ráð fyrir því, að þessari skipun yrði nokkuð breytt og íhlutunarvald háskólans um veitingu embætta yrði aukið talsvert. Ég taldi ekki rétt að fallast á að gera þessa breytingu á ríkjandi skipan, en taldi hins vegar eðlilegt, eins og lagt er til í þessu frv., að sú skipan, sem gilt hefur s.l. 14 ár, en á sér eingöngu stoð í reglugerð, verði gerð að lagaákvæði, að gildandi reglugerðarákvæði, sem góður friður hefur verið um s.l. 14 ár, verði gerð að lagaákvæði. Sú ráðstöfun hygg ég að verði farsælust.

Nú leggur hv. 1. landsk. þm. til, að áhrifavald háskólans á veitingu embætta verði nokkuð skert frá því, sem nú er, að binding á veitingarvaldi ráðherra sé við það miðað, að dómnefndin hafi einróma látið í ljós það álit, að hlutaðeigandi sé óhæfur til að gegna embættinu. Nú dugir, að meiri hlutinn telji umsækjandann óhæfan, þá má ekki veita honum embætti. Hv. þm. leggur til, að n. skuli öll láta í ljós það álit, að hann sé óhæfur, og þá og því aðeins sé ráðherra bundinn.

Ég þykist vita, að þessi brtt. muni sæta eindregnum mótmælum háskólaráðs. Ég treysti mér ekki til að mæla með henni, heldur ítreka það, sem ég sagði, þegar málið var hér fyrst til umræðu, að ég tel affarasælast, að sú skipun, sem verið hefur undanfarið, fái að haldast og hún fái lagagildi.

Að síðustu vildi ég fara fáeinum orðum um þá brtt. hv. þm., þar sem hann leggur til, að heimild háskólaráðs til að takmarka aðgang að deildum háskólans sé felld niður. Ég vil taka fram, að ég er þeim hugsunarhætti, sem kom fram í ræðu hans varðandi þetta efni, algerlega sammála. Ég tel, að háskólanám eigi að vera opið. Ég tel, að grundvallarreglan eigi að vera sú, að háskólinn eigi að vera opinn öllum, sem staðizt hafa tilskilið inntökupróf í hann, þ.e. lokið stúdentsprófi. Ég tel, að aldrei eigi að koma til takmörkunar á inngöngurétti stúdenta í háskóladeild, nema ítrasta nauðsyn krefji. Ég hef rætt þetta mál við forráðamenn háskólans, rætt einmitt við þá, hvort þeir teldu ekki tímabært að nema þetta ákvæði úr gildi. Þeir töldu heppilegt að láta það vera í gildi áfram, en lýstu því jafnframt mjög eindregið yfir, að engar tillögur væru uppi um að beita því, engar fyrirætlanir væru á döfinni í þá átt, og því mætti treysta, að þessu ákvæði yrði ekki beitt nema þá að mjög vandlega athuguðu máli og í samráði við stjórnarvöld, ef nauðsynlegt væri af alveg sérstökum ástæðum. Slíkri yfirlýsingu forráðamanna háskólans vildi ég fyrir mitt leyti treysta.

Þær kringumstæður geta hins vegar verið fyrir hendi, að gagnlegt, jafnvel nauðsynlegt sé, að heimild til slíkrar takmörkunar sé í lögum. Í því sambandi vil ég nefna tvö dæmi um ástandið eins og það er raunverulega nú. Nú fer fram kennsla til fyrrihluta prófs í verkfræði við háskólann og kennsla til kandídatsprófs í tannlækningum. Í báðum þessum greinum er nokkur hluti námsins verklegur, og setja kennsluaðstæður þeim fjölda nemenda, sem hægt er að taka við á ári hverju, ákveðin takmörk. Þess vegna er það svo, að til náms í tannlækningum og til náms í verkfræði hefur ekki verið tekið við nema ákveðinni tölu nemenda á hverju hausti, einfaldlega af þeirri ástæðu, að ekki er hægt vegna kennsluaðstöðu að veita ótakmörkuðum fjölda nemenda inngöngu í skólann. Ég held, að þetta hafi verið gert með einfaldri ákvörðun hlutaðeigandi deildar, en ekki með beinni tilvitnun í gildandi lagaákvæði, þar sem háskólaráði er heimilt að takmarka aðgöngu í einstakar deildir. Allir hlutaðeigandi hafa skilið það. Það er augljóst mál, eins og t.d. kennsluaðstöðu í tannlæknadeild er háttað, að ekki er hægt að taka þar við nema ákveðinni tölu nemenda, og sama má segja um verkfræðideildina. Ef nú hins vegar þetta ákvæði yrði fellt úr háskólalögunum og háskólinn sem stofnun hefði enga lagaheimild til þess að takmarka þá tölu, sem tekin er til náms í tannlækningum og verkfræði, kynni að vera, að svo yrði litið á sem háskólanum og ríkisvaldinu yrði skylt að sjá öllum þeim fyrir kennslu í tannlækningum og verkfræði, sem um það sæktu. Það mundi vafalaust reynast algerlega óframkvæmanlegt t.d. á næsta hausti að fullnægja þeim umsóknum, sem fyrir lægju. Mér er kunnugt um, að það er til athugunar, sérstaklega að því er snertir tannlæknadeildina, að bæta aðstöðu hennar þannig, að hún geti tekið við fleiri nemendum. En það tekur nokkurn tíma, og er ekki víst, að það verði hægt að gera fyrr en hún hefur fengið það húsnæði, sem henni er fyrirhugað í nýju landsspítalabyggingunni.

Rétt er að hafa þetta atriði í huga, að ekki er rétt að leggja beinlínis þá skyldu á háskólann að taka við nemendum, sem hann hefur enga aðstöðu til þess að taka við. Jafnframt verður að gera sér grein fyrir því, að það mál gæti orðið allmikið fjárhagsatriði, því að þessi kennsla er dýr, en ég er ekki viss um að menn hafi hugleitt, að þetta atriði hefur einnig þessa hlið.

Ég vildi einnig á það benda, að í öðrum háskólum er það mjög algengt, að tekin sé aðeins ákveðin tala nemenda til náms í ákveðnum tæknigreinum á ári hverju, þar sem kennsluaðstaða með eðlilegum hætti bindur tölu þeirra nemenda, sem námið geta stundað, t.d. aðstaðan til verklegs náms, eins og ég veit að hv. 1. landsk. þm., sem er læknir, gerir sér hina ljósustu grein fyrir, jafnvel þó að grundvallarstefna hlutaðeigandi háskóla sé sú, að námið skuli vera þar algerlega frjálst. Þess vegna ítreka ég það, sem ég sagði um þetta við 1. umr. málsins, að ég hygg óhjákvæmilegt að hafa slíka heimild í lögum, eins og hún er þarna orðuð, en vildi aðeins enn ítreka þá skoðun, sem forráðamenn háskólans hafa látið í ljós við mig, að þessu ákvæði muni að óbreyttum öllum aðstæðum ekki verða beitt til þess almennt að torvelda stúdentum aðgang að háskólanum. Ég vil bæta því við, að meðan ég gegni þeirri stöðu, sem ég gegni nú, mundi ég fyrir mitt leyti aldrei samþykkja slíkt.